is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16961

Titill: 
  • „Sökkvist heljar hundur.“ Þrír Jónar, djöfullinn og hugmyndaheimur lúterskunnar á 17. öld
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Þessari ritsmíð er ætlað að varpa ljósi á tíðaranda og afstöðu gagnvart djöflinum á Íslandi á 17. öld. Kannað verður hvernig áhrif lúterstrúar breiddust út, þrátt fyrir tregðu samfélagsins til að gangast undir hinn nýja sið, sem og hvernig hinn lúterski djöfull náði fótfestu þó að lúterskri guðinn væri umdeildur.
    Vikið verður að siðbreytingunni, viðhorfi Lúters til kaþólskunnar og framsetningu siðbreytingarmanna á djöflinum en hann var í raun eitt helsta tromp þeirra og óspart notaður til að færa fólk nær hinum lúterska guði. Fjallað verður um þá breyttu heimsmynd sem stefna Lúters hafði í för með sér og rætt verður um þróun galdratrúar á Íslandi, tengsl galdra við hið illa og eyðingu þess með galdrabrennum. Einnig verður vikið að íslenskum særingum með tilliti til fornrar kvæðahefðar, trú fólks á mátt orðsins og ákvæðaskálda.
    Síðast en ekki síst verður fjallað um skrif þriggja manna um djöfulinn. Alþýðumaðurinn Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) réðst beint gegn djöflinum í „Snjáfjallavísum hinum síðari“ og treysti á andlegan styrk sinn og forna kveðskaparhefð. Í huga hans voru orð og flutningur þeirra drifkrafturinn í baráttunni gegn hinu illa og það kemur fram í vísunum. Lúter ofsótti andstæðinga sína með því að tengja þá við djöfulinn og andstæðingar Jóns tóku sér margt til fyrirmyndar í boðskap Lúters þegar þeir réðust gegn Jóni.
    Séra Jón Daðason (1606–1676) treysti á orðið til þess að nálgast kraft hins guðlega máttar sem ræður niðurlögum hins illa. „Draumgeisli“ hans er varfærnislegri kveðskapur en „Snjáfjallavísur hinar síðari“ og meira í anda lúterskunnar. Þar er lögð áhersla á mátt hinnar heilögu þrenningar fremur en kraft kveðandans.
    Séra Jón Magnússon (1610–1696) skorti trú á samband sitt við Guð og kraft hins heilaga orðs. Í Píslarsögu hans birtist hugarstríð og barátta við efa og trúleysi. Verk hans var ritað til að sannfæra aðra um að hann væri undir stöðugum ásóknum hins illa. Ein af höfuðsyndum lúterskra manna, þunglyndið, plagaði hann stöðugt og var að hans mati framkallað af djöflinum.
    Það er meðal annars fyrir skrif þessara þriggja manna sem við fáum mynd af djöfli 17. aldar á Íslandi og innsýn í þær aðferðir sem þóttu vænlegastar til að ráða niðurlögum hans. Allir eiga þeir sameiginlegt að kljást við djöful lúterstrúarinnar á Íslandi með orðið að vopni, þó að þeir sjálfir hafi haft mismunandi viðhorf gagnvart nýjum sið lúterskunnar. Alþýðumaðurinn Jón lærði tókst á við djöfulinn milliliðalaust, séra Jón Daðason lagði allt sitt traust á að frelsarinn verndaði hann gegn hinu illa, en Jón Magnússon óttaðist stöðugt að hann hefði tapað tengslunum við almættið og orð hans hefðu þar af leiðandi engin áhrif.

Samþykkt: 
  • 19.12.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16961


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sökkvist heljarhundur 18.12.2013 Lokagerð PDF.pdf846.72 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna