is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14762

Titill: 
  • Stjórnskipulegt endurskoðunarvald dómstóls Evrópusambandsins
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Stjórnskipulegt endurskoðunarvald dómstóla er vald dómstóla til að meta gildi löggjafar með tilliti til grundvallarlaga, sem oftast eru stjórnarskrá, og jafnvel ógilda lög sem ekki þykja samræmast grundvallarlögunum. Dómstóll Evrópusambandsins fer með slíkt vald þegar hann metur hvort gerðir Evrópusambandsins standist sáttmála Evrópusambandsins (ESB). Þá getur dómstóllinn einnig metið hvort lög aðildarríkja Evrópusambandsins standist sáttmála ESB. Komist dómstóll Evrópusambandsins t.d. að niðurstöðu um að viss landslög aðildarríkis gangi gegn sáttmálum ESB hefur hann úrslitavald hvað það varðar. Yfirburðarstaða dómstóls Evrópusambandsins, gagnvart öðrum stofnunum Evrópusambandsins og aðildarríkjum þess, er umdeild. Sérstaklega ef niðurstaða dómstólsins gengur gegn ákvörðunum lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Flestir ættu að kannast við umræður um samruna Evrópuríkja á vettvangi Evrópusambandsins. Hin pólitíska og efnahagslega hlið Evrópusamrunans fangar þó oftast umræðuna en þáttur dómstólanna, aðallega dómstóls Evrópusambandsins, gleymist. Það kemur þó e.t.v. ekki á óvart enda fá einstaklingar að jafnaði ekki áhuga á réttarkerfinu nema þeir standi sjálfir andspænis lagalegum álitaefnum sem varða hagsmuni þeirra með beinum hætti. Það er óskandi að með lestri ritgerðarinnar fáist nokkuð skýr mynd af því hvað felist í endurskoðunarvaldi dómstóls Evrópusambandsins og hversu gríðarleg áhrif dómstóllinn hefur á þróun Evrópusambandsins.
    Ritgerðin hefst á almennri umfjöllun um Evrópusambandið og dómstól Evrópusambandsins. Markmiðið er að varpa ljósi á sögulegan og hugmyndafræðilegan bakgrunn Evrópusambandsins. Þá verður fjallað um vissan skilgreiningarvanda sem snertir samstarf aðildarríkjanna á vettvangi Evrópusambandsins, hvaða skilning beri að leggja í hugmyndina um sui generis eðli Evrópusambandsins og hvernig stjórnskipunarhefðir aðildarríkjanna hafa mótað þann grundvöll sem tilvist Evrópusambandsins er reist á. Öðrum kafla líkur svo með umfjöllun um grundvallarréttarheimildir Evrópusambandsins og helstu breytingar sem fylgdu Lissabon-sáttmálanum.
    Þriðji kafli er réttarfarsleg lýsing á því hvernig dómstóll Evrópusambandsins beitir endurskoðunarvaldinu. Kaflinn hefst á efnislegri umfjöllun um endurskoðunarvald dómstóls Evrópusambandsins og rakið verður hvaða réttarheimildir búa því að baki. Dómstóllinn býr í raun yfir þríþættu endurskoðunarvaldi sem hér verður skipt niður í innra endurskoðunarvald á gerðum stofnana Evrópusambandsins, óbeint endurskoðunarvald dómstólsins sem fer fram með svokallaðri tryggingarendurskoðun og í gegnum forúrskurðarkerfið og loks hið ytra endurskoðunarvald dómstólsins sem snýr að samningsbrotamálum er varða aðildarríki Evrópusambandsins. Sérstaklega verður leitast við að varpa ljósi á það með hvaða hætti einkaaðilar geta borið mál sín undir dómstól Evrópusambandsins með það fyrir augum að fá skorið úr um gildi ESB regnla og jafnframt hvort aðgengi einkaaðila að dómstólakerfi Evrópusambandsins sé fullnægjandi. Þá verður reynt að varpa ljósi á það hvernig dómstóll Evrópusambandsins beitir endurskoðunarvaldinu; annars vegar til að viðhalda jafnvægi milli stofnana Evrópusambandsins og hins vegar milli Evrópusambandsins og aðildarríkja þess.
    Í fjórða kafla verður sjónum sérstaklega beint að grundvallarréttindum ESB og hvaða merkingu beri að leggja í það hugtak. Snýr sú umfjöllun aðallega að því með hvaða hætti stofnanir Evrópusambandsins og aðildarríki þess eru skuldbundin til að virða grundvallarréttindi ESB, sem m.a. birtast í mannréttindaskrá ESB, og hvaða gildi Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur gagnvart Evrópusambandinu. Umfjölluninni er ætlað að sýna fram á hvernig dómstóll Evrópusambandsins beitir endurskoðunarvaldinu til að tryggja réttindi einstaklinga, og eftir atvikum lögaðila, innan sambandsins. Markmið umfjöllunarinnar er einnig að sýna fram á hvernig aukið vægi grundvallarréttinda hefur gefið Evrópusambandinu tækifæri til að seilast æ lengra inn í landsrétt aðildarríkjanna ekki síst fyrir tilstilli dómstóls Evrópusambandsins.
    Að lokum verður fjallað um þann hugmyndafræðilega og sögulega grundvöll sem býr að baki endurskoðunarvaldi dómstóla. Dregin verður upp mynd af endurskoðunarvaldi dómstóla í alþjóðlegu samhengi og og því lýst hvernig endurskoðunarvaldið birtist með ólíkum hætti í ýmsum þjóðríkjum og þá lögð sérstök áhersla á Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Fræðikenningunum verður svo fléttað inn í umfjöllunina um endurskoðunarvald dómstóls Evrópusambandsins og þannig reynt að varpa ljósi á stöðu dómstólsins með vísunum til fyrri kafla ritgerðarinnar. Þá verður sýnt fram á hvernig dómstóll Evrópusambandsins líkist í raun æðstu dómstólum þjóðríkja og hvernig hann viðheldur réttarkerfi Evrópusambandsins. Loks verður í sérstökum niðurstöðukafla leitast við að svara því hvort endurskoðunarvald dómstóls Evrópusambandsins gangi of skammt eða of langt miðað við eðli og umfang Evrópusambandsins.

Samþykkt: 
  • 6.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14762


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MeistararitgerðHGE.pdf1.14 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Kápa.HjaltiGeir.pdf57.55 kBOpinnKápaPDFSkoða/Opna