is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14706

Titill: 
  • Þjóðréttarleg ábyrgð aðildarríkja Evrópuráðsins í ólöglegum fangaflutningum
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • If you want a serious interrogation, you send a prisoner to Jordan. If you want them to be tortured, you send them to Syria. If you want someone to disappear – never to see them again – you send them to Egypt.
    Þannig komst einn fyrrum fulltrúi bandarísku leyniþjónustunnar að orði þegar hann var spurður út í ólöglega fangaflutninga á vegum bandarísku leyniþjónustunnar. Undanfarin ár hafa slíkir flutningar á vegum bandarískra stjórnvalda sætt æ meiri gagnrýni. Ólöglegir fangaflutningar hafa þó ekki verið skilgreindir á einn hátt enn, sem leiðir til þess að umræður um þá geta leitt til mismunandi skilnings á hugtakinu. Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur skilgreint ólöglega fangaflutninga sem flutning á einstaklingi utan dóms og laga frá einu ríki til annars, í þeim tilgangi að setja hann í varðhald og yfirheyra utan hins hefðbundna réttarkerfis, þar sem miklar líkur eru á því að hann verði pyndaður eða hljóti grimmilega, ómannlega og vanvirðandi meðferð. Í þessari ritgerð verður stuðst við þessa skilgreiningu á hugtakinu.
    Í þessari ritgerð verður leitast við að skoða, meðal annars út frá Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), hver er ábyrgð aðildarríkja Evrópuráðsins sem annað hvort viljandi eða óviljandi stuðla að mannréttindabrotum með aðstoð við ólöglega fangaflutninga. Framsetning ritgerðarinnar verður í samræmi við ferlið í fangaflutningunum sjálfum. Í fyrri hluta hennar er fjallað um leyfi fulltrúa erlendra ríkja til að athafna sig á yfirráðasvæði annars ríkis og heimildir erlendra loftfara til lendingar og viðkomu í ljósi gildandi reglna varðandi lögsögu og úrlendisrétt ríkja. Í 3. kafla verður meðal annars fjallað ítarlega um gildandi alþjóðasamninga um loftferðir og hvenær loftfar telst kauploftfar og hvenær það telst ríkisloftfar, og að hvaða leyti það hefur áhrif á úrlendisrétt loftfarsins. Þar verður einnig fjallað um hvenær ríkjum ber að afla sér upplýsinga um hverjir eru í flugvélum sem fara um þeirra lofthelgi þegar grunur leikur á að um sé að ræða ólöglega fangaflutninga.
    Í síðari hluta ritgerðarinnar verður vikið að efnisreglum tiltekinna alþjóðasamninga og þeim þjóðréttarskuldbindingum sem hvíla á ríkjum til að koma í veg fyrir þau brot sem eiga sér almennt stað í kjölfar ólöglegra fangaflutninga. Í 4. kafla verður fjallað um skyldur og ábyrgð aðildarríkja Evrópuráðsins vegna aðildar þeirra að Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og þess eftirlitshlutverks sem Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) gegnir. Leitast verður við að gera grein fyrir hverjar eru hinar jákvæðu skyldur ríkisins þegar kemur að ýmsum mannréttindaákvæðum. Lögð verður áhersla á ákvæði sem talin eru brotin í málum um ólöglega fangaflutninga. Þá verður sérstaklega fjallað um Mannréttindasáttmála Evrópu og stefnumarkandi dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli um ólöglega fangaflutninga, MDE El-Masri gegn Makedóníu, frá 13. desember 2012. Að lokum beinist umfjöllunin í 5. kafla að helstu rannsóknarskýrslum sem skrifaðar hafa verið um ólöglega fangaflutninga og lagðar verða fram tillögur að úrbótum þannig að ríki verði betur í stakk búin til að takast á við þetta og koma í veg fyrir áframhaldandi þátttöku í meintum mannréttindabrotum sem eiga sér stað í ólöglegum fangaflutningum. Einnig verður vikið að því hvert sé hlutverk Íslands í slíku verkefni.

Samþykkt: 
  • 3.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14706


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Valgerður Guðmundsdóttir-ritgerð.pdf997.24 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna