is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11458

Titill: 
  • Skuldir Íslendinga síðustu 20 ár. Greining á gögnum úr skattframtölum
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Skuldir íslenskra heimila hafa aukist mikið á undanförnum áratugum. Í alþjóðlegum samanburði eru skuldir Íslendinga einna mestar hvort sem miðað er við ráðstöfunartekjur eða landsframleiðslu. Mikil áhersla hefur undanfarið verið á að rannsaka einkenni og áhrif skulda heimila enda virðist umfang og dreifing þeirra geta skipt miklu máli bæði fyrir hagvöxt og við miðlun og framgang áfalla. Skuldaaukning heimila, eignaverðbólur og kreppur hafa verið tengd fyrirbæri í gegnum tíðina. Til að sporna við þessum vítahring og myndun eignaverðbóla hafa mörg lönd nýlega tekið upp þjóðhagsvarúðarreglur svo sem hámark veðsetningarhlutfalls og hlutfalls skulda af tekjum.
    Fram að þessu heftur dreifing skulda heimila að mestu verið skoðuð með tilliti til aðstæðna á hverjum tíma. Hér eru gögn úr skattframtölum nýtt til að skoða þróun dreifingar skulda heimila yfir tíma meðal annars eftir aldri, búsetu og veðhlutföllum. Þannig er til dæmis skoðað hvernig hlutfall framteljenda með neikvæða eiginfjárstöðu breytist yfir tíma. Leitast er við að meta hvaða áhrif innkoma bankanna á íbúðalánamarkað og slökun á útlánaskilyrðum hefur haft á dreifingu og samsetningu skulda heimila og umfang skuldugasta hópsins. Einnig eru þjóðhagsvarúðarreglur teknar til skoðunar.
    Eins og við mátti búast sýna skattframtöl að yngstu hóparnir eru skuldsettastir en hlutfall skulda af eignum eykst hjá öllum aldurshópum og er í öllum tilvikum hærra í lok tímabilsins en í upphafi þess. Þá skuldaði um fimmtungur framteljenda meginhluta tímabilsins meira en 85% af eignum og hefur hlutfall þessa hóps af framteljendum verið nokkuð stöðugt yfir þau ár sem hér var litið til, að undanskildum síðustu tveimur árunum þegar fjölgaði í þessum hópi. Árið 1995 skuldaði ríflega 20% framteljenda meira en 85% eigna sinna og voru það tæplega helmingur af öllum skuldum. Árið 2007 var þessi hópur álíka stór og skuldaði ríflega 40% af heildarskuldum heimilanna skv. skattframtölum. Þetta gefur vísbendingar um að þessi mikla skuldaaukning hafi orðið hjá heimilum þar sem mikil eignaaukning varð samhliða. Meðaleignir, -skuldir og –tekjur 25-55 ára hóps hafa verið hæstar í Reykjavík af þeim átta landsvæðum sem litið var til og jókst munurinn eftir því sem á leið tímabilið.
    Gögnin sem unnið er með eru meðaltalsgögn auk staðalfrávika fyrir eignir, skuldir, tekjur og vaxtagjöld einstaklinga og samskattaðra eftir mismunandi niðurbroti í hópa. Í ljós kemur að dreifni í gögnunum er gífurlega mikil og eykst eftir því sem líður á tímabilið sem til skoðunar er. Það virðist því sem skulda- og eignaaukningin hafi að mestu verið hjá fámennum hópi mjög skuldsettra, -og eignamikilla, einstaklinga.

Samþykkt: 
  • 7.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11458


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð maí 2012.pdf3.19 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna