is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10311

Titill: 
  • „Moldin sem börnin þrífast í þarf að vera dálítið hlý“ : upplifun nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda af virknimati og einstaklingsmiðaðri stuðningsáætlun
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ritgerðin segir frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á upplifun nemenda með langvarandi hegðunarerfiðleika, foreldra þeirra, kennara, þroskaþjálfa og skólastjórnenda af virknimati og stuðningsáætlunum. Virknimat er aðferð til að meta áhrifaþætti á erfiða hegðun og stuðningsáætlun lýsir heildstæðu inngripi til að bæta hegðun.
    Meðal þátttakenda voru fjórir 7–8 ára drengir sem fengu stuðnings-áætlun veturinn 2010–2011, foreldrar þeirra og kennarar. Tekin voru hálfopin viðtöl við nemendurna fyrir og eftir inngrip en við foreldrana og kennarana eftir inngripið. Einnig voru tekin viðtöl við tvo 15 og 16 ára nemendur sem fjórum árum áður höfðu fengið stuðningsáætlun og foreldra þeirra til að heyra viðhorf þeirra sem lengra eru komnir frá ferlinu. Auk þess voru tekin viðtöl við einn þroskaþjálfa, þrjá kennara og þrjá skólastjórnendur sem höfðu a.m.k. tveggja ára reynslu af þessum vinnubrögðum. Nemendurnir höfðu allir langa sögu um hegðunarerfiðleika og fjórir þeirra höfðu greiningu um ADHD. Viðtölin voru tekin upp, skráð orð fyrir orð og greind í þemu með aðstoð tölvuforritsins Nvivo 2.0.
    Þátttakendum bar saman um að aðferðin skilaði góðum árangri hvað varðaði hegðun, líðan og námsárangur nemenda. Nemendurnir sögðust vilja að komið væri fram við þá af virðingu og óskuðu eftir leiðbeinandi tilsögn. Foreldrarnir greindu almennt bætta líðan hjá börnum sínum. Kennararnir voru almennt ánægðir með virknimat og einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir en nefndu hvaða þættir gætu bætt framkvæmdina eins og símenntun, skilningur skólastjórnenda, hvatning og aukinn tími til að beita aðferðunum. Skólastjórnendum bar saman um að jákvætt viðmót kennara og trú þeirra á aðferðunum gerðu gæfumuninn.
    Niðurstöðurnar benda til þess að nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla upplifi virknimat og stuðningsáætlanir sem jákvæð og árangursrík úrræði, en huga þurfi að því að starfsfólk skóla hafi nægilega þekkingu og svigrúm til þess að beita þeim. Niðurstöðurnar ættu að geta hjálpað skólafólki við að koma betur til móts við þarfir nemenda með langvarandi hegðunarerfiðleika.

Samþykkt: 
  • 21.11.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10311


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sesselja Árnadóttir Skemman.pdf2.18 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna