is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlindadeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Auðlindadeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10850

Titill: 
  • Hvítsmáratún til beitar
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í sjálfbærum búskap nú til dags gegna belgjurtir lykilhlutverki. Þær binda nitur með aðstoð jarðvegsbaktería og geta því dregið úr þörf fyrir tilbúinn nituráburð. Annar kostur við belgjurtir er hversu næringarríkar þær eru. Hafa þær oftast hærra próteinog
    steinefnainnihald en grös. Hér á landi hafa verið gerðar tilraunir með notkun belgjurta í túnum. Hafa sjónir manna aðallega beinst að rauðsmára (Trifolium pratense) og hvítsmára (Trifolium repens) en þeir hafa reynst best hér á landi.
    Rauðsmári þykir henta betur til sláttar en hvítsmári til beitar. Í erlendum rannsóknum hefur komið í ljós að lömb sem beitt er á hvítsmára vaxa betur en þau lömb sem beitt er á gras eingöngu.
    Því var farið af stað með rannsókn hér á landi til að athuga hvort að þetta væri raunin hér á landi líka og til að finna leið til að samnýta hvítsmáratún til beitar og sláttar.
    Hvítsmáratún geta verið valkostur fyrir þá bændur sem þurfa að treysta á láglendisbeit fyrir féð sitt. Fyrir tilraunina var sáð í tún á tilraunastöðinni á Hesti árið 2005 hvítsmára með svarðanautunum vallarfoxgrasi (Phleum pratense) annarsvegar
    og vallarsveifgrasi (Poa pratense) hinsvegar. Árin 2006 og 2007 var það síðan beitt vor og haust með tveimur mismunandi beitarþungum, 5 tvílembum á hektarann annarsvegar og 8 tvílembum á hektarann hinsvegar. Einnig var túnið slegið seinnipart júlí og heyið hirt af því. Lömbin voru vigtuð fyrir og eftir beitarloturnar auk þess sem þau voru ómmæld fyrir og eftir haustbeitarlotuna. Þá fengust upplýsingar úr sláturhúsi um fallþunga, gerðareinkunn og fitueinkunn. Til viðmiðunar var lambahópur sem gekk á úthaga yfir sumarið og var beitt á há að
    hausti. Bæði árin, 2006 og 2007, var borið á túnið 30 kg/N fyrir vorbeitarlotuna og einnig 20 kg/N eftir sláttinn. Árið 2007 var auk þess borin 20 kg/N eftir vorbeitina en það var ekki gert árið 2006 þar sem túnið þótti það loðið að ekki væri gott að bæla slægjuna með umferð. Túnið kom ágætlega upp þrátt fyrir svolítið illgresi í því árið 2006. Þá var 38,4% af uppskeru í vallarsveifgrashlutanum illgresi og 22,3% í vallarfoxgrashlutanum. Smárahlutfall í uppskeru var líka lélegt það ár. Það reyndist rúm 4% í vallarsveifgrasinu og innan við 1% í vallarfoxgrasinu. Þrátt fyrir þetta var efnainnihald og magn uppskerunnar viðunandi miðað við hversu seint var slegið.
    Árið 2007 var smárinn meiri í túninu eða um 7% í vallarfoxgrasinu og um 16% í vallarsveifgrasinu. Þá var uppskeran líka betri af túninu í slættinum. Vöxtur lambanna á hvítsmáratúninu var meiri en viðmiðunarhópsins bæði árin. Munurinn var reyndar ekki mikill og ekki reyndist alltaf marktækur munur á vexti lamba eftir því í hvaða hóp þau voru sem er líklega til komið af því hversu fá lömb
    voru í hverjum hóp, en það hefur áhrif á tölfræðiuppgjörið. Þegar árin eru skoðuð saman kemur í ljós að vöxtur hópanna seinnihluta sumars var að meðaltali 222 gr/dag, 236 gr/dag og 195 gr/dag fyrir hópinn með meiri beitarþunga, hópinn með minni beitarþunga og viðmiðunarhópinn, í sömu röð. Hvítsmárahóparnir uxu
    iii marktækt meira en viðmiðunarhópurinn (P<0,05). Auk þess bættu þeir meira við sig í vöðva og fitu milli ómmælinganna fyrir og eftir haustbeitarlotuna. Þá reyndist hópurinn sem var á léttari hvítsmárabeitinni hafa hæstan fallþunga, 16,62 kg að meðaltali ef bæði ár eru skoðuð saman. Ekki reyndist marktækur munur milli þess
    hóps og hópsins á þyngri beitinni en hann var 15,16 kg að meðaltali. Viðmiðunarhópurinn var 14,77 kg að meðaltali sem er marktækt lægra en hópurinn á léttari beitinni en ekki við hópinn á þyngri beitinni. Þegar árin eru skoðuð saman var gerðar- og fitueinkunn marktækt hærri hjá hópnum á léttari hvítsmárabeitinni en hinum hópunum, 11,19 fyrir gerð og 7,24 fyrir fitu á móti 9,04 fyrir gerð og 5,80 fyrir fitu hjá hópnum á þyngri hvítsmárabeitinni og 9,49 fyrir gerð og 5,50 fyrir fitu
    hjá viðmiðunarhópnum. Almennt séð flokkuðust því lömbin á léttari beitinni betur miðað við hina hópana hvað varðar gerð en var reyndar nokkuð feitari. Það virðist því vera ýmislegt að sækja með notkun hvítsmára í tún sem ætluð eru til beitar. Hægt er að fá fram meiri vöxt hjá lömbum á hvítsmáratúnum heldur en ef þau
    eru á úthaga sem er kostur fyrir þá bændur sem treysta þurfa á láglendisbeit. Auk þess er hægt að heyja túnin þannig að þau er hægt er að nýta í tvennum tilgangi.

Samþykkt: 
  • 21.2.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10850


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerðin-Steingrímur.pdf162.11 kBOpinnPDFSkoða/Opna