ÍslenskaenEnglish

Aðilar að Skemmunni

Leit eftir:


LokaverkefniLandbúnaðarháskóli Íslands>Auðlindadeild>B.S. verkefni>

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13293

Titill

Athugun á úrvalsstyrkleika og erfðaframförum í einstökum eiginleikum í íslenskri hrossarækt

Skilað
Maí 2012
Útdráttur

Í ræktunarmarkmiði íslenskra hrossa er lögð áhersla á ræktun sterkbyggðra, viljugra
og geðgóðra alhliðahrossa sem henta bæði börnum og fullorðnum jafnt í keppni sem
frístundaiðju. Úrvalsmarkið er nánar skilgreint sem eiginleikar dómstigans sem
dæmdir eru á kynbótasýningum. Í dag eru metin 17 atriði; átta atriði tilheyra
sköpulagi (höfuð; háls, herðar og bógar; bak og lend; samræmi; fótagerð; réttleiki;
hófar og prúðleiki) og níu tilheyra hæfileikum (hægt tölt; tölt; brokk; skeið; hægt
stökk; stökk; vilji og geðslag; fegurð í reið og fet). Hver eiginleiki hefur sinn
vægistuðul sem er eins konar hagfræðilegur mælikvarði á verðmæti eða mikilvægi
hans. Við úrval íslenskra kynbótahrossa er notast við kynbótaeinkunn sem byggir á
kynbótadómum og uppröðun hrossa miðast við kynbótagildi heildareinkunnar
sköpulags og hæfileika. BLUP (e. best linear unbiased prediction) aðferðin er notuð
við útreikninga á kynbótamatinu og niðurstöður útreikninga eru aðgengilegar
almenningi inn á vefsíðunni www.worldfengur.com.
Úrvalsstig íslenskra stóðhesta eru þrjú: fyrsta stigið er ákvörðunin um hvort ungfoli
verði geltur eða ekki, annað stigið er eftir einstaklingsdóm stóðhestsins og þriðja er
eftir einstaklingsdóm 15-30 afkvæma. Hryssur eru valdar eftir ætterni og/eða
einstaklingsdóm. Úrval er forsenda kynbótastarfs og erfðaframfara og
úrvalsstyrkleikinn er í raun beinn mælikvarði á virkni kynbótastarfsins. Markmið
verkefnisins var að kanna úrvalsstyrkleika og erfðaframfarir á árunum 1990-2010 í
þeim eiginleikum íslenska hestsins sem skilgreina ræktunarmarkmiðið og meta hversu
vel ræktendur fylgja í raun hinu opinbera ræktunarmarkmiði. Ættliðabil
kynbótahrossa á tímabilinu var einnig kannað. Þessi atriði hafa áður verið könnuð en
lítið hefur þó verið birt opinberlega um niðurstöður. Við úrvinnslu rannsóknarinnar
var notað kynbótamat hrossa fæddum á Íslandi á tímabilinu 1990-2010, alls 237251
einstaklingar. Forrit frá Þorvaldi Árnasyni voru notuð til útreikninga á
erfðaframförum, úrvalsstyrkleika og ættliðabili.
Ættliðabil stóðhesta í íslenska hrossastofninum er að meðaltali 7,6 ár og hryssna 12,4
ár. Ættliðabil hryssna hefur lengst á tímabilinu en ættliðabil stóðhesta hefur styst.
Úrvalsstyrkleiki heildareinkunnar sköpulags og hæfileika hefur aukist um 5% í
feðraliðum á tímabilinu og tvöfaldast í mæðraliðum. Úrvalsstyrkleikinn er þó margfalt
meiri hjá stóðhestum en hjá hryssum í öllum metnum eiginleikum nema feti
(úrvalsstyrkleiki heildareinkunnar er 12,5 stig að meðaltali hjá stóðhestum en 2,7 stig
hjá hryssum). Staðlaður úrvalsstyrkleiki sýnir fram á afturför í hlutfalli valinna
foreldra frá því um aldamótin. Hlutfall valinna stóðhesta fyrir heildareinkunn hefur
hækkað úr 5% í 20% á síðustu 10 árum og hlutfall valinna hryssna fyrir sama
eiginleika hefur hækkað úr 65% í 80% á sama tíma.
Ljóst er á niðurstöðum að í flestum tilvikum hefur vægi eiginleikanna mikið um það
að segja hversu stíft er valið fyrir þeim (valið stífast fyrir hálsi, herðum og bógum;
samræmi; tölti; fegurð í reið; vilja og geðslagi) og því má álykta að ræktendur séu í
grunninn að fylgja ræktunarmarkmiðinu.
Árlegar erfðaframfarir eru í samræmi við úrvalsstyrkleika hvers eiginleika, þ.e. mestar
erfðaframfarir eru þar sem úrvalsstyrkleikinn er mestur. Erfðaframfarirnar í
heildareinkunn sköpulags og hæfileika eru um 1,1 staðalfrávik staðlaðrar
kynbótaeinkunnar síðustu tvo áratugina. Erfðaframfarirnar eru að mestu leyti
tilkomnar vegna úrvals stóðhesta. Brýna þarf fyrir ræktendum að framkvæma stífara
úrval gagnvart hryssum. Vaxandi hlutfall sýndra hryssna gefur tilefni til stífara úrvals
sem myndi leiða til aukinna erfðaframfara. Afturför í valhlutfalli gefur einnig rými til
stífara úrvals, sérstaklega hvað varðar stóðhestana. Við úrval þarf þó alltaf að taka
mið af erfðabreytileikanum og passa að hann tapist ekki úr stofninum og huga að
stærð virkrar stofnstærðar. Nauðsynlegt er að viðhalda skynsamlegum fjölda
kynbótagripa. Einnig þarf að fylgjast með þróun ættliðabils stóðhesta með tilliti til
öryggi úrvalsins og fræða ræktendur um mikilvægi þess að skipta eldri
ræktunarhryssum fyrr út fyrir yngri hryssur með hærra kynbótamat til að stytta
ættliðabil hryssna og auka erfðaframfarir.

Samþykkt
16.10.2012


Skrár
NafnRaðanlegtStærðRaðanlegtAðgangurRaðanlegtLýsingRaðanlegtSkráartegund
BS_Heiðrún Sigurda... .pdf548KBOpinn  PDF Skoða/Opna