is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Bifröst > Viðskiptadeild > Meistaraverkefni í viðskiptadeild (MS) >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9834

Titill: 
  • Hvernig birtast vísbendingar um gæði þjónustu, heilsufar og þjónustuþarfir í niðurstöðum RAI-HC hjá heimaþjónustu Reykjavíkur árin 2005-2009
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Áhersla er lögð á að aldraðir dvelji heima sem lengst. Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla fólk til sjálfsbjargar og gera því kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða, markvissa, árangursríka og faglega heimahjúkrun sem gerir þeim sem þjónustunnar njóta kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest. Fjöldi aldraðra fer vaxandi og því aukast kröfur til heilbrigðis- og félagsþjónustu að finna leiðir til að annast þá sem glíma við heilsubrest, hagkvæmar leiðir sem einnig eru gæðaþjónusta. Lög um málefni aldraðra hafa það að markmiði að aldraðir geti búið sem lengst heima og notið til þess þann stuðning sem þarf. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að hafa mælitæki sem greinir þarfir sjúkra aldraðra og metur hvernig þeim þörfum er mætt sem og skilvirkni þjónustunnar. Í aðdraganda sameiningar félagslegu heimaþjónustunnar og heimahjúkrunar var ákveðið að innleiða RAI-HC mælitækið sem er mælitæki fyrir félags- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum. Með því er hægt að meta aðstæður og heilsufar skjólstæðinga og skipuleggja þjónustu samkvæmt mati og nýta gæðavísa mælitækisins til þess að fá vísbendingar um gæði þjónustunnar. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á heilsufar skjólstæðinga heimaþjónustunnar og vísbendingar um gæði hjá Heimaþjónustu Reykjavíkur árin 2005-2009 með notkun RAI-HC gæðavísa. Með því að fá upplýsingar um heilsufar, aðstæður og hjúkrunarþarfir skjólstæðinga Heimaþjónustu Reykjavíkur er hægt að leggja mat á vísbendingar um gæði hjúkrunar og skipulagningu þjónustunnar. Slíkar niðurstöður eru mikilvægar stjórnendum því með þeim er hægt að leggja mat á þá faglegu þjónustu sem veitt er. Gæðavísar gefa starfsfólki og stjórnendum vísbendingar um hvað sé vel gert og hvað megi betur fara og því er hægt að nota þá til að mæla árangur þjónustunnar og setja af stað umbótaverkefni. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að ýmislegt í aðstæðum og heilsufari skjólstæðinga Heimaþjónustunnar árin 2005-2009 þarf nánari skoðun. Það sem skjólstæðingar glímdu við var einmanaleiki, depurð, þunglyndi, vonleysi, kvíði, óöryggi, svimi og óstöðugt göngulag. Verkir voru algengir og einnig byltur. Stór hluti skjólstæðinga fór ekki í augnskoðun og heyrnarmælingu en talsverður fjöldi lagðist inn á spítala. Þeir gæðavísar sem mældust með hæstu tíðni á milli áranna 2005-2009 voru: ADL færni/endurhæfingar - möguleiki og engin meðferð, tíðni sjúkrahúsinnlagna, tíðni ófullnægjandi verkjastillingar, tíðni byltna, tíðni tilfella þar sem viðkomandi fékk ekki bólusetningu og tíðni félagslegrar einangrunar. Tíðni gæðavísa milli aldurshópa sem mældust með tölfræðilega marktækan mun voru: Tíðni vökvaskorts, tíðni félagslegrar einangrunar, tíðni ófullnægjandi verkjastillingar og tíðni sjúkrahúsinnlagna. Tíðni gæðavísa milli kynja sem mældust með tölfræðilega marktækan mun voru: Tíðni þyngdartaps, tíðni vökvaskorts, tíðni vanrækslu/ofbeldi/misbeitingar og tíðni tilfella þar sem viðkomandi fékk ekki bólusetningu.

Samþykkt: 
  • 3.8.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9834


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni (jan 2011).pdf2.32 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna