is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24186

Titill: 
  • Hvernig verja eigendur skuldabréfa hagsmuni sína með samningum við lántakendur
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð verður leitast eftir að varpa ljósi á hvernig réttarstaða skuldabréfaeiganda er varin á Íslandi. Bæði verður gerð grein fyrir þeim lögum sem gæta að réttarstöðu þeirra en meginefni ritgerðarinnar lýtur að því hvernig skuldabréfaeigendur verja hagsmuni sína með samningum við útgefanda. Fjallað verður ítarlega um nokkur ákvæði sem birtast almennt með ýmsu móti í skilmálum fyrirtækjaskuldabréfa. Þó svo að umfjöllunin fjalli aðallega um skilmála fyrirtækjaskuldabréfa þá er almennt stuðst við svipuð og jafnvel sömu ákvæði í lánssamningum.
    Ætla má að fjármálakerfið hér á landi hafi staðið á ákveðnum tímamótum eftir efnahagshrunið sem varð hér árið 2008. Við uppgjör þess var gefinn út fjöldi skýrslna þar sem leitast var við að varpa ljósi á það sem fór úrskeiðis. Í nokkrum þessara skýrslna hefur komið fram að þeir skilmálar sem skuldabréfaeigendur reiddu sig á voru í mörgum tilvikum ófullnægjandi þegar á reyndi. Þau skuldabréf, sem nú er að finna á verðbréfamörkuðum, bera þess merki að lagt var upp með að gæta betur að hag skuldabréfaeiganda þar sem í þeim er að finna fjöldann allan af íþyngjandi ákvæðum sem útgefendur þurfa að gangast undir út líftíma bréfsins. Markmið þessarar ritgerðar er að kanna hvernig þeir skilmálar, sem nú hafa verið teknir upp í skuldabréf fyrirtækja á íslenskum mörkuðum, samrýmast skrifum erlendra fræðimanna um þessi efni. Aðallega verður stuðst við skrif bandarískra og enskra fræðimanna þar sem löng hefð er í Bandaríkjunum og Englandi fyrir skuldabréfaútgáfu og markaðsvenjur hafa myndast um innihald skilmálanna. Sú fyrirmynd, sem miðað verður hvað mest við, eru skuldabréf sem gefin eru út í spákaupmennskuflokki en það eru skuldabréf sem hljóta lága lánshæfismatseinkunn hjá matsfyrirtækjum. Þar sem íslenska ríkið hefur hlotið einkunn, sem er í neðrimörkum fjárfestingarflokks hjá þrem stærstu matsfyrirtækjunum, má ætla að ólíklegt sé að fyrirtæki, sem rekin eru á Íslandi, hljóti betri einkunn en ríkið. Það er þó ekki hægt að alhæfa að svo sé en þar sem ekkert þeirra fyrirtækja, sem hafa gefið út skuldabréf, hafa sóst eftir að fá slíka einkunn, svo vitað sé, verður miðað við skuldabréf sem falla í spákaupmennskuflokk.

Samþykkt: 
  • 4.5.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24186


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
LOKA RITGERÐ Skemman.pdf1.19 MBLokaður til...02.01.2080HeildartextiPDF
Yfirlýsing_JónGunnar.pdf290.46 kBLokaðurYfirlýsingPDF