is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11510

Titill: 
  • Blæðingar frá meltingarvegi á Landspítala 2010. Orsakir og horfur
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Bráðar blæðingar frá efri og neðri hluta meltingarvegar eru algeng ástæða innlagna á Landspítala en hingað til hafa ekki verið til neinar tölur hér á landi um tíðni og orsakir blæðinga frá meltingarvegi á ári. Markmið verkefnisins voru að kanna orsakir blæðinga og hversu stór hluti þessara sjúklinga eru meðhöndlaðir gegnum maga- eða ristilspeglun og hve árangursrík sú meðferð er. Að sama skapi kanna hversu margir þurfa að gangast undir skurðaðgerð til að stoppa blæðingar af þessu tagi. Einnig að kanna þátt blóðþynnandi lyfja sem og NSAID (bólgueyðandi lyf sem ekki eru sterar) í blæðingu og/eða meinmyndun.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin er framsýn og úrtakið telur allar maga- eða ristilspeglanir sem framkvæmdar voru á LSH frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2010. Ábendingar og niðurstöður speglunar voru skráðar niður af viðkomandi meltingarlækni og hjúkrunarfræðingar á speglunardeild tóku niður lyfjasögu sjúklings. Farið var í gegnum sjúkraskrá þeirra sjúklinga sem greindir voru með blæðingu eða grun um hana. Ábendingar, lyf og niðurstöður voru svo sannreyndar.
    Niðurstöður: Speglanir á LSH voru 3347 og einstaklingar sem fóru í speglun töldu 2481. Af þeim voru 559 (22,5%) með blæðingu frá meltingarvegi og þar af 234 (41,9%) frá efri hluta meltingarvegar og 325 (58,1%) frá neðri hluta meltingarvegar. Af þessum 2481 voru 350 (14,1%) tilfelli þar sem að óljóst var um hvort blæðingu var að ræða eður ei. Nýgengi blæðingar frá efri hluta meltingarvegar var 155/100.000 og nýgengi blæðinga frá neðri hluta meltingarvegar var 189/100.000. Einstaklingar á aldrinum 18-59 töldu um 45% blæðinga á meðan sjúklingar 60 ára og eldri töldu 55%. Kynjahlutfall var 53,5% karlar og 46,5% konur. Helstu niðurstöður magaspeglunar voru skeifugarnarsár, 17,1%, og magasár, 16,2%. Helstu niðurstöður ristilspeglunar voru krabbamein, 15,1%, og ristilpokar (diverticulosa) 13,5%. Af öllum 234 tilfellum blæðingar frá efri hluta meltingarvegar var skurðaðgerð framkvæmd vegna blæðingar þrisvar sinnum (1,3%). Dauðsföll af völdum blæðingar frá efri meltingarvegi voru tvö (0,36%), annað vegna nekrótískrar magaslímhúðar og afbrigðileika í blóðstorknun, hitt vegna samspil blæðandi magasárs og hjartaáfalls. Af öllum 325 blæðingum frá neðri hluta meltingarvegar var eitt dauðsfall, þá hafði krabbamein í blöðruhálskirtli vaxið inn í ristil sem orsakaði blæðingu sem ekki var hægt að stöðva. Fleiri sjúklingar voru meðhöndlaðir með NSAID (p=0,006), hjartamagnýl (p=0,0007), kóvar (p=0,034) og NSAID + hjartamagnýl (p=0,0001) á meðal þeirra sem voru með blæðandi maga- og eða skeifugarnarsár (n=93) miðað við samanburðarhóp (n=186).
    Ályktun: Nýgengi blæðinga frá meltingarvegi er hátt á Íslandi. Langflesta sjúklinga er hægt að meðhöndla með lyfjum eða með speglunartæki á framgangsríkan hátt. Horfur eru almennt góðar og skurðaðgerðir og dauðsföll vegna blæðingar eru fátíð. NSAID og blóðþynnandi lyf virðast eiga þátt í blæðandi maga-og skeifugarnarsárum.

Samþykkt: 
  • 8.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11510


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BSRitgerdloka.pdf1.13 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna