is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10788

Titill: 
  • Menningararfur í frásögnum leiðsögumanna
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Þessi ritgerð fjallar um miðlun menningararfs og mótun hans í frásögnum íslenskra leiðsögumanna. Að baki ritgerðinni liggur eigindleg rannsókn höfundar, unnin á tímabilinu frá vori og til loka árs 2011. Efnis var aflað hjá fimm heimildarmönnum: Annars vegar með vettvangsrannsóknum, þar sem fylgst var með leiðsögnum heimildarmannanna í ferðum um Ísland; hins vegar með viðtölum við heimildarmennina hvern fyrir sig.
    Markmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á það hvernig íslenskir leiðsögumenn vinna með þemu úr íslenskum menningararfi í leiðsögnum sínum, móta þannig menningararfinn og miðla honum til erlendra ferðamanna.
    Ritgerðin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um hugtakið „menningararfur“, fyrst í víðu samhengi en síðan í tengslum við ferðaþjónustu sérstaklega. Í öðrum og þriðja hluta er unnið úr rannsókninni. Fyrst eru skoðuð efnistök leiðsagnanna og helstu þemu, en síðan framsetning efnis og viðhorf leiðsögumannanna til efnisins og frásagnanna.
    Helstu niðurstöður varðandi efnistök eru þær, að samband manns og náttúru skín hvarvetna sterkt í gegn hjá leiðsögumönnunum. Menningararfurinn er í leiðsögninni tengdur landinu órofa böndum: frásagnir spretta af landinu þegar farið er um það og vekja þannig umhverfið til lífsins. Leiðsögumennirnir leggja einnig mikla áherslu á það hvernig íslensk náttúra hafi mótað íslensku þjóðina og undirstrika þannig enn hin sterku tengsl Íslendinga og íslenskrar náttúru.
    Hvað framsetningu efnis og viðhorf leiðsögumanna varðar er einkum velt upp spurningum um sannleiksgildi og sanngildi (e. authenticity) efnis. Niðurstöður þar eru á þá leið, að leiðsögumennirnir telja ekki skipta öllu máli þó ekki sé alltaf farið fullkomlega rétt með staðreyndir og nákvæmar upplýsingar. Aftur á móti þykir þeim höfuðatriði að leiðsögumenn tali af heilindum, að frásagnir þeirra séu „ekta“ og segi eitthvað um íslenskt samfélag og þjóð – „hvernig fólk við erum.“ Að auki telja leiðsögumennirnir nauðsynlegt að halda hæfilegri blöndu skemmtana- og fræðslugildis í frásögnum sínum: Mikilvægt sé að drekkja ekki ferðamönnunum í flóknum upplýsingum, heldur gæta þess að halda frásögninni hæfilega einfaldri – og muna að mestu máli skiptir að fólk njóti ferðarinnar og eigi ánægjulega upplifun af Íslandi.

Samþykkt: 
  • 3.2.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10788


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
SIGRUN-BA-FINAL.pdf595.71 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
sigrun_ba_forsida.pdf89.92 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna