ÍslenskaenEnglish

Aðilar að Skemmunni

Leit eftir:


LokaverkefniHáskóli Íslands>Menntavísindasvið >Meistaraprófsritgerðir>

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10244

Titill

Mataræði og hreyfing of feitra barna og foreldra : breytingar á mataræði og hreyfivenjum eftir 18 vikna meðferð

Skilað
Desember 2009
Útdráttur

Heilsuskóli Barnaspítalans er verkefni sem hófst árið 2004 með það fyrir augum að þróa árangursríka meðferð fyrir of feit börn á Íslandi. Í meðferðinni er rík áhersla lögð á breyttar neysluvenjur og aukna hreyfingu. Markmið þess hluta rannsóknarinnar sem hér er fjallað um var að skoða breytingar í mataræði og hreyfivenjum barna eftir 18 vikna fjölskyldumiðaða offitumeðferð.
Heildarfjöldi þátttakenda voru 84 börn á aldrinum 8-13 ára sem höfðu líkamsþyngdarstuðul 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðaltal, ásamt öðru foreldri þeirra. Sextíu og eitt barn lauk 18 vikna meðferð. Þátttakendur komu af stór-Reykjavíkursvæðinu og nágrenni og voru valdir með aðstoð skólahjúkrunarfræðinga í Reykjavík og nágrenni. Í upphafi og við lok 18 vikna fjölskyldumiðaðrar meðferðar svöruðu börn og foreldrar spurningalistum til að meta mataræði og líkamlega virkni. Jafnframt voru gerðar holdafars-, þol- og styrktarmælingar.
Marktækar breytingar urðu á holdafars-, þol- og styrktarmælingum barnanna, auk þess sem fæðuval og hreyfivenjur breyttust. Börnin hækkuðu að meðaltali um 2 cm (p<0,001), léttust um 2,5 kg (p<0,001), lækkuðu líkamsþyngdarstuðul sinn um 2,0 kg/m² eða 7,1% (p<0,001). Ummál upphandleggs minnkaði um 1,7 cm eða 5,6% (p<0,001), ummál mittis um 6,2 cm eða 6,9% (p<0,001) og ummál mjaðma um 4,7 cm eða 4,9% (p<0,001). Púls barnanna lækkaði marktækt í þolmælingu. Að meðaltali lækkaði hjartsláttartíðni um 12,9 slög á mínútu eftir þriggja mínútna áreynslu á milli mælinga eða sem nemur 8,8% (p<0,001). Breytingin eftir eina mínútu í hvíld nam 10,5 slögum á mínútu eða 10,8% (p<0,001), og breyting eftir 2 og 3 mínútur í hvíld samsvaraði um 7% lækkun (p<0,01). Þá jókst styrkur barnanna einnig marktækt (p<0,001) en hann var mældur með armbeygjum, uppsetum og langstökki. Á efri mörkum blóðþrýstings mátti sjá meðaltals lækkun um 2,3 mmHg eða 2,0% (p=0,049) og á neðri mörkum blóðþrýstings var lækkunin að meðaltali 4,1 mmHg eða 6,5% (<0,001). Þá juku börnin neyslu grænmetisrétta (p=0,019), ávaxta (p<0,001), grænmetis (p<0,001), mjólkurvara svo sem skyr, jógúrt og súrmjólk (p=0,005) og drykkju á léttmjólk, fjörmjólk og undanrennu (p=0,019). Á móti minnkaði neysla á kexi og kökum (p<0,001), sælgæti (p<0,001), sykruðum gosdrykkjum (p=0,005), hreinum safa (p=0,011), sykruðum ávaxtadrykkjum (p<0,001), kjöti (p=0,013) og kartöflum, hrísgrjónum og pasta sem meðlæti á milli mælinga (p=0,005). Svengd barnanna minnkaði og hungur sagði sjaldnar til sín við lok meðferðar (p<0,001). Þá hugsuðu börnin meira um hversu hollur maturinn væri sem þau borðuðu, við lok meðferðar en áður (p<0,001). Fleiri börn stunduðu íþróttir í frítíma sínum í lokin og þá jafnvel oftar en þau gerðu áður, eða úr 1,84 skipti á viku að meðaltali í meira en 2,55 skipti á viku (p<0,009). Æfingartími jókst jafnframt úr 0,87 klst á viku í 2,04 klst á viku (p=0,001). Börnin töldu sig geta hlaupið mun lengur (p<0,001) og fannst þau vera liðugri (p=0,006) í lok meðferðar en við upphaf hennar. Þá töldu foreldrar sjálfsmynd barnsins og líðan hafa batnað til muna að námskeiði loknu (p<0,001).
Útfrá niðurstöðunum má álykta að markviss fjölskyldumiðuð meðferð við offitu barna sem meðal annars felur í sér fræðslu og hvatningu um heilbrigðan lífsstíl með hollum mat og aukinni hreyfingu, skili fjölþættum árangri í átt til bættrar heilsu. Þannig má sjá jákvæðar breytingar bæði í hegðun og viðhorfum gagnvart heilsusamlegum lífsstíl um leið og offita minnkar.

Samþykkt
27.10.2011


Skrár
NafnRaðanlegtStærðRaðanlegtAðgangurRaðanlegtLýsingRaðanlegtSkráartegund
meistaraverkefni_h... .pdf1,01MBOpinn Heildartexti PDF Skoða/Opna