is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2187

Titill: 
  • Íslenskt ævintýri? Athugun á hinum alþjóðlega sagnaarfi í íslenska ævintýrinu Vonda drottningin
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Vonda drottningin er eitt af þeim ævintýrum sem Jón Árnason safnaði fyrir sagnasafn sitt Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnið kom fyrst út árið 1862 eða um 50 árum eftir að Grimms-bræður gáfu út sitt safn sem heitir Kinder- und Hausmärchen og kom út á árunum 1812-1815. Þar sem safn Grimms-bræðra kom út á undan safni Jóns eru miklar líkur á því að heimildarmenn Jóns hafi heyrt af eða jafnvel lesið eitthvað af ævintýrunum sem komu út í Kinder- und Hausmärchen. Þetta veldur því að sumar sögur Jóns líkjast óneitanlega sögum Grimms-bræðra. Þetta á við um ævintýrið Vondu drottninguna en líkindi þess við Grimms-ævintýrið Hans og Grétu eru það mikil að íslenska ævintýrið verður að teljast afbrigði eða sérstök útgáfa af erlenda ævintýrinu.
    Íslenska ævintýrið virðist vera ósköp hefðbundið og sker sig ekki frá öðrum ævintýrum. Ævintýrið er tíma- og staðlaust, lítið er um lýsingar á umhverfinu og tilfinningum persóna er ekki lýst með mörgum orðum heldur verður að lesa þær úr atburðum sögunnar og viðbrögðum persónnanna við þeim. Ævintýrið gerist í sérstökum ævintýraheimi sem svissneski bókmenntafræðingurinn Max Lüthi gerir grein fyrir. Þessi handanheimur er nálægt hinum raunverulega heimi hversdagsins, en þó eru þeir aðskildir. Hægt er að sjá muninn á þessum heimum á furðuhlutum og –skepnum sem birtast í frásögninni. Í Vondu drottningunni koma fyrir töfrahlutir eins og kista sem siglir sjálfkrafa og töfraauga en einnig er eitt af illmennum sögunnar tröll.
    Þegar litið er á tengsl íslenska ævintýrisins við hinn alþjóðlega sagnaarf sjást tengslin við Hans og Grétu en einnig er hægt að finna tengsl við Mjallhvíti og dvergana sjö og Ódysseifskviðu Hómers. Tengslin við Hans og Grétu sjást vel með frásagnarliðum Propps og þátttökulíkani og „fiðrildalíkani“ Greimasar. Þátttökulíkan Hans og Grétu er alveg eins og fyrra líkan Vondu drottningarinnar og er hægt að nota sama líkanið fyrir bæði ævintýrin. Andstæðupör „fiðrildalíkananna“ eru eins en í báðum ævintýrunum er sagt frá för persóna frá frelsi yfir í ófrelsi og til baka. Þessi atriði gera það að verkum að Vonda drottningin verður að teljast afbrigði af Hans og Grétu eins og minnst var á hér á undan. Þetta gerir það þó ekki að verkum að ævintýrið teljist ekki lengur íslenskt, það hefur ákveðin íslensk sérkenni, hefur lifað í íslenskum sagnaarfi í að minnsta kosti 150 ár, verið sagt íslenskum börnum á jafn löngum tíma og öðlast þegnrétt í íslenskum bókmenntum.

Samþykkt: 
  • 14.4.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2187


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Inga Rósa Ragnarsdottir_fixed.pdf468.09 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna