is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19918

Titill: 
  • Gróðurbreytingar í kjölfar endurheimtar Hestmýrar, Borgarfirði
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Árið 1996 var skipuð svokölluð Votlendisnefnd sem hafði það hlutverk að stuðla að endurheimt hluta þess votlendis sem ræst hefur verið fram hér á landi (Nefnd um endurheimt votlendis, 2006). Fyrsta verkefni hennar var að fylla upp í framræsluskurði í Hestmýri í Borgarfirði haustið 1996 og fylgja endurheimtinni eftir með rannsóknum. Þar voru m.a. gerðar rannsóknir á jarðvatnsstöðu og gróðurfari (Borgþór Magnússon, 1998a) til að kanna hvort og hvernig gróðurfar mýrarinnar breytist í átt til fyrra horfs, fyrir tíma framræslu. Breytingar á gróðurfari í kjölfar endurheimtar votlendis taka allmörg ár. Rannsóknum í mýrinni var því haldið áfram sumarið 2011 þegar fimmtán ár voru liðin frá uppfyllingu skurðanna og þrettán ár frá síðustu gróðurfarsúttekt árið 1998. Í þessu verkefni voru rannsakaðar breytingar á gróðurfari frá 1996 til 2011 í Hestmýrinni með því að endurtaka gróðurþekju- og jarðvatnsstöðumælingar sumarið 2011 á sama hátt og 1996 og 1998 og bera niðurstöðurnar saman með fjölbreytugreiningu. Einnig var svokölluð WIV-votlendisvísitala (Inga Vala Gísladóttir og Hlynur Óskarsson, 2011) notuð til að einfalda samanburðinn og hjálpa til við túlkun á gróðurfarsbreytingum. Fjölbreytugreiningin sýndi að breytileiki í gróðurfari í mýrinni fylgdi helst jarðvatnsstöðu. Vatnsstaða hefur mikil áhrif á búsvæði plantna og því töluverð áhrif á gróðurfar. Þess vegna má draga þá ályktun að takist að hækka jarðvatnsstöðu í framræstri mýri hafi endurheimt mýrarinnar tekist. Haustið 1998 gerði mikið vatnsveður á Vesturlandi og það leiddi m.a. til flóða í Hestmýrinni. Þar sem vatnsrennsli var mest skolaðist fyllingarefnið úr skurðunum en það var í u.þ.b. helmingnum af framræsluskurðum mýrarinnar. Sá helmingur er því enn í framræstu ástandi en annars staðar í mýrinni þar sem endurheimt heppnaðist hefur jarðvatnsstaða hækkað. Á litlu svæði í suðaustanverðri mýrinni gætti aldrei áhrifa framræslu og jarðvatnsstaða þar hefur haldist stöðug. Með því að skoða breytingar í jarðvatnsstöðu frá 1996 – 2011 var hægt að skipta mýrinni niður í þrjú svæði; ávallt blautt svæði, endurheimt svæði og framræst svæði. Hægt var að bera gróðurfarsbreytingar milli þessara svæða saman á einfaldan hátt með því að skoða votlendisvísitölu hvers og eins þeirra, hvernig hún hækkar og/eða lækkar. Ef hún lækkar er hefur þurrlendisgróður aukist en ef hún hækkar hefur votlendisgróður aukist. Við samanburð svæðanna kom í ljós að gróðurfar ávallt blauta svæðisins hélst svipað milli áranna sem mælingar voru gerðar (1996, 1998 og 2011). Gróðurfar endurheimta svæðisins fór markvisst í átt til meiri votlendisgróðurs. Votlendisvísitala framræsta svæðisins hækkaði milli 1996 og 1998, í kjölfar endurheimtar, en lækkaði svo aftur á tímabilinu 1998 – 2011, eftir að það skolaðist úr skurðunum. Það bendir til þess að þegar fyllt var upp í skurðina hafi gróðurinn þar svarað hækkandi jarðvatnsstöðu eins og á endurheimta svæðinu, en þegar aftur skolaðist úr skurðunum og jarðvatnsstaða lækkaði færðist gróðurfarið aftur í átt að meiri þurrlendisgróðri. Vegna þessa breytileika í jarðvatnsstöðu er gróðurfarið í Hestmýrinni mjög fjölbreytt en þær breytingar á gróðurfari sem áttu sér stað frá 1996 til 2011 voru almennt í takt við breytingar á umhverfisaðstæðum á hverju svæði innan mýrarinnar. Ólíklegt verður að teljast að gróðurbreytingarnar séu að fullu yfirgengnar á svæðinu og því æskilegt að endurtaka rannsóknina að einhverjum árum liðnum.

Samþykkt: 
  • 15.10.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19918


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Gudrun Oskarsdottir.pdf1.95 MBOpinnPDFSkoða/Opna