is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Verkfræði- og náttúruvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Verkfræði- og náttúruvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3027

Titill: 
  • Gróðurframvinda í Skaftáreldahrauni og áhrif hraungambra (Racomitrium lanuginosum) á landnám háplantna
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Frumframvinda ræðst af ýmsum ólífrænum og lífrænum þáttum. Oft skapa fyrstu landnemar hagstæð skilyrði fyrir nýjar tegundir en óhagstæðar fyrir uppvöxt eigin afkvæma. Stundum virðast landnemar hamla frekari framvindu. Slík hömlunaráhrif eru þekkt í síðframvindu en virðast sjaldgæf í frumframvindu og sjaldan eða aldrei hefur verið sýnt fram á þau með tilraunum. Á íslenskum hraunum eru mosar og fléttur með fyrstu landnemum og í röku og mildu loftslagi svo sem í Skaftáreldahrauni, myndar hraungambri (Racomitrium lanuginosum (Hedw.) Brid) þykka og samfellda mosabreiðu.
    Frekari gróðurframvinda virðist hins vegar vera hæg og tæplega 230 árum eftir gos eru háplöntur strjálar og þekja þeirra lítil.
    Markmið verkefnisins er að greina helstu umhverfisþætti sem stýra stefnu og hraða gróðurframvindu í Skaftáreldahrauni. Með gróðurmælingum á hrauninu og beinum tilraunum er reynt að greina áhrif a) loftslags (þ.e. hæðar yfir sjávarmáli), b) fræregns, c) nærumhverfis (þ.e. yfirborðsbreytileika innan hraunsins) og d) áhrif hraungambra á hraða framvindu. Verkefnið skiptist í tvo hluta: Annars vegar er rannsókn á breytileika í tegundaauðgi og
    tegundasamsetningu háplantna innan hraunsins og á þykkt og þekju mosamottunnar. Hins vegar eru áhrif hraungambra á spírun og uppvöxt kímplantna prófuð með tilraunum.
    Lögð voru út níu rannsóknarsnið á láglendi og fjögur á hálendi með stöðvum í 50, 200 og 1.000 m fjarlægð frá hraunjaðri. Tegundaauðgi og þekja háplantna og þekja helstu hópa lágplantna ásamt þykkt mosamottu var skráð í hraundæld og hraunsléttu á hverri stöð. Auk þess var grenndargróður utan hraunsins við upphaf hvers sniðs skráður.
    Fræjum fimm háplöntutegunda var sáð í fjórar tilraunameðferðir á láglendi: a) óskerta mosamottu, b) mosamottu þar sem búið var að fjarlægja lifandi hluta mosans, c) mosamottu sem hafði næstum verið fyllt (að 2 sm) með silti og d) silt sem kæft hafði
    undirliggjandi mosamottu.
    Hraungambri myndar að meðaltali 38 sm þykka mottu á hraunsléttum á láglendi. Á hálend var þekja og þykkt mosans minni en á láglendi en þar var þekja breyskjufléttna (Stereocaulon teg.) meiri. Ekki var marktækur munur á tegundaauðgi háplantna á hálendi og láglendi en þekja og fjölbreytni (Shannon H’) var meiri á láglendi. Tegundaauðgi minnkaði lítillega eftir því sem lengra dró inn í hraunið og tegundasamsetning breyttist, þar sem grasleitum tegundum og tvíkímblaða jurtum fækkaði.
    Einungis túnvingull (Festuca richardsonii) og lambagras (Silene acaulis) spíruðu nægilega til að hægt væri að nota niðurstöður þeirra. Báðar tegundirnar
    spíruðu marktækt betur í mosamottu með silti en í óröskuðum mosa. Silt var hins vegar óhagstæðari beður (e. substrate) en óröskuð mosamotta fyrir túnvingul en skipti ekki máli fyrir spírun lambagrass.
    Þykk motta hraungambra hamlar fræspírun og tefur framvindu þar sem lífsskilyrði fyrir mosann eru best. Í dældum eru lífsskilyrði fyrir gamburmosa ekki eins góð vegna skugga og snjóalaga. Þar safnast áfok og set fyrir og þar verður framvinda gróðurs hraðari en á hraunsléttum. Tegundaauðgi minnkaði aðeins lítillega eftir fjarlægð frá grenndargróðri. Fjarlægðin hefur hins vegar staðbundin áhrif á tegundasamsetningu og fækkar tvíkímblaða jurtum og grasleitum tegundum eftir fjarlægð frá grenndargróðri. Í Eldhrauni er plöntusamfélag byggt upp af smárunnum, runnum og fleiri tegundum, sem lifa í samkeppni við mosann, auk tegunda sem lifa í sprungum og holum í hrauninu.
    Áhugavert væri að fara innar í hraunið en 1 km og kanna hvort breyting verði á þykkt mosamottunnar eða plöntusamfélagi háplantna.

Styrktaraðili: 
  • Landgræðsla ríkisins
    Fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
    Rannís
Samþykkt: 
  • 11.6.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3027


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
urframvinda_prentunII_fixed.pdf4.37 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna