is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16396

Titill: 
  • Staðgöngumæðrun á Íslandi. Athugun á gildandi rétti og tillögum Alþingis til heimildar staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Hugtakið staðgöngumæðrun má í víðtækum skilningi skilgreina sem það ferli þegar kona fyrirfram samþykkir eða ákveður að ganga með barn fyrir verðandi foreldra eða foreldri og að fæðingu lokinni afhenda þeim barnið. Staðgöngumæðrun hefur löngum verið þekkt, sem einn af fáum valkostum þeirra sem eiga í erfiðleikum með að eignast börn, þótt vinsældir úrræðisins hafi aukist verulega á síðustu árum. Réttarstaða staðgöngumæðrunar er þó afar misjöfn eftir ríkjum og hér á landi er hún alfarið óheimil, líkt og fram kemur í 4. mgr. 5. gr. laga um tæknifrjóvganir og notkun kynfruma og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna (hér eftir tkfl.)
    „Staðgöngumæðrun“ er sérstaklega skilgreind í 7. mgr. 1. gr. sömu laga, sem tæknifrjóvgun framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Með umræddri lýsingu hefur löggjafinn afmarkað efnislegt gildi hugtaksins og þar með hvernig skilja beri hugtakið samkvæmt tkfl. Þegar þessi hugtaksskýring er svo borin saman við þá víðtæku sem nefnd var byrjun er ljóst, að gildissvið ákvæðisins er þrengra, a.m.k. þegar horft er til orðalags 7. mgr. 1. gr. tkfl.
    Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem felast í barneignum og stofnun fjölskyldu, sem og möguleikum manna á aðstoð og úrræðum í þeim efnum þegar á þarf að halda, er vert að velta því fyrir sér hvort bann við staðgöngumæðrun, sbr. 4. mgr. 5. gr. tkfl., nái jafnframt til þess þegar kona gengur með barn fyrir karl, hvort sem hann er einstæður eða sambandi við annan karlmann, þar sem aðeins er tekið fram í 7. mgr. 1. gr. tkfl., að um staðgöngumæðrun sé að ræða þegar kona gengur með barn fyrir aðra konu. Með sama hætti er vert að velta þeirri spurningu upp, hvort staðgöngumæðrun sem framkvæmd er með samförum sé heimil, enda þar sem tæknifrjóvgun er eitt þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 7. mgr. 1. gr. tkfl.
    Í eftirfarandi athugun verður einkum leitast við að kanna, hvert sé inntak þess efnisákvæðis er fram kemur í 4. mgr. 5. gr., sbr. 7. mgr. 1. gr. tkfl., þ.e.a.s. hvað merkir það, að staðgöngumæðrun sé óheimil samkvæmt lögum? Um leið verður gerð tilraun til þess að athuga hvort bann við staðgöngumæðrun sé réttlætanlegt, þ.e. hvort löggjafanum sé heimilt að banna konum aðgang að tæknifrjóvgun, sem hugnast að ganga með börn fyrir aðra.
    Í 2. kafla verður gerð grein fyrir því sérstaka úrræði sem staðgöngumæðrun er og hvernig greina megi að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni annars vegar og í hagnaðarskyni hins vegar. Af og til verður litið til löggjafar erlendra ríkja, einkum Indlands, Bretlands og Bandaríkjanna, sem heimila nú staðgöngumæðrun ýmist að öllu leyti eða að hluta til. Helgast það einkum af því að umrædd ríki búa yfir töluverðri reynslu, ef svo má segja, af þessu tiltekna viðfangsefni og eru oftar en ekki notuð í dæmaskyni þegar fjallað er um staðgöngumæðrun á hinum fræðilega vettvangi. Sú umfjöllun verður þó hvorki ítarleg greining á þeim lagalegu og siðferðilegu álitaefnum sem menn hafa fengist við þar í löndum, né á tæknilegum útfærslum þess lagaramma er gildir um staðgöngumæðrun innan einstakra ríkja. Slíkri umfjöllun er fremur ætlað að færa lesandanum ákveðna heildarsýn á staðgöngumæðrun sem alþjóðlegt viðfangsefni og vonandi víkka þannig út sjóndeildarhring hans.
    Í kafla 3. verður einkum horft til alþjóðlegra mannréttindasáttmála og hvernig ákvæði þeirra er lúta að réttarvernd manna til að stofna fjölskyldu og eignast börn hafa verið túlkuð í réttarframkvæmd. Verður gerð tilraun til að kanna hvort réttur manna til að eignast börn sé mannréttindi, er löggjafanum beri að vernda sérstaklega, og þá að hvaða marki honum beri að hlutast til um slíka réttarvernd. Í því sambandi verður einkum gerð athugun á því, hvort umrædd mannréttindaákvæði feli í sér réttinn til tæknifrjóvgana. Tæknifrjóvgun er enda mikilvægur þáttur staðgöngumæðrunar, a.m.k. þegar horft er til nútíma staðgöngumæðrunar , sem felur í sér að staðgöngumóðir fari annað hvort í tæknisæðingu, eða glasafrjóvgun, öfugt við hefðbundna staðgöngumæðrun, sem framkvæmd er með samförum.
    Í kafla 4. verður fjallað ítarlega um gildandi réttarstöðu staðgöngumæðrunar hér á landi, en samkvæmt 4. mgr. 5. gr. tkfl. er staðgöngumæðrun óheimil. Verður sérstaklega rætt um hugtakið staðgöngumæðrun eins og það er skilgreint í 7. mgr. 1. gr. sömu laga, líkt og skýrt var frá í upphafi. Þá verður fjallað sérstaklega um réttarstöðu barna, einkum réttindi barna til ríkisfangs og rétt barna til að þekkja uppruna sinn, líkt og kveðið er á um í núgildandi barnalögum nr. 76/2003 og lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013. Þar er ekki ætlunin að setja fram beinar niðurstöður um lagaleg álitaefni sem kunna að vera fyrir hendi þegar framkvæmd er staðgöngumæðrun í trássi við gildandi rétt, s.s. þegar fólk ferðast erlendis í þeim erindagjörðum. Ætlunin er fremur að gera athugun á því hvort íslensk löggjöf miði að því að leyst sé úr málum slíkra aðila, með hliðsjón af þeim meginreglum sem gilda um réttindi barna, ekki síst þar sem íslensk lög standa þar fólki ekki fyrir þrifum.
    Í kafla 5 verður svo greint frá þeim hugmyndum sem fram hafa komið á Alþingi, um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og hvernig meðferð það mál hefur fengið í þinginu. Verður þar einkum horft til framkominna þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun, nefndarálita, álita umsagnaraðila og umræðna þingmanna Alþingis. Verður þar ekki síst lögð áhersla á að draga saman þau lögfræðilegu rök sem styðja annars vegar umrædda lagasetningu og hins vegar þau, sem leiða til öndverðrar niðurstöðu. Þá verður sérstakur gaumur gefinn að því, hverjum skuli heimilað að nýta sér umrætt úrræði og við hvaða aðstæður, verði staðgöngumæðrun heimiluð í íslenskum rétti. Helgast það einkum af viðurkenningu íslensks samfélags sem og löggjafans á fjölbreyttum og ólíkum fjölskylduformum, sem fært hefur út réttarvernd slíkra hópa að sama skapi. Þá verða að lokum dregnar saman niðurstöður í kafla 6.

Samþykkt: 
  • 5.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16396


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Laufey Lind Sturlusdóttir.pdf895.62 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna