is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23229

Titill: 
  • Hvernig skapa má eftirsóknarvert starfsumhverfi fyrir fagfólk í leikskólum : er lærdómssamfélag lykillinn?
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Á undanförnum árum hefur mannekla og vöntun á fagfólki í leikskólum verið nokkuð til umræðu í samfélaginu. Það vakti athygli mína að innan sama sveitarfélags er bæði að finna leikskóla sem eru vel mannaðir fagfólki, sem staldrar lengi við í starfi, og aðra sem eru mjög illa mannaðir og með mikilli starfsmannaveltu. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hvað einkennir starf og starfshætti þeirra leikskóla þar sem stöðugleiki ríkir í fjölmennum hópi fagfólks. Einnig er ætlunin að skoða hvaða leiðir leikskólastjórar fara til að skapa eftirsóknavert starfsumhverfi fyrir fagfólk, hvaða aðferðum þeir beita til að ná fram stöðugleika og hvaða leiðir þeir fara til að fjölga í faghópnum.
    Eigindlegri rannsóknaraðferð var beitt og voru tekin viðtöl við fimm leikskólastjóra og rýnihópaviðtöl við fagfólk í alls fimm leikskólum af ólíkri stærð.
    Niðurstöður benda til að stjórnunarhættir leikskólastjóra og menning skólans hafi mikið að segja þegar kemur að starfsánægju, sterkri liðsheild og stöðugleika. Leikskólastjórarnir lögðu áherslu á það, að ef ná ætti markmiðum leikskólans, væri mikilvægt að hafa hátt hlutfall fagfólks þar sem leikskólakennarar væru í meirihluta. Greina mátti jákvæðan starfsanda þar sem samvinna, samstaða og lausnamiðuð hugsun voru höfð að leiðarljósi. Traust og virðing ríktu í leikskólunum og stjórnendur voru meðvitaðir um mikilvægi þess að nýta mannauðinn, dreifa ábyrgð og forystu og greina mátti mikla samábyrgð. Leikskólastjórarnir lögðu áherslu á að varpa ákvarðanatöku inn í faghópinn og kalla eftir skoðunum starfsmanna sinna og sameiginlegri sýn á skólastarfið. Niðurstöður benda einnig til að leikskólastjórarnir leggi mikið upp úr skólaþróun og leiðum til að fjölga fagfólki innan leikskólanna. Svo virðist sem sterk vitund sé til staðar um nauðsyn þess að skapa starfsumhverfi sem gerir starfsfólki kleift að halda áfram að mennta sig og bæta við sig í námi, enda skili það sér margfalt til baka í leikskólana þegar til langtíma er litið. Leikskólastjórarnir telja að stjórnendateymi leikskólanna séu lykilþættir í vellíðan og öryggi í starfi en mismunandi var eftir sveitarfélögum hvernig leikskólastjórar mátu stuðning yfirmanna sinna við starf sitt. Að lokum má nefna að ofangreindir þættir benda til að faglegt lærdómssamfélag sé að finna í öllum leikskólunum sem þátt tóku í rannsókninni.

Samþykkt: 
  • 20.11.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23229


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Inga Líndal Finnbogadóttir.pdf1.09 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna