is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11234

Titill: 
  • Skattrannsóknir. Rannsóknarheimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og málsmeðferðarreglur í skattrannsóknarmálum
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í ritgerð þessari er fjallað um rannsóknir skattrannsóknarstjóra ríkisins og málsmeðferðarreglur sem um þær gilda og kannað hvort réttindi skattaðila og eftir atvikum sakborninga séu nægjanlega tryggð með gildandi lagaákvæðum eins og þau hafa verið túlkuð af stjórnvöldum og dómstólum. Í þessum tilgangi verður í öðrum kafla varpað ljósi á ástæður þess að nauðsynlegt er að tryggja sérstaklega réttaröryggi skattaðila vegna íþyngjandi eðlis stjórnvaldsákvarðana á þessu sviði, og tengsl þess við almennar lögskýringarreglur í skattarétti og meginreglur stjórnsýslulaga. Þá verður fjallað almennt um viðurlög við skattalagabrotum og grunnákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt (hér eftir skammstöfuð tsl.), um málsmeðferð í íslenskum skattarétti.
    Í þriðja kafla verður sjónum beint að skattastjórnsýslunni. Fjallað verður almennt um hlutverk og verkefni einstakra skattyfirvalda en sú umfjöllun takmarkast þó, umfangsins vegna, við embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd. Sérstök áhersla verður á umfjöllun um embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins og verður m.a. gerð grein fyrir sögulegum bakgrunni embættisins. Skattrannsóknarstjóri ríkisins annast, svo sem nafnið gefur til kynna, rannsóknir á ætluðum skattalagabrotum en við þær rannsóknir kristallast annars vegar togstreitan milli réttinda skattaðila og sakborninga í skattarefsimálum og hins vegar nauðsyn öflugra og virkra heimilda til skattrannsókna. Þrátt fyrir að skatteftirlit ríkisskattstjóra annars vegar og rannsóknir embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins hins vegar, á ætluðum skattalagabrotum, virðist um margt svipuð úrræði, a.m.k. í augum hins almenna borgara, þá er tiltekinn grundvallarmunur á málsmeðferð embættanna. Meginmunur á málsmeðferð embættanna felst einkum í því að við framkvæmd skattrannsókna skal gætt að ákvæðum sakamálalaga nr. 88/2008 (hér eftir skammstöfuð sml.). Þá hefur skattrannsóknar-stjóri ríkisins tilteknar sértækar heimildir sem embætti ríkisskattstjóra hefur ekki, s.s. að krefjast aðstoðar lögreglu, láta lögreglu stöðva atvinnurekstur auk þess að krefjast kyrrsetningar, allt við tilteknar aðstæður að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sem nánar verður fjallað um. Í kaflanum verður einnig vikið að valdmörkum skattyfirvalda og lögreglu en á þau reyndi í Hrd. 8. febrúar 2008 (21/2008), sem reifaður verður í sama kafla. Það mál varðaði kröfu ríkislögreglustjóra um heimild til húsleitar í húsakynnum skattrannsóknarstjóra ríkisins í kjölfar neitunar skattrannsóknarstjóra ríkisins um að afhenda tiltekin gögn. Að lokum verður þeim málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins lýst sem áhrif hafa við meðferð skattrannsóknarmála. Umræddum reglum er ætlað að auka réttaröryggi skattaðila með því að gera strangar kröfur til málsmeðferðar innan skattastjórnsýslunnar. Það er því mikilvægt að þeim sé fylgt en brot gegn þeim getur leitt til ógildingar á ákvörðun skattyfirvalda eins og nánar verður rakið.
    Fjórði kafli er tileinkaður umfjöllun um framkvæmd rannsókna hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Megináhersla umfjöllunarinnar verður könnun á einstökum rannsóknar- og valdheimildum embættisins. Við þá umfjöllun verður vikið að almennri upplýsingaskyldu skattaðila og annarra aðila, sem upplýsingar geta veitt, og heimildum embættisins til að krefjast afhendingar gagna. Sérstaklega verður kannað hvort heimildir embættisins, einkum um beitingu þvingunarráðstafana svo sem húsleitar og haldlagningar, samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga, samræmist almennum meginreglum sakamálaréttarfars um réttindi sakborninga, ákvæðum stjórnarskrárinnar og MSE. Þá verður einnig vikið að hugsanlegum sérreglum varðandi upplýsingaskyldu lögmanna og verjenda sakborninga í skattamálum.
    Að lokum verða dregnar saman helstu niðurstöður og ályktanir af umfjöllun ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
  • 2.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11234


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
RITGERÐ 02.05.2012.pdf1.07 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
FORSÍÐA RITGERÐAR.pdf31.2 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna