is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12934

Titill: 
  • Kolefnisleki frá Íslandi. Áhrif mögulegs aukakolefnisgjalds á orkufrekan iðnað á Íslandi
  • Titill er á ensku Carbon Leakage from Iceland
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Undanfarna áratugi hefur fjölþjóðlegum samvinnuverkefnum gegn mengun fjölgað og vaxið fiskur um hrygg. Í ársbyrjun 2013 munu fyrirtæki á Íslandi í fyrsta sinn þurfa að borga fyrir losunarheimildir sínar á gróðurhúsagastegundum. Á sama tíma er ríkissjóður í erfiðri stöðu og stanslausri tekjuleit. Hugmyndir hafa skotið upp kollinum um sérstakt aukakolefnisgjald sem lagt yrði á orkufrekan iðnað. Slík skattheimta myndi hafa þann tvöfalda tilgang að bæta umhverfið með minni losun gróðurhúsagastegunda og að afla ríkissjóði tekna. Hins vegar gæti það valdið því að samkeppnisstaða íslensks orkufreks iðnaðar versnaði, að framleiðsla legðist niður eða drægist saman. Valdi kolefniskostnaður slíkri færslu iðnaðar úr landi myndi það flokkast sem kolefnisleki. Til þess að koma í veg fyrir kolefnisleka frá ETS hefur Evrópusambandið sett bæði kísiljárnblendi og álframleiðslu á lista yfir iðnað sem er berskjaldaður fyrir kolefnisleka.
    Það kann að skjóta skökku við að íhuga frekari skattlagningu á iðnað sem skilgreindur hefur verið sem berskjaldaður af Evrópusambandinu en rétt er að líta til sérstöðu íslensks orkufreks iðnaðar á lykilsviðum. Hér er orkuverð lágt og mun ekki hækka vegna kolefniskostnaðar orkuvera þar sem íslensk orkuver munu ekki greiða slíkan kostnað. Enn fremur eru íslensk álver í fremstu röð í umhverfismálum í heiminum og sjá fram á tiltölulega lítinn kostnað við kaup á losunarheimildum. Hér verður framkvæmd næmnisgreining á getu kísiljárblendis- og álframleiðenda til að standa undir viðbótarkolefnisgjaldi samkvæmt mismunandi forsendum. Ársreikningar félaganna árin 2008-2010 og rekstur þeirra ára var tekinn til grundvallar enda var þar um að ræða heppilegt tímabil. Árin voru misgóð fyrir framleiðendur og enn fremur viðmiðunartímabil þeirra hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda.
    Framtíð þess iðnaðar sem hér er skoðaður, járnblendi og álframleiðsla, veltur að miklu leyti á framtíðarþróun sem er óviss. Arðsemi eign fjár í áliðnaði á árunum 2008-2010 var 6,8% á meðan arðsemi járnblendis var einungis 3,3% á sama tíma. Þar skiptir árið 2009 miklu þar sem arðsemi eigin fjár var neikvæð bæði í áliðnaði og járnblendi. Hrávöruverð á heimsmarkaði hefur að mestu jafnað sig síðan þá og áhugi til fjárfestinga
    í orkufrekum iðanði er til staðar. Það má því ætla að staða fyrirtækjanna sé harla góð til lengri tíma.
    Áætlanir Landsvirkjunnar um að hækka verð á raforku til stóriðju og ódýr gasorka beggja megin Atlantsála gefur þó til kynna að tækifæri til skattheimtu fari minnkandi. Aukin svartsýni á farsæla úrlausn efnahagsvanda evrusvæðisins og lítill hagvöxtur iðnríkja leiðir einnig til lækkandi afurðaverðs og dregur þannig úr arðsemi iðnreksturs hér á landi. En ef hagvöxtur iðnríkja tekur við sér með hækkandi eða stöðugu afurðaverði er líklegt að álfyrirtæki sérstaklega geti staðið undir aukakolefnisgjaldi á alla losun. Aðra sögu er þó að segja af járnblendi. Miðað við þá ársreikninga sem hér hafa legið til grundvallar þá gæti járnblendi á Íslandi borgað lítillegt gjald af losun yfir viðmiðum ETS en útséð væri um reksturinn ef gjald, sem einhverju nemur, væri lagt á alla kolefnislosun þess. Þá kæmi hins vegar upp sú staða að lítið væri upp úr sams konar skattheimtu á Álframleiðslu.
    Þær aðstæður sem hér eru tíundaðar eru þess eðlis að ekki er tímabært að leggja á aukakolefnisgjald. Hvert það gjald sem myndi skila umtalsverðum tekjum í ríkssjóð yrði annað hvort að verða til við mismunun iðnaðar eða þá of þungbært, sérstaklega fyrir járnblendi. Með því yrði því raunveruleg hætta á kolefnisleka frá Íslandi sökum ófullnægjandi arðsemi.

Samþykkt: 
  • 11.9.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12934


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MS-Ritgerð Jón Skafti Gestsson.pdf1.08 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna