is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11387

Titill: 
  • Er slys það sama og slys? Slysahugtakið í vátryggingarétti
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Mikið hefur reynt á hugtakið slys, eins og það hefur verið skilgreint í vátryggingarétti, fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og einnig fyrir dómstólum.Markmið ritgerðarinnar er að gera ítarlega grein fyrir efnislegu inntaki slysahugtaksins eins og það er skilgreint og hefur verið afmarkað í úrskurðum og dómum. Hugtakinu verður skipt niður og hver og einn þáttur skoðaður sérstaklega. Þá verður reynt að finna út, með því að skoða úrskurði og dóma, hvaða tilvik eru talin slys í skilningi slysahugtaksins og hvaða tilvik ekki. Einnig verður slysahugtak vátryggingaréttar skoðað í samanburði við hugtakið líkamstjón í skaðabótarétti og einnig borið saman við slysahugtak almannatryggingaréttar, en það hefur verið lögfest í lög um almannatryggingar nr. 100/2007. Í 2. kafla ritgerðarinnar verður farið yfir hugtakið líkamstjón í skaðabótarétti. Áhersla verður lögð á þau tilvik sem talin eru vera líkamstjón en talsvert fleiri tilvik eru talin líkamstjón í skilningi skaðabótaréttar en þau sem talin eru vera slys í vátryggingarétti. Þá verður einnig farið yfir á hvaða grundvelli tjónþoli getur átt rétt á skaðabótum vegna líkamstjóns.
    Í 3. kafla verður fjallað um vátryggingarétt og gert grein fyrir því hvað er vátrygging og hvernig vátryggingar skiptast í skaða- og persónutryggingar. Ásamt því verður fjallað um lög nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, en þau höfðu í för með sér ýmsar breytingar frá eldri lögum og bættu stöðu vátryggingartaka að miklu leyti. Einnig verður fjallað um skilmála vátryggingarsamninga en efni vátryggingarsamninga ráðast að miklu leyti af skilmálum þeirra.
    Í 4. kafla verður fjallað um slysatryggingar og helstu einkenni þeirra. Áhersla verður lögð á að gera grein fyrir summutryggingum en langflestar slysatryggingar eru summutryggingar. Þá verður farið yfir nokkra flokka slysatrygginga sem allar innihalda skilgreiningu á slysahugtakinu í skilmálum sínum. Einnig verður í stuttu máli fjallað um slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðalaga nr. 50/1987, en hún er talsvert ólík öðrum slysatryggingum.
    Í 5. kafla ritgerðarinnar er að finna meginefni hennar en í honum verður fjallað um slysahugtak vátryggingaréttar. Í upphafi kaflans er almenn umfjöllun um slysahugtakið og hvernig það er skilgreint hér á landi og í dönskum rétti. Kaflanum er svo skipt upp þar sem fjallað er um hvern þátt skilgreiningarinnar sérstaklega. Fyrstur er þátturinn um skyndilegan atburð. Að honum loknum verður farið yfir skilyrði slysahugtaksins um utanaðkomandi atburð og svo er vikið að viljaþætti hugtaksins. Í hverjum og einum kafla verður farið yfir þau tilvik sem helst á reynir varðandi hvern þátt fyrir sig með vísan til úrskurða og dómaframkvæmdar. Því næst er fjallað um hvort andleg veikindi eða áföll geti talist slys í skilningi slysahugtaksins. Þá er hugtakið slys í vátryggingarétti borið saman við hugtakið líkamstjón í skaðabótarétti og fjallað um muninn á þessum tveim hugtökum, ásamt muninum á grundvelli slysabóta og skaðabóta. Að lokum eru helstu niðurstöður kaflans teknar saman.
    Í 6. kafla verður í stuttu máli farið yfir hugtakið slys í almannatryggingarétti en það hefur verið lögfest í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007. Í upphafi kaflans verður fjallað um eðli slysatrygginga og gildissvið þeirra. Því næst verður skoðuð framkvæmd úrskurðarnefndar almannatrygginga og dómstóla, fyrir og eftir lögfestingu slysahugtaksins. Leitast verður við að skoða hvort túlkun slysahugtaksins í almannatryggingarétti sé sambærileg túlkun slysahugtaksins í vátryggingarétti, en hugtökin eru samhljóða. Í lok kaflans verða slysahugtökin borin saman en svo virðist sem túlkun hugtakanna sé ekki alveg sambærileg á þessum tveim réttarsviðum.
    Í 7. kafla ritgerðarinnar verður efni hennar dregið saman og gerð grein fyrir helstu niðurstöðum.

Samþykkt: 
  • 4.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11387


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA verkefni - lokaskil.pdf807.91 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Forsíða.pdf30.52 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna