is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16464

Titill: 
  • Geðfærsla. Leikrit byggt á æviágripi geðklofasjúklings
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í leikritinu Geðfærsla sem birtist hér á næstu síðum er leitast við að kynna hið viðkvæma fyrirbæri geðsjúkdóma, innri átök þeirra er við þá glíma og aðstandenda þeirra. Einnig er leitast við að kynna lausnir og frelsið sem er í boði og er þrátt fyrir allt ekki svo langt undan. Garðar Sölvi Helgason, sem aðalpersóna verksins er byggð á hefur um nokkura ára skeið haldið fyrirlestra í skólum og stofnunum um reynslu sína af geðsjúkdóminum geðklofa. Í fyrirlestrum sínum kynnir hann einnig sérstakt umbunarkerfi sem hann hefur þróað í lífi sínu og er byggt á kenningum sálfræðingsins og atferlisfræðingsins B.F. Skinners. Kerfi þetta hefur hjálpað honum að halda sig að mestu frá sjúkdómnum og einnig elft náungakærleikann að hans eigin sögn. Í fyrirlestrunum hefur Garðar á gamansaman og hispurslausann hátt farið yfir sjúkdóms og ævisögu sína sem oft og tíðum er afar spaugileg þó svarnættið sé skammt undan. Undirritaður var þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Garðari í gegnum ævisagnaritara Garðars, sálfræði og framhaldsskólakennaran Ívar Jónsson. Garðar og Ívar vinna nú að útgáfu bókar um ævi Garðars. Þegar upp kom hugmynd um að undirritaður, sem einnig er menntaður leikari mundi skrifa leikverk byggt á ævi Garðars, varð hann, sá mikli mannvinur fljótur að gefa jákvætt svar við því, með því skilyrði að leikverkið yrði til þess að hjálpa öðru fólki.
    Því var hafist handa. Ég heimsótti Garðar all nokkrum sinnum og tók upp viðtöl. Eitt sinn var hugsanlegur leikstjóri að hinu óskrifaða verki með í för, til aðstoðar og ráðagerða með efniviðinn. Leiftrandi frásagnargáfa Garðars og auðmýkt gagnvart erfiðleikum lífins styrkti mig í þeirri trú að efniviður verksins verði lesendum og að öllum líkindum áhorfendum þess kærkomið.
    Leikrit sem byggt er á upplýsingum sem að mestu koma frá einum einstklingi, geta átt það til að verða einhliða í afstöðu sinni. Til glöggvunar og dýpri skilnings á viðfangsefninu las ég all margar greinar, sögur og bækur um geðsjúkdóma og afleiðingar þeirra. Hér vil ég sérstaklega nefna hina gríðarlega vel skrifuðu bók, Ómunatíð eftir Styrmi Gunnarsson. Næsta skref var að fara í skapandi gírinn, raða upp atriðum úr lífi Garðars þannig að flæðandi heild með uppbrotum á réttum tímapunktum myndaðist. Sumum atriðum og hugmyndum var blandað saman, einstaka hugmynd eða setning var gripin á lofti og sett í verkið, hvort sem hún var afurð mikils lesturs, heyrðist úti í búð eða jafnvel kom orðrétt úr viðtali við Garðar. Aðferðir leikhússins eru hér vel nýttar. Sem dæmi er Röddin sem segir aðalpersónunni að fyrirfara sér aldrei með sýnilegt andlit, heldur heyrist hún í myrkri og enginn veit hvaðan hún kemur, líkt og Garðar sjálfur hefur lýst. Hugmyndin er þarna að nýta hátalarakerfi leikhússins. Annað dæmi, Garðar var lengi haldinn þeirri ranghugmynd að hann væri Drottin alsherjar og formaður Alheimsráðsins sem í sætu fimm Guðir. Fundur í því ráði er einfaldlega settur á svið í verkinu og reyndi þá á hugmyndaflug mitt að skrifa samtöl Guðanna. Undir lok verksins kemur svo í ljós hvar fundirnir eru í rauninni haldnir, nefnilega á B-gangi, órólegu deildinni á Kleppi.
    Segja má að sagan sem sögð er í verkinu, sé ólík þeirri dramatísku og snilldarlega vel skrifuðu sögu Englum Alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson, að því leyti að í þessu verki er um lausn að ræða, fyrir hin sjúka og aðstandendur hans. Geðsjúkdómar ráðast að kjarna mannsins, hugsunum og tilfinningum einstaklingsins og brengla allt og alla í kring. Því miður eru sjálfsvíg eins og geðsjúk aðalpersóna Engla Alheimsins fremur að lokum alltof algeng. Skömmin einfaldlega drepur. Í Geðfærslu er farið yfir hvað sé hægt að gera til að losna undan skömminni og að leiðin til hjálpar sé öllum opin og enginn þurfi að sýna fram á fullkomnun. „Seint munu lifandi menn Guðum líkjast“, segir Guðinn Jave í verkinu og „Allir þurfa einhvern tíma hjálp“, segir læknir í fyrirlestri í lok verksins.
    Leikrit sem lokaverkefni til BA-gráðu, lítur sannarlega ekki sömu lögmálum og hefðbundin ritgerð til sömu gráðu. Ógerlegt hefði t.d. verið að gera heimildaskrá yfir allar þær hugmyndir, setningar og atriði sem náðu alla leið inn í verkið. Kannski má segja og með fullri alvöru að Garðar Sölvi Helgason, frásögn hans, viðtöl, fyrirlestrar og spjall við hann í síma sé hin sanna og eina heimildaskrá verksins. Hlutverk mitt sem höfundur þessa BA-verkefnis er þá hlutverk sögumannsins, þess er skilaboðin skal flytja af orðanna list svo einhver þau vildi sagt hafa fyrst. Að lokum má geta þess að nafn verksins, Geðfærsla, er tilkomið af einstökum hæfileikum geðklofasjúklingsins.

Samþykkt: 
  • 10.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16464


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Geðfærsla.Útgáfa10.9.13.pdf437.99 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna