is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7184

Titill: 
  • Íþróttaþátttaka og brottfall. Greining á íþróttaþátttöku barna og unglinga fæddra 1990 og 1995 á árunum 1994-2009
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Íþróttir skipa stóran sess í lífi margra og flestir Íslendingar tengjast íþróttahreyfingunni einhvern tímann á lífsleiðinni. Í tæp sextíu ár hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) safnað gögnum um íþróttaþátttöku landsmanna og frá árinu 1994 eru þau skráð á kennitölur og því greinanleg á einstaklinga.
    Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa íþróttaþátttöku barna og unglinga sem eru fædd árin 1990 og 1995, kanna brottfall þeirra úr íþróttum eftir kyni, aldri, tegund íþróttar og landshluta og hvaða breytur skýri brottfall úr íþróttum.
    Úrtakið var 8.564 einstaklingar fæddir 1990 og 1995 (91% af þýði) sem stundað höfðu íþróttir innan ÍSÍ á árunum 1994 - 2009 og skiptist í fjóra hópa eftir kyni og fæðingarári; strákar fæddir 1990 (n=2.271; 26,5%), stelpur fæddar 1990 (n=2.092; 24,4%), strákar fæddir 1995 (n=2.175; 25,4%) og stelpur fæddar 1995 (n=2.026; 23,7%). Við úrvinnslu gagna var notuð lýsandi tölfræði, Kaplan-Meier þátttökukúrfur (Survival curves) og gagnanám (Data Mining). Gagnanám er svið innan upplýsingatækni sem felur í sér að finna mynstur (pattern) í gagnasöfnum og komast hugsanlega að nýjum óþekktum upplýsingum.
    Niðurstöður leiddu í ljós að þátttaka í íþróttum náði yfirleitt hámarki á aldrinum 11-13 ára, en fór dvínandi eftir það. Brottfall var minnst í knattspyrnu, en eftir fimm ára iðkun voru rúm 50% iðkenda enn að æfa og eftir tíu ár stunduðu rúm 25% íþróttina. Mest var brottfall í sundi; eftir fimm ára iðkun voru 14% iðkenda enn að stunda sund og tæp 6% eftir tíu ár. Niðurstöður sýndu að íþróttaþátttaka stúlkna hafði aukist um 7,2% milli árganganna tveggja og um 2,1% hjá strákum. Þá sýndu niðurstöður að fjöldi íþróttagreina sem krakkar stunda og tegund íþróttagreinar hefur áhrif á hvort börn og unglingar séu enn að stunda íþróttir við fjórtán ára aldur.
    Ályktun: Íþróttahreyfingin býr yfir mikilsverðum gögnum sem með hjálp upplýsingatækni er hægt að nýta í rannsóknum á íþróttahegðun landsmanna.
    Lykilorð: Brottfall, íþróttir, íþróttaþátttaka, gagnanám, upplýsingatækni, gagnagrunnar.

Samþykkt: 
  • 10.1.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/7184


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
RunaHHilmarsdottir_ithrottathatttaka_og_brottfall.pdf2.02 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna