is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14709

Titill: 
  • Kynferðisleg áreitni skv. 199. gr. almennra hegningarlaga
  • Titill er á ensku Sexual harassment according to Art. 199 of the General Penal Code
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Viðfangsefni þessarar ritgerðar er að fjalla ítarlega um ákvæði 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en lítið sem ekkert hefur verið skrifað um kynferðislega áreitni á sviði lögfræði síðan ákvæðið var lögfest með lögum nr. 61/2007.
    Í upphafi ritgerðarinnar er vikið að hugtakinu kynferðisleg áreitni, hvenær það kom fyrst fram og hvernig rétturinn þróaðist í Bandaríkjunum og Evrópu. Þá er gerð grein fyrir hugtakinu í íslenskum rétti, þ.e. í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla annars vegar og í hgl. hins vegar.
    Þriðji kafli hefur að geyma sögulegt yfirlit ákvæðis 199. gr. hgl. Þar er farið yfir hvenær ákvæði um kynferðislega áreitni kom fyrst inn í hgl., hvar því var fundinn staður í lögunum og þá gagnrýni sem leiddi til þess að rétt þótti að færa ákvæðið í sérstakt ákvæði 199. gr. hgl. Í fjórða kafla er farið yfir hvernig staðið er að refsivernd á þessu sviði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Lagarök ákvæðisins og verndarhagsmunir eru reifaðir í fimmta kafla og gerð grein fyrir hvernig það fellur að flokkun eftir fullframningarstigi í sjötta kafla en ákvæðið er sérstakt að því leyti að það felur bæði í sér tjónsbrot og samhverft brot.
    Sjöundi kafli er tileinkaður verknaðinum kynferðisleg áreitni. Farið er ítarlega yfir hvaða háttsemi fellur undir skilgreiningu 199. gr. á kynferðislegri áreitni og sérstaklega komið inn á samspil ákvæðisins við grundvallarregluna um skýrleika refsiheimilda. Minnst er á tilraunarákvæði 20. gr. hgl. og hlutdeildarákvæði 22. gr. og hvernig þau geta átt við um kynferðislega áreitni. Farið er yfir samþykki sem refsileysisástæðu en grundvallarþáttur ákvæðisins í 199. gr. hgl. er að háttsemin fer fram í óþökk brotaþola. Þá er farið yfir hin huglægu refsiskilyrði sem verða að vera uppfyllt svo einstaklingi verði refsað fyrir brot gegn 199. gr. hgl. Að lokum er sérstaklega vikið að þýðingu hvata þegar kemur að refsiábyrgð skv. 199. gr. hgl.
    Í áttunda kafla eru tengsl 199. gr. við ákvæði 200.- 202. gr. og 209. gr. skoðuð. Ákvæði 2. mgr. 200.- 202. gr. hafa að geyma sérákvæði um kynferðislega áreitni gegn börnum og gildir ákvæði 199. gr. því um háttsemina gagnvart öðrum en börnum. Skilgreiningin á kynferðislegri áreitni sem kemur fram í 199. gr. hgl. á við alls staðar þar sem hugtakið kemur fyrir í XXII. kafla hegningarlaganna. Háttsemi sem í dag telst vera kynferðisleg áreitni í skilningi 199. gr. hgl. var áður talin til blygðunarsemisbrota og felld undir 209. gr. hgl. og er í kaflanum leitast við að varpa ljósi á inntak 209. gr. í stuttu máli.
    Í níunda kafla er fjallað um efri og neðri mörk kynferðislegrar áreitni. Að ofan skarast háttsemin við önnur kynferðismök. Farið er ítarlega í hvaða háttsemi telst til annarra kynferðismaka og í því skyni litið til orða löggjafans sem og orða fræðimanna. Mestar líkur verður að telja á því að skilin milli kynferðislegrar áreitni og annarra kynferðismaka verði óljós þegar háttsemi felst í snertingu kynfæra og tekur umfjöllunin mið af því. Fyrst er litið til þess hvernig framkvæmdin hefur verið þegar kynfæri eru snert með munni og svo til þess þegar snerting fer fram með höndum eða fingrum. Neðri mörk kynferðislegrar áreitni eru mörkin við brot gegn blygðunarsemi skv. 209. gr. hgl. Neðri mörkin voru rýmkuð með lögum nr. 61/2007 á þann veg að tiltekið orðbragð eða táknræn hegðun getur fallið undir hugtakið kynferðisleg áreitni. Sérstaklega er vikið að því hvernig litið hefur verið á neðri mörkin í framkvæmd þegar kemur að ljósmyndun af kynferðislegum toga annars vegar og þeirri háttsemi að sýna barni kynferðislegt myndefni hins vegar. Þá er í kaflanum fjallað um brotasamsteypu og sakartæmingu þegar kemur að ákvæði 199. gr.
    Í tíunda kafla er farið yfir refsiákvarðanir í þeim dómum sem fallið hafa í Hæstarétti og héraðsdómstólum um 199. gr. hgl. á tímabilinu 4. apríl 2007 til 7. febrúar 2013. Skoðað er til hvað atriða hefur verið litið við ákvörðun refsingar og hvaða lengd refsingar er að jafnaði ákvörðuð fyrir brot gegn ákvæðinu. Þá er lítillega fjallað um sáttamiðlun sem viðurlagategund og því velt upp hvort hún geti verið hentugt úrræði í kynferðisbrotamálum þar sem brotið hefur verið gegn 199. gr. hgl.
    Að lokum eru helstu niðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman í ellefta kafla.

Samþykkt: 
  • 3.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14709


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Inga Skarphéðinsdóttir-ritgerð.pdf1.22 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna