is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17675

Titill: 
  • Útvistun lögbundinnar félagsþjónustu sveitarfélaga. Þjónusta við fatlað fólk
  • Titill er á ensku Outsourcing Statutory Social Services For People With Disabilities
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í ársbyrjun 2011 færðust málefni fatlaðs fólks frá ríki yfir til sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa á hendi margvísleg verkefni, m.a. að veita íbúum ýmsa þjónustu sem snertir daglegar þarfir þeirra. Nokkuð hefur verið um að sveitarfélög hafi útvistað þeirri lögbundnu félagsþjónustu við fatlað fólk sem þau hafa umsjón með samkvæmt lögum. Útvistun verkefna hefur lengi verið þekkt fyrirkomulag, m.a. í þeim tilgangi að stuðla að hagkvæmni í rekstri, og tryggja bætta þjónustu með því að færa hana yfir til fagfólks, sem betur er í stakk búið til að sjá um þjónustu á tilteknum sviðum.
    Útgangspunktur þjónustu við fatlað fólk á ætíð að vera sá að tryggja því jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þegna þjóðfélagsins og að skapa skilyrði til þess að fatlað fólk geti lifað eðlilegu lífi, sbr. 42. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Gengið er út frá þessu í þjóðfélaginu og hefur þjónusta við fatlað fólk verið að þróast í takt við þetta meginmarkmið undanfarin ár með þjónustu á borð við notendastýrða persónulega aðstoð sem fjallað verður um í þessari ritgerð. Slík aðstoð er eitt nýjasta úrræðið í þjónustu við fatlað fólk, og hafa ýmis álitamál skapast varðandi þjónustuna á þeim stutta tíma sem hún hefur staðið til boða hjá tilteknum sveitarfélögum.
    Meginmarkmiðið um jafnræði ber því að hafa í huga við alla lögbundna félagsþjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og eins þegar þjónustunni er útvistað, þ.e. þegar sveitarfélag útvistar þjónustu til annars aðila, t.d. einkaaðila, sem fer þá með þjónustuna í stað sveitarfélagsins.
    Ljóst er að fjölmörg álitamál vakna þegar lögbundin félagsþjónusta sveitarfélaga við fatlað fólk er skoðuð. Úrræðin eru mörg og misjöfn og því verður fjallað í þessari ritgerð um þau málefni sem telja verður að sé helst þörf að vekja athygli á.
    Leitast verður við að svara þeirri spurningu, hvernig inntak þeirrar þjónustu sem sveitarfélögum ber að veita lögum samkvæmt er tryggt þegar þjónustunni er útvistað til annars aðila. Einnig verður skoðað hvort og hvernig eftirliti sveitarfélaganna er háttað með þeim verkefnum sem útvistað er, skoðuð dæmi um þjónustuþætti sem útvistað er hjá sveitarfélögum sem og þjónustusamningar tiltekinna sveitarfélaga og samningsaðila þeirra. Þá verður reynt að fá ákveðna heildarsýn yfir lögbundna félagsþjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og fjallað almennt um félagsþjónustuna, en þó aðallega um tiltekna þætti hennar. Ekki er þó unnt að skoða alla þá þjónustu sem sveitarfélögunum ber að veita, enda þar um mörg og fjölbreytt málefni að ræða.

Samþykkt: 
  • 2.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17675


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokaskjal.pdf868.58 kBLokaður til...07.05.2050MeginmálPDF
forsida.pdf37.27 kBLokaður til...07.05.2050ForsíðaPDF