is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9726

Titill: 
  • Það kemur miklu meira á vagninn - lykilþættir breytingastarfs : skólaþróun í þremur íslenskum skólum
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka og koma auga á þætti sem líklegir eru til að stuðla að því að breytingastarf í skólum takist og skólaþróun eigi sér stað. Meginspurning rannsóknarinnar var: Hvaða lykilþættir breytingaferlis í skólum ráða afdrifum breytingastarfs þannig að skólaþróun eigi sér stað?
    Skoðuð voru þrjú skólaþróunarverkefni í þremur skólum á Íslandi með það í huga að leita eftir þeim þáttum breytingastarfsins sem urðu til þess að breytingarnar tókust. Þriggja þrepa hugtakalíkan Fullans (2007) sem skiptir breytingaferli í þrjá fasa eða stig, kveikju (e. initiation), framkvæmd (e. implementation) og festingu (e. institutionalization), var notað sem hugtakagrunnur í allri uppbyggingu rannsóknarinnar. Leitað var að þeim lykilþáttum í hverjum fasa fyrir sig sem studdu breytingastarfið í skólum og þeir síðan bornir saman við áhersluþætti sem fræðimenn telja að þurfi að vera til staðar í breytingastarfi.
    Rannsóknin er eigindleg tilviksrannsókn og valdir voru skólar sem féllu að markmiðum rannsóknarinnar en þeir höfðu starfað í tugi ára og vitað var til að þeir hefðu breytt hjá sér starfsháttum með margra ára skólaþróunarverkefnum. Gögnum var safnað í þremur skólum, grunnskóla með nemendur í 1.-10. bekk, unglingaskóla með nemendur í 7.-10. bekk og framhaldsskóla. það var gert með viðtölum við stjórnendur, kennara, foreldra og nemendur og gagnarýni.
    Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að það séu vissir lykilþættir í breytingaferli skóla sem styðja það að breytingar takast og festast í sessi. Í ferli kveikju eða upphafsins að breytingunum virðist skipta máli að hugmynd að breytingunum kvikni hjá kennurum eða starfsfólki skóla. Mikilvægt er að ákvörðun um breytingarnar sé tekin sameiginlega með samþykki og undir forystu skólastjórnenda. Í framkvæmdaferlinu þarf að vera til staðar þróunaráætlun. Ákveða þarf hverjir leiða breytingarnar og gott er að setja saman til þess formlegt teymi kennara og stjórnenda. Mikilvægt er að meta, taka saman gögn og skrifa áfangaskýrslur meðan á ferlinu stendur. Gott er að fá utanaðkomandi ráðgjöf við breytingarnar og jafnvel sérfræðinga á sviði þess verkefnis eða vinnubragða sem verið er að innleiða hverju sinni. Festing breytinganna verður þegar faglegur samhljómur myndast innan skólans. Þar skiptir mestu samstarf og faglegar umræður um áherslur í skólastarfi. Mikilvægt er að alltaf sé stefnt að ávinningi fyrir nemendur. Öll skólaþróun kallar á breytta hugsun starfsfólks þar sem engin skólaþróun verður nema skólamenning breytist. Þættir eins og góður starfsandi, jákvæðni og metnaður í starfi ýta undir að breytingarnar festist í sessi.
    Rannsóknin nær einungis til þriggja skóla og því erfitt að alhæfa um niðurstöðurnar. Hins vegar varpa þær vonandi ljósi á það hversu flókið ferli breytingastarf getur verið og hversu mikilvægt er að vanda til verka og ætla tíma í skólaþróun. Niðurstöðurnar eru mjög í samræmi við rannsóknir og skrif erlendra fræðimanna um breytingastarf og skólaþróun og gefur það vísbendingar um að sama gildi hér á landi.

Samþykkt: 
  • 5.7.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9726


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
master_lokid_2011_hrund.pdf747.17 kBOpinnPDFSkoða/Opna