is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7152

Titill: 
  • Sértæk réttindi aðildarríkja við einkavæðingu. Eftirlits- og íhlutunarheimildir ríkja
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Ritgerðinni má gróflega skipta í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er gerð grein fyrir uppruna og sérstöðu reglunnar um frjálst flæði fjármagns. Í öðrum hluta er fjallað um dómaframkvæmd Evrópudómstólsins um sértæk réttindi og afleidd álitamál. Í þriðja hluta ritgerðarinnar er svo leitast við að setja sértæk réttindi sem eftirlits- og íhlutunarheimildir stjórnvalda í samfélagslegt samhengi eftir efnahagsþrengingarnar undir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar.
    Hugtakið sértæk réttindi vísar til þeirra réttinda sem að jafnaði fylgir handhöfn svokallaðra sértækra hlutabréfa (e. golden share). Í raun er það réttari hugtakanotkun að tala um réttindi frekar en hlutabréf því handhöfn hlutabréfs er ekki ávallt áskilin til að sértæk réttindi (e. special rights) teljist til staðar.
    Árið 1997 sendi Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá sér orðsendingu um fjárfestingar innan Evrópusambandsins. Tilgangur orðsendingarinnar var að veita bæði aðildarríkjum og viðskiptalífinu leiðbeiningar um hvernig Framkvæmdastjórnin túlkaði ákvæði Sáttmálans um frjálst flæði fjármagns og stofnsetningarréttinn. Framkvæmdastjórnin vildi með því koma í veg fyrir mismunandi lagalega túlkun. Slíkt myndi annars vegar veita aðildarríkjum aðhald og leiðbeiningar við stefnumótun og hins vegar yrði viðskiptalífinu gert kleift að átta sig á þeim réttindum sem af ákvæðum Sáttmálans leiðir.
    Í orðsendingunni er sérstaklega tekið á sértækum réttindum og í framhaldi af útgáfu hennar hóf Framkvæmdastjórnin málshöfðanir fyrir Evrópudómstólnum til að fá sértækum réttindum aðildarríkjanna hnekkt.
    Hefðbundin sértæk réttindi má skilgreina sem lagaumgjörð sem hefur áhrif á stjórnunarlíkan einkavæddra félaga. Þau veita opinberum aðilum heimildir til að halda eftir umtalsverðum áhrifum innan félaga þrátt fyrir að hafa látið af hendi meginhlutann af eignarhaldi við einkavæðingu. Þannig varðveitir ríki áhrif sín innan einkavædds félags gagnvart öðrum hluthöfum og stjórnareiningum félaga, umfram það sem af almennri félagaréttarlöggjöf myndi að jafnaði leiða.
    Sértæk réttindi eru talin geta hindrað frjálst flæði fjármagns vegna þess að félög í hverjum hið opinbera nýtur sértækra réttinda, teljast óaðlaðandi fjárfestingakostir. Afleiðingarnar eru þær að erlendir fjárfestar verða afhuga fjárfestingum sem aftur veldur því að fjármagn flæðir ekki sem skyldi á innri markaði Evrópusambandsins.
    Sértæk réttindi sem eru talin skerða stjórnunarheimildir innan félaga t.d. neitunarvald hins opinbera eru talin brot á stofnsetningarréttinum. Mörkin milli þess hvor frelsisreglan er brotin eru metin út frá því hvort fjárfestum sé gert kleift að hafa afgerandi áhrif innan félaga eður ei.
    Í ritgerðinni er öðrum þræði leitast við að varpa ljósi á að hversu miklu leyti markmiðum orðsendingarinnar hefur verið náð. Skyldi engan undra þótt árangurinn hafi ekki verið fullkominn því markmiðin voru ansi háleit. Þó er ekki svo að enginn árangur hafi náðst á þeim árum sem liðin eru frá því orðsendingin kom út. Í reynd hefur töluvert á unnist og grein er gerð fyrir þeim helstu afleiðingum .
    Í lok ritgerðarinnar er síðan gerð nánari grein fyrir ákveðnu úrræði af meiði sértækra réttinda ásamt mögulegum réttlætingarástæðum sem aðildarríki gætu borið fyrir sig. Einnig er leitast við að varpa ljósi á hvort ávallt þurfi að vera um einkavæðingarferli að ræða svo beiting sértækra réttinda teljist möguleg.

Samþykkt: 
  • 5.1.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/7152


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA ritg 2011 KMR.pdf955.51 kBLokaðurHeildartextiPDF