is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14812

Titill: 
  • Réttarreglur sem lúta að umhverfistjóni með áherslu á umhverfisábyrgð samkvæmt lögum nr. 55/2012
  • Titill er á ensku Rules on environmental damage with an emphasis on environmental liability
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Viðfangsefni þessarar ritgerðar eru réttarreglur sem lúta að umhverfistjóni í íslenskum rétti með áherslu á umhverfisábyrgð samkvæmt lögum nr. 55/2012 og er markmiðið að kanna gildissvið laganna sérstaklega, sem er nokkuð margþætt og flókið.
    Í ritgerðinni er gerður greinarmunur á hefðbundnu umhverfistjóni, þar sem einstaklingur eða hópur verður fyrir fjárhagslegu tjóni vegna skerðingar á ákveðnum hagsmunum, og eiginlegu umhverfistjóni þ.e. skerðingu á umhverfinu sjálfu þar sem tjón á tilteknum fjárhagslegum hagsmunum er ekki fyrir hendi heldur er um að ræða nokkurs konar almannahagsmuni, t.d. líffræðilega fjölbreytni. Almennar reglur skaðabótaréttar gilda um umhverfistjón en vegna sérstaks eðlis umhverfistjóns, einkum eiginlegs umhverfistjóns, koma upp ýmis vandamál við beitingu almennu skaðabótareglunnar í slíkum málum og ber þar helst að nefna erfiðleikana við að sýna fram á saknæmi tjónvalds og orsakatengsl. Dugar reglan því skammt sem grundvöllur skaðabótaábyrgðar. Til að bregðast við þessu hafa hlutlægar bótareglur verið lögfestar í ákveðnum tilvikum í gegnum tíðina en þó eru orsakatengsl einnig skilyrði þegar hlutlægri ábyrgð er beitt og því leysa umræddar sérreglur ekki allan vanda, þó þær veiti vissulega víðtækari vernd.
    Með lögum um umhverfisábyrgð nr. 55/2012 var tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess, innleidd í íslenskan rétt en hún gildir um umhverfistjón og yfirvofandi hættu á umhverfistjóni í atvinnustarfsemi. Lögin byggjast að mestu leyti á hlutlægri ábyrgð og byggja einnig á og útfæra greiðslureglu umhverfisréttar en markmið þeirra er að rekstraraðili sem veldur tjóni á umhverfinu skuli grípa til ráðstafana til að fyrirbyggja tjón, bæta úr tjóni sem verður og standa straum af kostnaði vegna þessara ráðstafana í samræmi við greiðsluregluna.
    Gildissvið laganna er takmarkað að því leyti að þau gilda aðeins um ákveðna rekstraraðila og nánar tiltekið umhverfistjón á vernduðum tegundum, náttúruverndarsvæðum, vatni og landi, auk þess sem í lögunum er að finna ákveðnar undantekningar frá gildissviðinu og einnig undanþágur frá greiðsluábyrgð rekstraraðila. Því er ekki að neita að lögin eru mikil réttarbót að því leyti sem þeim er ætlað að ná yfir eiginlegt umhverfistjón og stuðla að frekari vernd umhverfisins en aftur á móti er talið að vegna takmarkaðs gildissviðs laganna sé enn nokkuð í land með að tryggja fullnægjandi vernd umhverfisins.

Samþykkt: 
  • 6.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14812


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð.pdf816.65 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna