is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23974

Titill: 
  • Er beiting fullkominnar lögjöfnunar sem refsiheimild brot gegn 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Ísland er aðili að öllum helstu samningum um vernd mannréttinda og hafa síðastliðna áratugi tekið virkan þátt í gerð slíkra samninga. Fullyrða má að meðal Íslendinga ríkir mikill einhugur um að mannréttindi skuli vera ein meginstoð íslensks samfélags. Mikil vitundarvakning hefur orðið á undanförnum áratugum og er fólk almennt betur meðvitað um réttindi sín en á árum áður. Mannréttindasáttmáli Evrópu er án efa einn mikilvægasti sáttmáli um vernd mannréttinda sem fyrirfinnst í hinum vestræna heimi. Meginviðfangsefni ritgerðarinnar er að kanna hvort fullkomin lögjöfnun sem refsiheimild í íslensku réttarkerfi brjóti á bága við 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um lögbundnar refsiheimildir en íslenskir fræðimenn hafa ekki verið á einu máli um það.
    Í byrjun ritgerðarinnar verður gerð grein fyrir hugtakinu lögjöfnun en í sinni einföldustu mynd felur lögjöfnun í sér að fella tilvik undir efnisreglu lagaákvæðis sem það fellur ekki undir samkvæmt hefðbundnum lögskýringarsjónarmiðum. Fjallað verður stuttlega um grundvöll lögjöfnunar í íslensku réttarkerfi en enga almenna lagaheimild er að finna í íslenskum rétti til beitingu lögjöfnunar. Samspil lögjöfnunar og hinnar lagalegu aðferðar verða gerð skil en fræðimenn hafa ekki verið á einu máli um hvort flokka eigi lögjöfnun sem réttarheimild, lögskýringarleið eða aðferð við beitingu settrar lagareglu. Almennri umfjöllun um lögjöfnun í þessari ritgerð líkur með því að gert verður grein fyrir þeim skilyrðum sem lögjöfnun verður að uppfylla svo tækt sé að beita heimildinni í framkvæmd.
    Í framhaldi af almennri umfjöllun um lögjöfnun verður vikið að lögjöfnun á sviði refsiréttar. Gerð verður grein fyrir meginreglu refsiréttar um lögbundnar refsiheimildir en með einföldun má segja að hún kveði á um að engum verði gert að sæta refsingu sem ekki er mælt fyrir um í lögum. Grundvallarreglan er ekki undantekningarlaus en heimilt er að beita fullkominni lögjöfnun sem refsiheimild sakborningi í óhag. Verður gerð tilraun til að varpa ljósi á inntak heimildarinnar með hliðsjón af grundvallarreglunni. Jafnframt verða gerð skil á fullkominni og frjálsri lögjöfnun en munurinn þar á milli er ekki ávallt skýr.
    Aðaláhersla ritgerðarinnar er eins og áður segir að kanna hvort beiting fullkominnar lögjöfnunar brjóti gegn 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og verða tveir Hæstaréttardómar sem féllu eftir gildistöku sáttmálans teknir til nánari skoðunar í því samhengi. Orðalag 7. gr. sáttmálans ber með sér að ekki er með beinum hætti gert ráð fyrir að heimilt sé að beita lögjöfnun sem refsiheimild. Verður gerð nánari grein fyrir grundvallarreglu 7. gr. Mannréttindasáttmálans um lögbundnar refsiheimild og hún borin saman við 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fullkomin lögjöfnun sem refsiheimild er heimiluð. Skilyrði 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu verða könnuð nánar með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og tilraun gerð til að lýsa þeim kröfum sem leiða af 7. gr. sáttmálans. Í lok ritgerðarinnar verður dómaframkvæmd Hæstaréttar um fullkomna lögjöfnun og Mannréttindadómstólsins um 7. gr. sáttmálans borin saman og komist niðurstöðu um meginviðfangsefni hennar.

Samþykkt: 
  • 15.4.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23974


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Fullkomin lögjöfnun final.pdf442.54 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Forsida lögjöfnun skemma.pdf36.67 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Árni.pdf286.72 kBLokaðurYfirlýsingPDF