is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13751

Titill: 
  • Sjálfbærni í ríkisrekstri? Skuldastaða ríkissjóðs og endurgreiðsla lána
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Bankahrunið og efnahagskreppan sem átti sér stað í október 2008 höfðu umtalsverð áhrif á fjármál og skuldastöðu ríkissjóðs. Á þensluárunum fyrir 2008 hafði ríkissjóður um langt árabil verið rekinn í jafnvægi eða með afgangi, en tekjujöfnuður ríkissjóðs árið 2008 var neikvæður um rúmlega 13% af vergri landsframleiðslu. Að sama skapi rauk skuldahlutfall ríkissjóðs upp vegna nauðsynlegra ráðstafana ríkisins til að halda þjóðfélaginu gangandi og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hrunsins á einstaklinga og fyrirtæki. Ríkissjóður hefur þurft að taka á sig gríðarlegt tap vegna yfirtöku á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabanka Íslands. Hann hefur enn fremur þurft að leggja fram fjármagn til endurreisnar bankakerfisins, tekið lán til að styrkja gjaldeyrisforða ríkisins og til að greiða fyrir hallareksturinn sem fylgdi í kjölfar hinnar kröftugu niðursveiflu í efnahagslífinu. Á árinu 2007 námu heildarskuldir ríkissjóðs um 311 milljörðum króna, eða 24% af vergri landsframleiðslu, en höfðu hækkað í 1.469 milljarða á árinu 2011, eða sem svarar til 90% af vergri landsframleiðslu.
    Eins og staðan er í dag er ekki útlit fyrir að því markmiði stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að skuldahlutfall ríkissjóðs verði ekki meira en 60% af vergri landsframleiðslu, þegar til lengri tíma er litið, verði náð í bráð. Fjármála- og efnahagsráðuneytið spáir að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fari ekki niður fyrir 70% fyrr en 2016. Stærstu gjalddagar vegna innlendra lána falla á ríkissjóð árin 2014 og 2018, sem rekja má annarsvegar til ríkisskuldabréfs sem gefið var út vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands, og hinsvegar til sérstaks ríkisskuldabréfs sem gefið var út vegna eiginfjárframlags ríkisins til fjármálastofnana. Stærstu gjalddagar sem falla á ríkissjóð vegna erlendra lána eru 2016 og 2022 sem tengjast gjaldeyrisforðalánum ríkissjóðs frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lánum frá Norðurlöndunum. Þegar heildarlánasafn ríkissjóðs er tekið saman, þarf hann, frá og með 2013, að greiða samanlagt rúmlega 84% af vergri landsframleiðslu ársins 2012 vegna innlendra lána og samanlagt rúmlega 27% af landsframleiðslu vegna erlendra lána.
    Mikil skuldsetning ríkissjóðs er veikleikamerki sem hefur neikvæð áhrif á allt íslenska hagkerfið og því brýnt verkefni að sporna gegn slíkum áhrifum. Til að mynda getur hátt skuldahlutfall ríkissjóðs haft þær afleiðingar að það dragi úr framleiðslugetu hagkerfisins meðal annars vegna hærri vaxta, minni fjárfestinga einkaaðila og samdráttar í útgjöldum til atvinnuvegafjárfestinga. Þegar litið er til áhrifa skuldahlutfalls ríkissjóðs á hagvöxt er ljóst að þegar heildarskuldir eru um eða yfir 80% af vergri landsframleiðslu hefur það verulega neikvæð áhrif á hagvöxt, sem er stutt af fyrri rannsóknum fræðimanna um áhrif hás skuldahlutfalls ríkis á hagvöxt. Til að sporna gegn enn frekari samdrætti í hagvexti hefur ríkissjóður lagt fram ítarlega fjárfestingaáætlun fyrir árið 2013 sem byggir á viðamiklum atvinnuvegafjárfestingum til að auka hagvöxt og skapa ný störf. Hinsvegar er mikilvægt að ríkissjóður laði í auknum mæli erlenda fjárfesta að landinu svo einhver möguleiki verði að ná skuldahlutfallinu niður í 60% af vergri landsframleiðslu á næstu árum, en vegna þeirrar óvissu og takmarkana sem fylgja gjaldeyrishöftunum eru enn margir erlendir fjárfestar hikandi við að festa fjármagn sitt hér á landi um óákveðinn tíma.
    Þrátt fyrir umrædda þróun hefur ótvíræður árangur nást vegna aðgerða stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en halli ríkissjóðs minnkaði úr rúmum 139 milljörðum króna árið 2009 niður í tæpa 25,8 milljarða 2012. Að auki hefur ríkissjóður í tvígang gefið út skuldabréf á alþjóðamörkuðum, eða samanlagt að andvirði 250 milljarða króna, og var þeirrar fjárhæðar aflað í þeim tilgangi að fyrirframgreiða önnur erlend lán og létta þar með endurgreiðslubyrðina á komandi árum. Eftirspurn fjárfesta eftir umræddum skuldabréfum nam um tvöfaldri útgáfufjárhæð sem gefur til kynna að fjárfestar eru byrjaðir að taka mark á þeim efnahagslega viðsnúningi sem átt hefur sér stað hér á landi á skömmum tíma og sýnir enn fremur þann árangur sem nást hefur við endurreisn efnahags ríkisins.
    Miklu máli skiptir að lækka skuldahlutfall ríkisins vegna áhrifa þess á hagvöxt landsins, tryggja aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum og mikilvægt er að ríkissjóður geti sótt sér lánsfé á hagstæðum kjörum til að greiða niður tekin lán og draga þannig úr vaxtaafborgunum. Árlegur afgangur á heildarjöfnuði ríkisins og trúverðug fjármálastjórn skiptir því sköpum ef miða á markvisst að lækkun skulda á komandi árum, hvort sem það er gert með niðurgreiðslu skuldanna eða að hlutfallslega verði dregið úr þeim í gegnum hagvöxt og verðbólgu. Þó ríkisreksturinn sé enn ekki orðinn sjálfbær, og enn sé nokkuð langt í land, er ríkissjóður á réttri leið, sem sýnir sig m.a. á fyrirframgreiðslu ríkissjóðs á erlendum lánum og áætla má að sjálfbærni í ríkisrekstri náist innan næstu tveggja ára ef fram heldur sem horfir.

Samþykkt: 
  • 11.1.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/13751


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
M.Sc.2012 - Skuldastaða ríkissjóðs - Jökull Hauksson.pdf2.45 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna