is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3287

Titill: 
  • Gat í hjarta samfélagsins. Slavoj Zizek og lýðræðið handan póst-strúktúralismans
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Árið 2008 er eitt það viðburðarríkasta í íslenskri stjórnmálasögu, en þá sigldi íslenski fjármálaheimurinn bankakerfinu í þrot með tilheyrandi skuldsetningu íslenska ríkisins. Ritgerð þessi er að mestu leyti skrifuð á hinu örlagaríka ári og fyrir bankahrunið. Í dag á fyrstu mánuðum ársins 2009, vofir kreppa yfir þjóðinni í líki válegra gesta á borð við atvinnuleysi, fátækt og gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Nú þykir ekki lengur sjálfsagt að ræða um viðskiptamenn sem útrásarvíkinga, enda fjárglæframenn réttnefni. Það er hins vegar sama hvaða nöfnum við nefnum fjármálamenn, viðskiptaaðferðir þeirra voru og eru í samræmi við gildandi regluverk. Á síðustu tuttugu árum, lengstum undir forustu Sjálfstæðisflokksins, hefur hægristefna markvisst stuðlað að því að innleiða hugmyndafræði frjálshyggjunnar í íslenskt stjórnkerfi. Það er einmitt hugmyndafræði, nánar tiltekið ráðandi hugmyndafræði Vesturlanda – síð-kapítalismi – sem er efni þessarar ritgerðar. Ég mun fyrst og fremst styðjast við kenningar slóvenska heimspekingsins og samfélagsgagnrýnandans Slavoj Zizek (f. 1949), en hann er yfirlýstur marxisti og þar af leiðandi harður andstæðingur kapítalískrar hugmyndafræði. Zizek fullyrðir að róttækar baráttuaðferðir á borð við sjálfsmyndapólitík sem höfðar til kyns, kynþátta og kyngervis, hafi brugðist í baráttu sinni gegn frjálshyggjunni. Baráttuaðferðir samtímans virka einungis innan ramma markaðshyggjunnar í stað þess að stuðla að raunverulegum breytingum á hinu kapítalíska kerfi. Markmið þessarar ritgerðar er að sýna hvernig Zizek bregst við áhrifaleysi róttækra vinstrimanna með því að koma með nýja skilgreiningu á hugmyndafræðinni og virkni hennar. Til verksins nýtur Zizek aðstoðar frá heimspeki Hegels, Marx og franska sálgreinandans Jacques Lacan.
    Ritgerðinni er skipt í fjóra hluta, en í I. hlutanum er fjallað um það hvernig sigur frjálslynds lýðræðis sem ráðandi stjórnarfyrirkomulags í heiminum hefur gert það að verkum að ákveðið afstöðu- og andvaraleysi hefur ríkt gagnvart óheftum alþjóðlegum kapítalisma. Slík ládeyða felst í ákveðinni afneitun fræðasamfélagsins á hugmyndafræðinni sem slíkri, sem aftur veldur því að frjálslyndur kapítalismi hefur komist upp með að vera álitinn nokkurs konar ekki-hugmyndafræði. Jafnframt verður stuttlega skýrt frá heimspeki Marx og Hegels og sýnt fram á hvernig hugmyndir þeirra nýtast Zizek. Í II. hluta ritgerðarinnar eru færð rök fyrir því að síð-kapítalismi, sem einkennist fyrst og fremst af markaðs- og neysluhyggju, stuðli að ákveðnum mannskilningi sem kemur í veg fyrir að sköpunarþrá og lífsskynjun mannsins fái notið sín. Í því samhengi verður lögð megináhersla á kenningar póst-strúktúralistanna og tvíeykisins Deleuze og Guattari. Í III. hluta er skýrt frá því hvernig Zizek tekst á við úrræðaleysi vinstrisinnaðra fræðimanna gagnvart sívaxandi hnattrænum markaðskapítalisma og vangetu þeirra til að stuðla að raunverulegum samfélagsbreytingum. Í IV. og síðasta hluta ritgerðarinnar er skýrt frá sálgreiningu Jacques Lacan og því hvernig Zizek finnur nýja skilgreiningu á hugmyndafræði byggða á frumspeki Lacan. Að lokum er fjallað um byltingarhugmynd Zizeks og velt upp spurningunni hver sé framtíð lýðræðisins.

Samþykkt: 
  • 30.1.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3287


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Helga_Kjartansdottir_fixed.pdf297.82 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna