is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16927

Titill: 
  • Starfstengd þreyta meðal flugþjónustuliða. Áhrifaþættir þreytu og afleiðingar hennar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Tilgangur. Að kanna þreytu meðal flugþjónustuliða og greina samband við svefn, vinnuumhverfi, heilsufar og fjölskylduaðstæður.
    Aðferð. Lýsandi þversniðsrannsókn. Í þýðinu voru fastráðnir flugþjónustuliðar hjá Icelandair (N=400) og svöruðu 237 (59%) vefspurningalista í janúar 2013. Flugþjónustuliðarnir flugu allir millilandaflug og hvíldust á erlendri grund þegar flogið var til Bandaríkjanna. Spurningalistinn var saminn af höfundi þessarar rannsóknar og byggist að hluta til á erlendum rannsóknum og spurningalistum sem áður hafa birst á þessu sviði. Meginviðfangsefni rannsóknarinnar var að kanna hvort þreyta í morgunflugi, kvöldflugi og næturflugi tengdist svefni, vinnuumhverfi, fjölskylduþáttum, lífsstíl og heilsu. Tengsl þreytu og annarra breytna voru skoðuð með krossprófum og t-prófi.
    Niðurstöður. Meirihluti þátttakenda fann fyrir þreytu í morgunflugi (80,6%), 23,2% í kvöldflugi og 52,7% í næturflugi. Um það bil 73% flugþjónustuliða finna einhvern tíma til mikillar þreytu eða örmögnunar í starfi. Nætursvefn flugþjónustuliða var 83 mínútum styttri erlendis en í heimahögum. Tuttugu og eitt prósent flugþjónustuliða nýtti sér lyfseðilskyld lyf til þess að sofna kvöldið fyrir morgunflug. Meirihluti þátttakenda (89%) taldi heilsu sína góða eða mjög góða. Algengustu líkamlegu óþægindin voru eymsli í olnboga og axlarlið, verkir í stoðkerfi og bakverkir. Þátttakendur, sem greindu frá þreytu í morgun-, kvöld- og næturflugi, voru marktækt líklegri til að meta gæði svefns lakari heima og í flugstoppum erlendis og telja að þreyta flugþjónustuliða gæti haft slæm áhrif á frammistöðu í starfi heldur en þeir sem ekki fundu til þreytu. Þeir sem greindu frá þreytu í morgun- og kvöldflugi voru marktækt líklegri til að eiga erfiðara með að sofna heima og í flugstoppum erlendis. Þá voru þeir sem greindu frá þreytu í morgunflugi marktækt líklegri til að eiga í erfiðleikum með að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og höfðu fleiri líkamleg einkenni en þeir sem ekki minntust á þreytu. Þeir sem greindu frá þreytu í næturflugi voru marktækt líklegri til vera óánægðir með lífið en hinir. Hlutfallslega fleiri flugþjónustuliðar, sem höfðu lokið háskólaprófi en þeir sem ekki höfðu háskólapróf, greindu frá þreytu í morgunflugi. Hlutfallslega fleiri sem höfðu sofnað í flugi án þess að ætla sér það greindu frá þreytu í kvöld- og næturflugi en þeir sem ekki höfðu sofnað á flugi.
    Ályktun. Þreyta er algeng í starfsstétt flugþjónustuliða og mikilvægt að stéttarfélög og atvinnurekendur sjái um að skipulag vinnunnar stuðli að sem minnstri þreytu meðal þeirra.
    Lykilorð: Flugþjónustuliðar; flugmenn; flugáhöfn; örmögnun;vaktavinna; flugþreyta; svefn; svefnerfiðleikar; líkamleg heilsa.

Samþykkt: 
  • 10.12.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16927


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð AKG.pdf2.12 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_ÁstaKristín.pdf330.72 kBLokaðurYfirlýsingPDF