is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13760

Titill: 
  • Myndun /þ/ í máli íslenskra barna: Þversniðsathugun á myndun /þ/ í nokkrum orðum hjá 31 íslensku barni á aldrinum 2;0–5;0 ára
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Þessi ritgerð fjallar um þversniðsathugun sem gerð var haustið 2012 á myndun /þ/ hjá 31 íslensku barni á aldrinum 2;0–5;0 ára. Lagt var fyrir börnin framburðarpróf með 20 orðum. Þar af voru tíu inntaksorð (allt nafnorð), fimm kerfisorð (aðallega fornöfn) og fimm uppfylliorð. Börnin voru heimsótt á leikskóla þar sem athugunin fór fram. Kannað var hvort það færi eftir eðli orðanna, þ.e. hvort um var að ræða inntaksorð eða kerfisorð, á hvaða aldri börnin ná réttri myndun hljóðsins. Einnig hvort það skipti máli hvort hljóðið væri fremst í orði og borið fram óraddað, [θ], eða aftast í orði og borið fram raddað, [ð]. Með þessu var reynt að fá yfirlit yfir það hvernig /þ/ þróast hjá íslenskum börnum á þessum aldri. Börnunum var skipt í þrjá hópa, yngsti hópurinn var 2;0–3;0 ára, miðju hópurinn 3;0–4;0 ára og elsti hópurinn 4;0–5;0 ára.
    Helstu frávik sem fram komu við myndun /þ/ voru brottfall, skipti, samlögun, einföldun samhljóðaklasa og h-hljóðun. Skiptihljóðum fækkaði til muna eftir því sem börnin urðu eldri og yngri börnin felldu hljóðin frekar brott en þau eldri. Einnig er fjallað um samhljóðaklasana þv-, þr- og -rð og hvernig framburður barnanna á þeim var í orðunum sem prófuð voru. Niðurstöður þessarar athugunar eru bornar saman við rannsókn Indriða Gíslasonar o.fl. (1986), kandídatsritgerð Sigurðar Konráðssonar (1983) og doktorsritgerð Þóru Másdóttur (2008). Rannsóknunum ber í megindráttum saman.
    Helstu niðurstöður athugunarinnar voru þær að töluverður munur er á því hvenær börnin ná myndun /þ/ eftir því hvort um kerfisorð eða inntaksorð er að ræða. Þau voru yngri þegar þau mynduðu [θ] í framstöðu kerfisorða en inntaksorða. Einnig skipti staða /þ/ í orði máli og hvort það var óraddað eða raddað. Raddaða afbrigðið, [ð], í bakstöðu inntaksorða kom fyrst fram hjá börnunum. Næst kom myndun óraddaða afbrigðisins, [θ], í framstöðu kerfisorða en síðast myndun [θ] í framstöðu inntaksorða. Ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er óljós en líklegt er að tíðni orða skipti hér töluverðu máli. Þessi rannsókn er aðeins lítil þversniðsathugun en ærið tilefni er til að rannsaka þetta efni enn frekar.

Samþykkt: 
  • 14.1.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/13760


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaskil Birta Kristin 10.jan.pdf886.15 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna