is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10925

Titill: 
  • Óráð eftir opna hjartaaðgerð: Forprófun skimunarlista (Delirium observation screening scale) og kerfisbundin fræðileg samantekt
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Bakgrunnur: Óráð lýsir sér sem skammvinn truflun á meðvitund, athygli, hugsun, skynjun og tilfinningum sem er breytileg yfir sólarhringinn. Orsakir þess eru ekki að fullu þekktar en settar hafa verið fram kenningar um truflanir á taugaboð¬efnum og áhrif bólguviðbragða. Óráð er algengt vandamál á sjúkrahúsum og eru aldraðir og sjúklingar með vitræna skerðingu í sérstakri áhættu. Rannsóknir sýna að óráð er vangreint og vanmeðhöndlað vandamál. Skortur á einkennamati og slök skráning eru talin eiga þátt í því. Fækka má óráðstilfellum verulega og draga úr alvarleika þeirra með fyrirbyggjandi meðferð.
    Tilgangur þessa verkefnis var annars vegar að þróa skimunarlista til að meta óráðseinkenni hjá skurðsjúklingum og hins vegar að draga saman þá þekkingu sem fyrir er á óráði hjá sjúklingum eftir skurðaðgerð, með megináherslu á hjartaskurðsjúklinga.
    Aðferð: Skimunarlisti til að meta óráðseinkenni (Delirium observation screening scale- DOS) var þýddur og forprófaður á tíu hjartaskurðsjúklingum á Landspítala. Kerfisbundin samantekt rannsókna var gerð til skoða algengi, áhættuþætti og afleiðingar óráðs eftir opna hjartaaðgerð og forvarnir til að draga úr algengi, lengd og alvarleika óráðs eftir skurðaðgerðir.
    Niðurstöður: Forprófun DOS leiddi í ljós að breyta þurfti svarmöguleikunum þar sem fyrri þýðing olli óvissu um hvernig ætti að svara tveimur fullyrðingunum. DOS er fljótlegur í notkun og virðist henta vel til að meta sjúklinga á skurðdeild. Um þriðjungur sjúklinga fær óráð eftir opna hjartaaðgerð. Helstu útsetjandi áhættuþættirnir eru hár aldur, vitræn skerðing, gáttaflökt, þunglyndi og saga um heilablóðfall. Útleysandi áhættuþættir eru meðal annars tími á hjarta- og lungnavél, tími á öndunarvél, lágt útfall hjarta eftir aðgerð, þörf fyrir blóðgjöf og hjartsláttaróregla. Óráð leiðir til lengri sjúkrahúslegu, skertrar sjálfsbjargargetu og hærri dánartíðni. Forvarnir felast meðal annars í því að þekkja áhættuþætti og fyrirbyggja þá, þekkja einkenni óráðs og greina þau í tíma. Forvarnir felast einnig í því að koma sjúklingi á hreyfingu fljótt eftir aðgerð, árangursrík verkjameðferð, fyrirbyggja þurrk og vannæringu, auka áttun og örva hugarstarf og veita fræðslu til sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks.
    Ályktun: DOS er einfaldur og fljótlegur í notkun til að skima fyrir einkennum óráðs hjá sjúklingum á skurðdeild. Óráð er algengur og alvarlegur fylgikvilli skurðaðgerða og er þekking hjúkrunarfræðinga á áhættuþáttum og einkennum óráðs mikilvæg til að hægt sé að greina þá sem eru í aukinni áhættu, forðast það sem eykur líkur á óráði og greina snemmkomin einkenni.
    Lykilorð: Óráð, skurðaðgerð, hjartaaðgerð, algengi, áhættuþáttur, afleiðingar, forvörn, mat, hjúkrun.

Samþykkt: 
  • 13.3.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10925


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MS-verkefni- Óráð eftir opna hjartaaðgerð.pdf651.8 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna