is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7253

Titill: 
  • Eyðing alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) með plöntueitri: áhrif á annan gróður
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Námsverkefni þetta er hluti af stærra verkefni sem fjallar um eyðingu á alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) með plöntueitri. Markmið verkefnisins var meðal annars að rannsaka hvenær best sé að eyða lúpínunni og hvort mismunandi styrkleikar eiturs hefðu áhrif. Tilraunin er staðsett á Helluvaðssandi á Rangárvöllum og er sett upp og kostuð alfarið af Landgræðslu ríkisins. Megintilgangur þess hluta sem fjallað verður um í þessu námsverkefni er að rannsaka hver áhrif eitrunarinnar væru á annan gróður en lúpínuna og hvort mismunandi styrkleikar eitursins hefðu mismunandi áhrif á gróðurinn. Tilraunin var sett upp og eitrað var árið 2007 í lúpínusáningu frá 1990. Tilraunin er 3,96 ha að stærð og er skipt niður í 5 blokkir. Í hverri blokk eru 13 tilraunaliðir þar sem meðferðir voru annarsvegar á mismunandi tíma: snemma (11. maí), rétt fyrir blómgun lúpínunnar (8. júní), í
    blóma (2. júlí) og þegar lúpínan var farin að þroska fræ (15. ágúst) og hins vegar með mismunandi eiturstyrk: lágum skammti (1,5 l ha-1), meðalstórum skammti (3,0 l ha-1) og
    stórum skammti (6,0 l ha-1). Í þessum hluta verkefnisins var einungis unnið með fjórar blokkir af þeim fimm sem upprunalega voru settar út, en að auki var ákveðið að spara vinnu við
    gróðurmælingar og mæla einungis í 1,5 l ha-1 og 3 l ha-1 meðferðunum. Helstu niðurstöður sýndu að áhrif eitrunar á lúpínu og annan gróður voru almennt mjög mikil. Heildarþekja alls gróðurs fór úr 85% í viðmiðunarreitum niður í um 55% í reitum þar sem eitrað var snemma með 3 l ha-1, fór gróðurþekjan mest niður í 45% í reitum þar sem eitrað var síðsumars með 3 l ha-1. Þekja lúpínu var marktækt minni í nánast öllum eitruðum reitum en í
    viðmiðun. Þekja lúpínu var marktækt minni í 3 l ha-1 reitunum en í þeim sem eitraðir voru með 1,5 l ha-1. Eins var marktækur munur á þekju eftir tímasetningu eitrunarinnar og minnkaði þekjan því seinna sem eitrað var um sumarið. Þekja flest allra tegunda minnkaði við eitrunina en þó ekki allra. Til að mynda jókst þekja skeggsanda, augnfróar og geldingahnapps í eiturmeðferðunum.
    Niðurstöður sýna að eitrun með Roundup er fýsileg leið til þess að eyða lúpínu á stóru svæði. Hins vegar þarf að varast það að annar gróður verður einnig fyrir töluverðum áhrifum af
    eitrinu og sumar tegundir meira en aðrar. Aftur á móti sækja nokkrar aðrar tegundir í sig veðrið en það má hugsanlega rekja til þess að samkeppni við lúpínu snar minnkar og opnur
    myndast í sverðinum. Áhugavert væri að fylgjast með framvindunni til lengri tíma.

Styrktaraðili: 
  • Landgræðsla ríkisins
Samþykkt: 
  • 13.1.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/7253


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS Magnús Þór Einarsson.pdf5.25 MBOpinnPDFSkoða/Opna