is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10452

Titill: 
  • Ber móðurfélag ábyrgð á skuldbindingum dótturfélaga sinna? Helstu hættur og vandamál í tengslum við samstæður
  • Titill er á ensku Are parent companies liable for financial commitments of their subsidiaries? The major risks and problems associated with groups of companies.
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Meginreglan um takmarkaða ábyrgð er einn af hornsteinum hlutafélagalöggjafar flestra efnahagslega þróaðra ríkja. Reglan gerir einstaklingum kleift að stunda viðskipti í gegnum félagaform sem skýlir persónulegum eigum viðkomandi fyrir öllum fjárhagslegum kröfum sem eiga rót sína að rekja til athafna félagsins. Fyrir hluthafa félagsins þýðir þetta að ábyrgð þeirra á fjárskuldbindingum félagsins er takmörkuð við það hlutafé sem þeir hafa lagt eða samþykkt að leggja inn í félagið. Þótt kostir reglunnar um takmarkaða ábyrgð séu margir og veigamikil rök mæli með tilvist hennar er ljóst að hún er langt frá því að vera óumdeild.
    Þegar tengsl tveggja eða fleiri hluta- og/eða einkahlutafélaga eru með ákveðnum hætti verður ákveðin eðlisbreyting á lagalegri stöðu þeirra og teljast þau þá móður- og dótturfélag sem saman mynda samstæðu félaga. Tilvist þessara fyrirbæra, samstæðna félaga, hefur leitt af sér margvísleg og flókin álitamál sem flest eiga rót sína að rekja til þess að hagsmunir móðurfélagsins og hluthafa þess eru ekki endilega alltaf þeir sömu og hagsmunir dótturfélaganna eða kröfuhafa þeirra. Reglan um takmarkaða ábyrgð spilar stórt hlutverk í þessu sambandi, enda gilda sömu reglur um móðurfélag og aðra hluthafa félaga. Það þýðir að reglan um takmarkaða ábyrgð gildir einnig innan samstæðna, með þeim afleiðingum að móðurfélag ber ekki ábyrgð á skuldbindingum dótturfélaga sinna.
    Þótt gagnrýni á regluna um takmarkaða ábyrgð sé af ýmsum toga er það þessi birtingarmynd hennar sem hlotið hefur hvað harðasta gagnrýni og orðið kveikjan að umræðum um hvort sérsjónarmið ættu að gilda um samstæður. Í því sambandi hefur sérstaklega verið nefnt hvort eðlilegt sé að móðurfélög beri ríkari ábyrgð á skuldbindingum dótturfélaga sinna en raun ber vitni. Slíkar hugmyndir eru studdar þeim rökum að algengt sé að móðurfélag nýti sterka stöðu sína til þess að stjórna samstæðunni sem einni efnahagslegri heild með eigin hagsmuni í forgrunni. Við þær aðstæður eru kröfuhafar dótturfélaganna sérstaklega útsettir fyrir tjóni. Álitaefni tengd slíkum hugleiðingum eru einmitt kjarni þessarar ritgerðar en meginmarkmið hennar er að greina hvaða reglur gilda um ábyrgð móðurfélags á skuldbindingum dótturfélaga sinna. Þannig er ætlunin að varpa ljósi á þær undantekningar frá téðri meginreglu sem íslenskur réttur hefur að geyma og hvaða skilyrði þarf að uppfylla í tilviki einstakra undantekninga. Í því skyni verða þau sjónarmið sem þar búa að baki rannsökuð ítarlega og reynt að greina hvað ræður þar mestu um. Þá verður farið í saumana á dómaframkvæmd Hæstaréttar í málum sem fjalla um slíkar undantekningar. Dómar sem varða skaðabótaábyrgð móðurfélaga og ólögfestar undantekningar frá meginreglunni eru þar fyrirferðamestir, enda má segja að þungamiðja ritgerðarinnar sé umfjöllun um gildandi rétt þar að lútandi. Eftir því sem umfjöllunarefnið hverju sinni gefur tilefni til að verður í ritgerðinni jafnframt vikið að réttarstöðunni í öðrum löndum
    Ritgerðin skiptist gróflega í tvo hluta. Uppbygging hennar er með þeim hætti að fyrri hlutinn hefst á umfjöllun um meginregluna um takmarkaða ábyrgð. Því næst verður stuttlega vikið að hugtakinu samstæða í víðum skilningi ásamt helstu kostum formsins, áður en samstæður í skilningi félagaréttar verða skilgreindar á ítarlegan hátt. Í kjölfarið verður gerð grein fyrir helstu vandamálunum sem koma upp í tengslum við samstæður félaga. Þeirri yfirferð er ætlað auka skilning lesandans á samstæðuforminu og hefur talsverða þýðingu fyrir eftirfarandi umfjöllun um ábyrgð móðurfélaga á skuldbindingum dótturfélaga sinna. Að meginstefnu til skiptist sá kafli í þrjá hluta; umfjöllun um stöðu eigenda minnihluta hlutafjár dótturfélaga, stjórnun móðurfélags á dótturfélögum sínum og stöðu kröfuhafa innan samstæðna.
    Síðari hluti ritgerðarinnar hefst á því að áréttað er hver verkan meginreglunnar um takmarkaða ábyrgð er gagnvart félögum í samstæðutengslum. Í næstu þremur köflum þar á eftir verður undantekningum frá reglunni svo gerð skil og verður fyrst fjallað um samningsbundnar undantekningar. Þar er umfjöllun um stuðningsyfirlýsingar fyrirferðamest, enda leikur nokkur vafi á réttaráhrifum slíkra yfirlýsinga. Því næst verður vikið að lögbundnum undantekningum frá títtnefndri meginreglu en í þeim kafla vegur þyngst umfjöllun um skaðabótaábyrgð móðurfélags sem hluthafa dótturfélags. Þá verður þess freistað að skera úr um hvort íslenskur réttur hefur að geyma ólögfestar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa en slíkar reglur má finna í rétti ýmissa annarra ríkja. Í þeim kafla verða reglurnar um ábyrgð skuggastjórnenda og brottfall ábyrgðartakmörkunar teknar til skoðunar og kappkostað að ákvarða hvort þær séu hluti af íslenskum rétti. Að síðustu verður það gert að umtalsefni hvort breytinga sé þörf á hlutafélagalögum með tilliti til samstæðna með hliðsjón af niðurstöðum ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
  • 5.1.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10452


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Kári Ólafsson-tilbuin.pdf2.54 MBLokaður til...01.01.2025HeildartextiPDF
Yfirlýsing%20vegna%20lokaverkefnis.pdf245.47 kBLokaðurYfirlýsingPDF