is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14486

Titill: 
  • Hvetjandi mannauðsstjórnun í leikskólum
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Markmið þessa lokaverkefnis var að kanna hvernig hvatningu er háttað í leikskólum. Miklar breytingar hafa orðið á fjármálamarkaði Íslands eftir harða niðursveiflu sem varð haustið 2008. Rannsakanda þótti áhugavert að kanna hvort fjármálakreppan hefði haft einhver áhrif á þá hvatningu sem á sér stað í leikskólum og hvers konar hvatningu leikskólastarfsfólk sækist eftir. Þá þótti rannsakanda áhugavert að kanna hvort hvatning sé mismunandi eftir stærð leikskóla og hvort stjórnendur og starfsfólk hafi sömu sýn á hvatningu.
    Ástæðan fyrir því að þetta viðfangsefni varð fyrir valinu er að rannsakandi hefur unnið í leikskólum um nokkurt skeið og upplifað breytileika þeirra, sérstaklega hvað stjórnun og hvatningu varðar. Stjórnendum leikskóla er settur þröngur rammi hvað fjármagn varðar og ekki er kostur að umbuna starfsfólki með umbunum eins og bónusum eða árangurstengdum launum. Áhugavert þótti að komast að því hvaða ástæður liggja að baki þess að starfsfólk helst í vinnu í leikskólum þrátt fyrir nokkuð lág laun miðað við aðrar starfsstéttir. Eftir að hafa setið námskeiðið Mat á árangri og framkvæmd stefnu, hjá dr. Snjólfi Ólafssyni jókst áhugi rannsakanda á því viðfangsefni. Af þeim sökum vildi hann kanna hvort forsendur væru til staðar í leikskólum til að styðjast við frammistöðumat þegar að hvatningu kemur.
    Til að svara rannsóknarspurningum var stuðst við eigindlega aðferðafræði, þar sem tekin voru viðtöl við stjórnendur og starfsfólk tveggja leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður bentu til þess að starfsfólk leikskóla sækist helst eftir innri hvatningu. Flestir töluðu um mikilvægi þess að stjórnendur væru sýnilegir í daglega starfinu svo þeir hefðu skilning álaginu sem starfsfólk er oft undir. Þá kom einnig í ljós að starfsfólk leggur mikla áherslu á að upplýsinga- og samskiptakerfi sé gott. Stjórnendur höfðu svipaða sýn og starfsfólk á því hvað virkar hvetjandi en þeir lögðu ekki eins mikla áherslu á sýnileika sinn. Það sem rannsakanda þótti áhugavert er að stærð leikskólanna virðist skipta miklu máli hvað hvatningu varðar. Því stærri sem leikskólinn er, því minni virðist yfirsýn stjórnandans verða og óánægja starfsfólk virðist aukast. Niðurstöður gáfu einnig til kynna að forsendur voru til staðar í viðkomandi leikskólum til að styðjast við formlegt frammistöðumat og töldu stjórnendur afar nauðsynlegt að koma því á. Stjórnendur töldu það samt sem áður erfitt að framfylgja því vegna skorti á samkeppni á meðal fólks um störf í leikskólum.

Samþykkt: 
  • 24.4.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14486


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Kristín Birna Björnsdóttir(secured).PDF449.18 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna