is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11392

Titill: 
  • Málfræðikennsla í mótun: Um stöðu kennslu í íslenskri málfræði á framhaldsskólastigi árið 2012
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er fjallað um stöðu málfræðikennslu í íslensku á framhaldsskólastigi árið 2012. Byrjað er á að fjalla um skiptar skoðanir fræðimanna og kennara á gildi málfræðikennslu síðustu áratugi en þeir hafa löngum deilt um mikilvægi málfræðikennslu í íslensku og virðist gagnrýni þeirra einkum tvíþætt. Í öðrum hópnum eru þeir sem telja að flest í málfræðikennslu eigi rétt á sér og telja hana meðal annars gera nemendur að betri málnotendum. Í hinum hópnum eru þeir sem finnst málfræðikennsla að mörgu leyti tilgangslaus. Fjallað er um deilur fræðimanna og kennara, hugsanlegar orsakir þeirra og tillögur að bættri málfræðikennslu.
    Næst er fjallað um hlutverk aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla og nýja aðalnámskrá framhaldsskóla sem tók gildi árið 2011 í kjölfar nýrra laga um framhaldsskóla frá 2008. Með nýrri aðalnámskrá fá framhaldsskólarnir aukna ábyrgð á námskrárgerð og tækifæri til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skólans, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs. Síðast en ekki síst er fjallað um mikilvægar úttektir sem gerðar hafa verið á íslenskukennslu í framhaldsskólum árin 1987 og 2011 en þær gefa áhugaverðar vísbendingar sem mikilvægt er að bera saman við niðurstöður könnunarinnar 2012.
    Kjarni ritgerðarinnar er könnunin á stöðu málfræðikennslu árið 2012. Til þess að kanna stöðu málfræðikennslunnar vann höfundur að rannsókn í formi rafrænnar könnunar sem send var í sex framhaldsskóla á landinu og voru allir íslenskukennarar þessara skóla beðnir að taka þátt. Markmið könnunarinnar var að afla vitneskju um viðhorf kennara til málfræðikennslu, hver staða málfræðikennslu er nú og hvort von sé á breytingum á málfræðikennslu með nýrri námskrá skólanna samkvæmt lögum frá 2008.
    Niðurstöður könnunarinnar voru áhugaverðar. Þær rímuðu við niðurstöður fyrri úttekta sem gerðar hafa verið á stöðu íslenskukennslu um að auka þurfi vægi málfræðinnar í námskrá skólanna. Þá virtust kennsluaðferðir vera fremur fábreyttar og námsefni oft lítt spennandi fyrir nemendur. Vinna við gerð nýrra námskráa er mislangt komin en þrátt fyrir það höfðu þátttakendur margt um vinnslu hennar að segja og hvaða breytingar þeir vildu helst sjá.
    Í ljósi umræðna um tilgang málfræðikennslu síðastliðna áratugi, úttekta á stöðu íslenskukennslu árin 1987 og 2011 og innleiðingar nýrra laga um námskrárgerð framhaldsskóla er áhugavert að sjá stöðu málfræðikennslu á framhaldsskólastigi nú. Þá er ekki síður athyglisvert að sjá hvaða ályktanir megi draga af þeim um framtíð íslenskrar málfræðikennslu sem er nauðsynlegur þáttur almennrar menntunar.

Samþykkt: 
  • 4.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11392


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
RITGERÐIN.pdf1.27 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna