is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19704

Titill: 
  • Byggt á traustum grunni : hvernig styðja leikskólakennarar við félagsfærni barna í daglegu starfi?
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Meginmarkmið rannsóknarinnar var að leita svara við því hvernig leikskólakennarar styðja við félagsfærni barna í daglegu starfi í leikskóla. Tilgangurinn var fyrst og fremst að fá innsýn í það hvernig leikskólakennarar skipuleggja starf með börnunum og leikskólaumhverfið með tilliti til eflingar á félagsfærni og hvernig sýn þeirra, viðhorf, reynsla og þekking er á stuðningi við félagsfærni barna.
    Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar byggir á kenningum um nám barna í félagslegu umhverfi. Stuðst var við kenningar Bandura, Piagets, Vygotskys og Deweys um tengsl leiks og náms sem byggja á því að barnið læri af reynslu sinni og í samspili við umhverfi sitt og annað fólk. Auk þess var fjallað um þróun tengsla og hvaða merkingu þau hafa fyrir félagsfærni síðar á lífsleiðinni. Þá var sjónum sérstaklega beint að félagsfærni og hvaða gildi hún hefur í leikskólastarfi og fyrir líf barna.
    Þátttakendur í rannsókninni voru fjórir leikskólakennarar og einn grunnskólakennari sem starfa í fjórum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknin var eigindleg tilviksrannsókn sem fór fram í ársbyrjun 2014. Gögnum var safnað með opnum viðtölum þar sem þátttakendur lýstu þeim aðferðum sem þeir beittu til að styðja við félagsfærni barna.
    Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að viðmælendum hafi þótt mikilvægt að styðja við félagsfærni barna í leikskóla. Þeir töldu sig nota til þess fjölbreyttar aðferðir, ýmist með því að nota í senn markvisst námsefni og viðbrögð við atvikum daglegra athafna eða eingöngu í daglegum athöfnum. Viðmælendur rannsóknarinnar töldu sig hafa góða þekkingu á félagsfærni og að þeir nýttu þekkingu sína í starfi með börnunum. Þeir töldu sig gæta þess að umhverfi leikskólans væri styðjandi, til dæmis með því að nýta þau rými sem til staðar voru svo hægt væri að skipta barnahópnum í minni hópa. Auk þess lögðu þeir áherslu á að viðfangsefni væru í samræmi við aldur og þroska barnanna og að tekið væri tillit til þess að börnin eru ólík og hafa mismunandi áhuga. Þá kom einnig fram að viðmælendurnir litu á sig sem fyrirmyndir barnanna, hvort heldur sem er í samskiptum við börnin eða við samstarfsfólk.

Samþykkt: 
  • 10.9.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19704


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
M.Ed. ritgerð-lokahandrit-SteinunnÓskSteinarsdóttir-LOKA.pdf1.24 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna