is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21724

Titill: 
  • Tengsl grunnbólgusvörunar einstaklinga við verkjanæmi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Miðlæg verkjanæming (e. central sensitization) orsakast af truflun í úrvinnslu verkja í miðtaugakerfinu og lýsir sér í því að einstaklingar upplifa meiri sársauka við minna verkjaáreiti og þjást því oftar af langvinnum útbreiddum verkjum. Miðlæg verkjanæming er talin vera helsta orsök margra langvinnra verkjasjúkdóma, þ.á.m. vefjagigtar. Orsakir miðlægrar verkjanæmingar eru ekki vel þekktar en sýnt hefur verið fram á að bráð bólgusvörun í dýrum og mönnum eykur verkjanæmi og að tíðni vefjagigtar er mun hærri í ýmsum langvinnum bólgusjúkdómum, t.d. í iktsýki. Sjúklingar með vefjagigt mælast ekki með klínískt hækkaða bólguþætti í blóði en nokkrar erlendar rannsóknir hafa bent til þess að vefjagigtarsjúklingar hafi vægt aukna grunnbólgusvörun samanborið við heilbrigð viðmið. Möguleg tengsl grunnbólgusvörunar við verkjanæmi hafa lítið verið rannsökuð. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort grunnbólgusvörun vefjagigtarsjúklinga væri aukin og að kanna hvort samband væri á milli grunnbólgusvörunar og verkjanæmis samkvæmt verkjanæmisprófunum.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum samstarfsrannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar, Þrautar ehf og fleiri aðila um erfðir langvinnra verkja þar sem fyrirhugað er að fá 1500 þátttakendur. Að fengnu upplýstu samþykki þátttakenda var gerð verkjanæmisprófun (QST, e. quantitative sensory testing) og tekið blóðsýni. Þátttakendur sem höfðu tekið verkjalyf innan 12 klst fyrir mælingu voru fjarlægðir úr úrtaki (87 einstaklingar, 26,8%). Af þeim 373 einstaklingum sem nú hafa samþykkt þátttöku í rannsókninni höfðu 194 bæði lokið verkjanæmisprófun og gefið blóðsýni og mynda þeir efnivið rannsóknarinnar (98 vefjagigtarsjúklingar, 96 viðmið). Verkjanæmi var mælt með þremur ólíkum verkjanæmisprófum: þrýstingsverkjanæmisprófi, kuldaþolsprófi og hitaskynvilluprófi sem metur hitaverkjanæmi. Þátttakendur svöruðu einnig spurningalistum tengdum verkjum og verkjaupplifun. Að lokinni verkjanæmismælingu var blóðsýni tekið og þéttni sex próteina mæld í sermi: IL6, IL8, IL10, IL1ra, CRP og BDNF (Brain-derived neurotrophic factor). Próteinþéttni var mæld með ensímtengdum mótefnum (ELISA) í ljósgleypnimæli.
    Niðurstöður: Meðaltalssermisþéttni CRP var vel innan skilgreindra eðlilegra marka bæði hjá vefjagigtarsjúklingum og viðmiðum (≤ 10 μg/mL) en vefjagigtarsjúklingar höfðu marktækt hærri þéttni CRP samanborið við viðmið (viðmið: 2,0 μg/mL, tilfelli: 3,25 μg/mL; p=0,002). Enginn munur var á meðalþéttni IL6, IL8, IL10, IL1ra og BDNF milli hópa. Marktæk jákvæð fylgni var milli þéttni BDNF í sermi og allra verkjanæmisprófa: nánar tiltekið þrýstingsverkjaþols (r = -0,198; p=0,006), kuldaþols (r = -0,167; p=0,04) og hitaþols (r = 0,214; p=0,008). Aðhvarfsgreiningarlíkön sem tóku tillit til margra breyta sýndu að styrkur BDNF hafði marktækt forspárgildi fyrir auknu verkjanæmi í öllum þremur verkjanæmisprófum.
    Ályktanir: Aukinn sermisstyrkur vefjagigtarsjúklinga í samanburði við viðmið gefur vísbendingu um aukna grunnbólgusvörun. Jákvæð fylgni BDNF við þrjár gerðir verkjanæmis styrkir þá tilgátu að BDNF sé mikilvægur þátttakandi í myndun og viðhaldi miðlægrar verkjanæmingar, en ekki er ljóst hvort aukin grunnbólgusvörun liggi að baki aukinni tjáningu þess.

Samþykkt: 
  • 29.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21724


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Björn Hjörvar Harðarson - BS ritgerð.pdf40.1 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna