is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10064

Titill: 
  • Afmælis- og söguvefur Háskóla Íslands. www.hi.is/afmaeli
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Háskóli Íslands fagnar 100 ára afmæli sínu á árinu 2011, en hann var stofnaður í Alþingishúsinu við Austurvöll þann 17. júní 1911. Þann 22. mars 2010 barst MA-nemum í hagnýtri menningarmiðlun auglýsing í tölvupósti þar sem sagði meðal annars:
    Borist hefur ósk um samstarfsverkefni frá afmælisnefnd Háskóla Íslands vegna aldarafmælis skólans …. Afmælisvefur er einn þáttur í hátíðarhöldunum. Gert er ráð fyrir að vefurinn verði tilbúinn eigi síðar en í desember 2010 og verði formlega opnaður um það leyti. Gert er ráð fyrir að afmælisvefurinn verði opinn áfram eftir að afmælisárinu líkur. Verkefnið lýtur að hugmyndavinnu, gagnaöflun, úrvinnslu og uppsetningu á afmælisvef Háskóla Íslands í tilefni af aldarafmæli skólans. Við vinnslu verkefnisins verður veittur aðgangur að ýmsum gögnum skólans, svo sem myndum, myndbrotum og rituðum heimildum. Tæknileg vefvinna verður í höndum vefdeildar skólans.
    Höfundur þessa verkefnis sótti um stöðuna og var ráðin til verksins. Vinna hófst við vefinn í júní 2010. Ásthildur Sturludóttir, fyrrverandi verkefnastjóri aldarafmælis Háskóla Íslands, og aðal eftirlitsaðili verkefnisins tók þátt í mótun fyrirhugaðs vefsvæðis á byrjunarstigum þess. Í ágúst 2010 tók Sæunn Stefánsdóttir svo við starfi Ásthildar og var þar með hinn nýi tengiliður stjórnsýslu skólans við höfund verkefnisins.
    Markmiðið með vefnum er að minnast 100 ára afmælis skólans með því að leyfa samfélagi skólans (14 þúsund manns) og þjóðinni allri að fylgjast vel með hátíðarhöldunum, dagskránni og öðru því er áhugavert þykir á vefsvæðinu www.hi.is/afmaeli.
    Framkvæmdin við vefsíðugerðina var nokkuð flókin og umfangsmikil. Fyrst var að ákveða hina eiginlegu efnisgerð, takmarkanir og umfang, hönnun, efnisöflun, myndræna og textalega framsetningu, virkni og tengsl við annað efni www.hi.is. Eftir breytingar á tímaramma verkefnisins var ákveðið að vefurinn skyldi opnaður formlega við upphaf aldarafmælisárs Háskóla Íslands þann 7. janúar 2011, þar sem rektor kynnti nýja stefnu skólans fyrir næstu fimm árin og afmælisdagskrá skólans fyrir árið var kynnt. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði vefinn formlega. Söguhluti vefsins var opnaður við sérstaka athöfn í anddyri Aðalbyggingar Háskóla Íslands þann 8. apríl 2011, þremur mánuðum eftir að vefsvæðið www.hi.is/afmaeli var opnað.
    Á afmælisvef háskólans er meðal annars hægt að skoða vörður úr sögu skólans, lesa viðtöl við áhugaverða einstaklinga er tengjast HÍ og skoða myndbönd og ljósmyndir úr starfi skólans. Fljótlega var ákveðið að hvert hinna fimm fræðasviða skólans yrði í sviðsljósinu í einn mánuð og deildir fræðasviðanna stæðu fyrir sérstakri afmælisdagskrá. Á vefnum eru fjölbreyttri dagskrá Háskóla Íslands á afmælisárinu gerð ítarleg skil.
    Á enskum hluta vefsins er m.a. hægt að skoða viðburði á vegum skólans sem fluttir eru á ensku, stutta umfjöllun um sögu skólans og viðtöl svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er hægt að lesa um öndvegisfyrirlesara , horfa á fyrirlestra þeirra og skoða ljósmyndir úr starfi Háskóla Íslands á afmælisárinu.
    Rafrænt viðburðadagatal skólans fellur einnig undir vefsvæði afmælis- og söguvefs Háskóla Íslands. Það gekkst undir töluverðar útlits- og virknisbreytingar í tilefni af gerð vefsins.
    Í greinargerð þessari er ætlunin að útlista atriði er varða undirbúningstímabil, útlits- og virknishönnun, markmið, innihald vefsins, notagildi hans ásamt því að greina í lokin frá stöðu vefsins í dag en hann er lifandi vefur og í sífelldri endurskoðun og þróun.

Samþykkt: 
  • 14.9.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10064


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Mastersritgerd_Asa_Baldursdottir_september_2011.pdf17.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna