is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21550

Titill: 
  • Kæfisvefn og svefngæði barna í Heilsuskóla Barnaspítalans
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Offita er einn helsti áhættuþáttur kæfisvefns fullorðinna og er þekktur áhættuþáttur hjá börnum og unglingum. Algengi kæfisvefns í almennu þýði barna er 1-5% en hjá of feitum börnum er algengið mun hærra. Kæfisvefn hjá of feitum börnum hefur lítið verið rannsakaður. Þá helst hjá yngri börnum en næstum ekkert hjá unglingum. Hann er almennt talinn vangreindur og í hópi of feitra unglinga er líklegt að algengið sé hátt. Þar sem kæfisvefn er sjálfstæður áhættuþáttur hjarta-og æðasjúkdóma og veldur einkennum sem minnka lífsgæði er mikilvægt að greina kæfisvefninn í þessum hópi. Kæfisvefn er staðfestur með svefnmælingu og algengast er að nota AHI (apnea-hypopnea index) til greiningar, skilgreindur sem fjöldi vanönduna (e. hypopnea) og öndunarhléa (e. apnea) á hverja klukkustund. AHI ≥ 1 er almennt talið vera viðmið kæfisvefns í yngri börnum en AHI ≥ 5 viðmið í fullorðnum.
    Markmið rannsóknarinnar er að meta fýsileika þess að nota svefnmælingar í heimahúsum til greiningar kæfisvefns hjá of feitum börnum, sjá hvort hægt er að nota spurningalista um svefnvenjur barna (Children’s Sleep Habits Questionnaire) til að skima fyrir kæfisvefni og að meta algengi kæfisvefns í hópi of feitra barna á Íslandi.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framskyggn þversniðsrannsókn. Þýðið voru öll börn á aldrinum 12-18 ára sem vísað hefur verið til Heilsuskóla Barnaspítalans, samtals 104 börn. Ákveðið var að lagskipta hópnum eftir aldri og miða við að boða 30 þátttakendur í viðtal. Mæld var hæð, þyngd, ummál mittis, upphandleggs og blóðþrýstingur. Í viðtalinu svöruðu þátttakendur spurningalista, útskýrt var hvernig setja átti svefnmælitækið á sig og þátttakendur sváfu með það um nóttina. Einnig voru bakgrunnsbreytur í sjúkraskrá og sjúkrasaga þáttttakenda skoðuð. Við tölfræðiúrvinnslu var notast við SPSS.
    Niðurstöður: 27 mælingar af 30 voru taldar tæknilega heppnaðar, hjá 3 einstaklingum náðist ekki nothæf mæling. Einnig þurfti að endurtaka 7 mælingar. Af 27 voru 3 með kæfisvefn samkvæmt ströngustu viðmiðum. Meðal AHI var 2,46 ± 2,08 þegar notast var við fullorðins skilmerki en 3,29 ± 2,25 þegar notast var við barna skilmerki. Marktæk tengsl fundust ekki milli spurningalista um svefnvenjur barna eða breyta úr sjúkraskrá við vísa úr svefnmælingu.
    Ályktanir og umræður: Í úrtakinu var algengi kæfisvefns að lágmarki 11% en hærra ef notast var við önnur skilmerki. Óháð því hvaða skilmerki var miðað við þá virðist kæfisvefn algengur í of feitum unglingum á Íslandi. Niðurstöður þess að nota spurningalista um svefnvenjur barna til skimunar fyrir kæfisvefni voru ómarktækar, kannski er hægt að svara þeirri spurningu með stærra úrtaki. Íhuga þarf hvort að taka eigi upp skimun á kæfisvefni barna í heilsuskólanum. Örfáar rannsóknir eru til um kæfisvefn í unglingum og brýn þörf er á því að auka þekkingu á því sviði.

Samþykkt: 
  • 18.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21550


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Kæfisvefn og svefngæði barna í Heilsuskóla Barnaspítalans.pdf7.51 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna