is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15468

Titill: 
  • Dreifing og fjöldi meinvarpa í sjúklingum sem greinast með nýrnafrumukrabbamein
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Nýrnafrumukrabbamein (NFK) er langalgengasta illkynja æxlið í nýrum og nýgengi þess er vaxandi, aðallega vegna tilviljanagreindra æxla sem finnast við myndrannsóknir á kviðarholi. Helmingur NFK-sjúklinga greinist þó með einkenni sjúkdómsins og stór hluti þeirra er með útbreiddan sjúkdóm við greiningu. Horfur sjúklinga með meinvörp eru oftast slæmar og fimm ára lifun er undir 10% . Á síðustu árum hafa þó komið fram ný lyf, svokölluð líftæknilyf, sem geta nýst sjúklinum með útbreitt NFK. Enn vantar upplýsingar um hvaða sjúklingahópum þessi lyf gagnast best. Þess vegna er mikilvægt að þekkja forspárþætti lifunar hjá sjúklingum með meinvörp, t.d. eftir því hvaða líffæri eiga í hlut og fjölda meinvarpa. Tilgangur rannsóknarinnar var því að kanna lifun þessa sjúklingahóps með sérstaka áherslu á dreifingu og fjölda meinvarpa.
    Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn sem náði til 250 einstaklinga sem greindust með NFK á Íslandi og höfðu fjarmeinvörp við greiningu (synchronous metastases) á árunum 1981-2010. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og röntgensvörum nema fyrir 14 einstaklinga sem var sleppt. Sérstaklega var litið á fjölda meinvarpa og dreifingu þeirra eftir líffærum, þ.e. hvort um stakt meinvarp í einu líffæri væri að ræða, fjölda meinvarpa í stöku líffæri, stakt meinvarp í mörgum líffærum eða fjölda meinvarpa í mörgum líffærum. Hóparnir voru bornir saman m.t.t. heildarlifunar (Kaplan-Meier) og miðuðust útreikningar við 1. maí 2013.
    Niðurstöður: Meinvörp greindust oftast í lungum (57,8%), beinum (38,8%) og lifur (19,8%), en rúmlega þriðjungur sjúklinga hafði jafnframt meinvörp í eitlum. Alls höfðu 95% sjúklinga einkenni NFK og voru algengustu einkennin kviðverkir (45,8%), megrun (38,1%) og blóðmiga (31,8%) en einnig blóðleysi og einkenni frá meinvörpum lungna og beina. Tæplega helmingur sjúklinga (45%) gekkst undir nýrnabrottnám. Alls höfðu 61,4% sjúklinga meinvörp í stöku líffæri, oftast í beinum og lungum, 27,5% höfðu meinvörp í tveimur líffærum og 11% í þremur eða fleiri líffærum. Heildarlifun sjúklinga eftir 1 ár miðað við hvort þeir höfðu meinvarp í 1, 2 eða fleiri en 2 líffærum var 35%, 22% og 7%. 5 ára lifun þessara hópa var 10%, 6% og 0% (p=0,0084). Þegar skipt var í hópa eftir fjölda og dreifingu meinvarpa þ.e. stakt meinvarp í stöku líffæri, mörg meinvörp í stöku líffæri og mörg meinvörp í mörgum líffærum var 1 árs lifun þessara hópa 47%, 38% og 20% og 5 ára lifun þeirra var 13%, 10% og 5% (p=0,039).
    Ályktun: Meinvörp NFK eru algengust í lungum, beinum og lifur og flestir hafa fjölda meinvarpa í einu eða fleiri líffærum. Horfur sjúklinga með NFK eru verri ef meinvörp greinast í fleiri en einu líffæri. Sjúklingar með stakt meinvarp í einu líffæri hafa bestu horfurnar.

Samþykkt: 
  • 5.6.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15468


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BSc-Ritgerð.IvarLilliendahl.pdf1.36 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna