is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10441

Titill: 
  • Sakfelling án dóms og laga? Um nafn- og myndbirtingar í fjölmiðlum af grunuðum, ákærðum og dæmdum mönnum
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Á undanförnum áratugum hafa orðið miklar tækniframfarir í heiminum. Fjölmiðlar hafa ekki farið varhluta af þessum framförum og hefur veraldarvefurinn þar spilað veigamikið hlutverk. Vegna hraða breytinganna hefur löggjafanum hins vegar reynst erfitt að fylgja þeim eftir með regluverki.
    Viðfangsefni ritgerðarinnar er nafn- og myndbirting í fjölmiðlum af grunuðum, ákærðum og dæmdum mönnum. Ekki er að finna lagareglur sem beinlínis taka á álitaefninu en mikið mæðir á reglum stjórnskipunarréttar um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, sbr. 73. og 71. gr stjórnarskrárinnar ásamt 10. og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lagagildi hefur hér á landi sbr. lög nr. 62/1994. Auk fyrrefndra ákvæða stjórnarskrár hafa 70. gr. hennar og 6. gr. Mannréttindasáttmálans gildi en þar er tryggður er réttur sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar.
    Almennar lagareglur ásamt siða- og vinnureglum fjölmiðla koma til skoðunar. Þær lagareglur sem helst reynir á er að finna í XXV. kafla almennra hegnningarlaga nr. 19/1940 og í ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig hafa reglur í öðrum lögum þýðingu. Til fyllingar hinum almennu lagareglum koma siða- og vinnureglur fjölmiðla. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað staðfest mikilvægi þess að blaðamenn starfi samræmi við góða blaðamannshætti.
    Ofangreindar réttarreglur eru heimfærðar á stöðu sakbornings á ýmsum stigum máls. Þegar maður er grunaður er óvíst hvort ákæra verði gefin út. Verður öll fjölmiðlaumræða að taka mið af því enda í höndum dómstóla að ákvarða um sekt manns eða sýknu. Þrátt fyrir það er fjölmiðlum játað rúmt svigrúm til umræðu um mál á þessu stigi ef það er talið eiga erindi í almenna þjóðfélagsumræðu. Kemur þar m.a. til skoðunar hvort hinn grunaði er almannapersóna. Eftir að ákæra hefur verið gefin út á hendur manni gildir reglan um opinbera málsmeðferð skv. 10. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hafa fjölmiðlar mjög frjálsar hendur um frásagnir af málum á þessu stigi auk heimildar til þess að nafngreina þá sem sökum eru bornir. Ávallt verður þó að horfa til þess, sem áður sagði, að það er í höndum dómstóla að kveða upp dóm yfir mönnum. Menn, sem afplánað hafa dóma, hafa gert upp sakir sínar við samfélagið, a.m.k. eftir leiðum réttarríkisins. Umfjöllun fjölmiðla um slíka aðila er stundum réttlætanleg, t.d. ef viðkomandi hefur til dæmis ítrekað komist í kast við lögin. Getur almenningur þá haft hagsmuni af því að fá upplýsingar þar um og er að sama skapi ólíklegt að fjölmiðlaumræða verði til þess að sverta ímynd viðkomandi þar sem hann hefur í raun séð um það sjálfur með hátterni sínu. Ef staðan er sú að aðili hefur bætt ráð sitt er óvíst að umfjöllun um gamlan refsidóm eigi erindi til almennings.

Samþykkt: 
  • 5.1.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10441


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Heiðrún Björk Gísladóttir.pdf773.39 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna