is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10421

Titill: 
  • Athyglisbrestur og ofvirkni barna og unglinga í siðrænu ljósi
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Athyglisbrestur og ofvirkni í börnum og unglingum er algengt heilsufarslegt vandamál sem hefur verið einstaklega mikið rannsakað (Goldman, 1998, Pliszka, 2007). Algengi þess á heimsvísu í börnum yngri en 18 ára er 5% (Polanczyk, 2007) og það er þriðja alvarlegasta heilsuvá barna yngri en 14 ára (Phua, 2009). Þar er um normaldreifða eiginleika að ræða og því er eðlilega deilt um hvar mörk heilbrigðis og sjúkleika skulu lögð. Það skortir á samræmi milli þeirra tveggja greiningarkerfa sem notuð eru, þ.e. ICD-10 og DSM-IV. Það fyrra virðist vangreina vandann og það seinna ofgreina. Orsakir þessara einkenna eru afar flókið samspil erfða og umhverfis (Steinhausen, 2009). Klínísk lýsing á hegðun barna og unglinga með athyglisbrest og ofvirkni samrýmist vel því sem almenn og aristótelísk rök kalla breyskleika. Til þess að renna stoðum undir að svo sé þarf að kortleggja skipulega siðferðisþroska barna með athyglisbrest og ofvirkni. Slíkir breyskleikar greina sig frá almennum breyskleika og eru því réttilega nefndir sjúklegir breyskleikar, þ.e.a.s. veikindi. Í ritgerðinni eru sett fram sex siðferðileg viðmið til þess að frávik í hegðun barna og unglinga geti flokkast sem veikindi. Fjögur þessara viðmiða hafa verið uppfyllt hvað snertir athyglisbrest og ofvirkni en það skortir enn samfélagslegan sáttmála um það hvar greiningarmörk skuli dregin.
    Greining og meðferð á athyglisbresti og ofvirkni hvíla á þeim grunni að einkenni og afleiðingar þeirra séu hamlandi fyrir félagsleg samskipti, nám og starfsframa. Farsælli persónumótun eru skorður settar í þeim börnum sem greinast með athyglisbrest og ofvirkni. Það eru tvenns konar ógnir við heilbrigða samfélagsþátttöku þeirra. Báðar eru dæmi um kúgun. Áður fyrr voru sérþarfir þessarra barna vanræktar (hin innri útskúfun eða útilokun) og sjálfsmat þeirra og sjálfsvirðing brotin á bak aftur af vanþekkingu og ræktarleysi. Hin hraða sjúkdómsvæðing getur leitt af sér að slík börn eru gerð að óábyrgum siðferðisverum og óásættanleg hegðun útskýrð og afsökuð með sjúkdómshugtaki sem að auki veldur barninu félagslegri höfnun sakir fordóma gagnvart geðsjúkdómum (hin ytri útskúfun eða útilokun). Barnið lærir að afsaka hegðun sína með veikindum og hættir að leggja sig fram við samskipti og nám sem skerðir möguleika þess til að þroska færni sína til að njóta fullorðinsára. Samkvæmt meðalhófsreglu Aristótelesar gæti talist æskilegt að rata meðalhófið milli þessara tveggja öfga.
    Loks sýni ég fram á að börn með athyglisbrest og ofvirkni líða fyrir skort á sjálfræði, velferð og réttlæti. Ég færi rök fyrir því þau eigi erfiðara en heilbrigð börn með að tileinka sér dýrmæt gildi sem bæta einstaklinga og samfélög. Jafnframt eiga þessi börn erfiðara með að tileinka sér sálrænar dyggðir sem hér eru kallaðar tign, reisn og göfgi. Þau eiga því rétt á skilningi og stuðningi samfélagsins. Í þeim býr mikill mannauður sem nýtist samfélaginu þegar vel tekst til með persónumótun þeirra. Veikustu börnin og þau sem búa við ófullnægjandi félagslegt atlæti geta orðið tignarleysi, dáðleysi og forherðingu að bráð. Slík persónumótun er verulega íþyngjandi fyrir samfélagið. Það er siðferðilegt viðfangsefni að greina og meðhöndla athyglisbrest og ofvirkni í börnum og unglingum og sporna skipulega gegn alvarlegustu fylgikvillum þessara algengu veikinda. Tekið er undir það sjónarmið breska barnalæknisins George F. Still frá upphafi 20. aldar að athyglisbrestur og ofvirkni sé sjúkdómur í siðferðisþroska barna og unglinga.

Samþykkt: 
  • 21.12.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10421


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Björn Hjálmarsson.pdf1.02 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna