is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11426

Titill: 
  • Staðarlögsögureglur við meðferð alþjóðaglæpa fyrir dómstólum einstakra ríkja
  • Titill er á ensku National Prosecutions for International Crimes Based on Territorial Jurisdiction
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Meðferð alþjóðaglæpa er áberandi í umfjöllun á sviði alþjóðlegs refsiréttar. Fyrst og fremst á að reka mál vegna alþjóðaglæpa fyrir innanlandsdómstólum. Þá getur reynt á hvaða lögsögureglur dómstólar einstakra ríkja geta beitt við meðferð slíkra mála.
    Hinir eiginlegu alþjóðaglæpir samkvæmt 1. mgr. 5. gr. Rómarsamþykktar frá 1998 eru hópmorð, glæpir gegn mannúð, stríðsglæpir og glæpir gegn friði. Sá síðastnefndi er enn ekki undir virkri lögsögu þar sem ekki hefur náðst samkomulag um skilgreiningu þess glæps. Framangreindir glæpir eiga allir sameiginlegt að vera svo alvarlegir í eðli sínu að þeir brjóta gegn hagsmunum alls mannkyns. Afmörkun glæpanna byggir á skilgreiningu fræðimanna og Rómarsamþykktinni, og er fjallað um inntak hvers glæps fyrir sig.
    Staðarlögsögureglur skiptast í fimm lögsögureglur; forráðasvæðislögsögu þegnreglu, verndarlögsögu, öryggislögsögu og allsherjarlögsögu. Fyrstu fjórar lögsögureglurnar eru hinar hefðbundnu staðarlögsögureglur en allsherjarlögsaga er enn nokkuð umdeild. Hver staðarlögsöguregla byggir á sínum eigin tengslaþætti sem jafnframt skilur þær frá hvor annarri. Refsivarsla ríkis vegna alþjóðaglæpa er sérstaklega byggð á hinum hefðbundna tengslagrundvelli, þ.e. tengsl ríkis við yfirráðasvæði, sakborning, brotaþola eða öryggishagsmuni, en í ákveðnum tilvikum er tengslaþáttur ríkis byggður á eðli glæpanna. Öllum þessum staðarlögsögureglum hefur verið beitt í réttarframkvæmd einstakra ríkja við meðferð alþjóðaglæpa.
    Forráðasvæðislögsaga er síst umdeild meðal ríkja. Helsta ágreiningsatriði varðandi lögsöguna var í Lotus-málinu (1927) þegar ákveðin skörun var á lögsögunni þegar hún var framlengd eða nánar útfærð með reglum um fánaríkislögsögu og staðarákvörðun brots þegar árekstur skipa var á úthafinu, en með lögfestingu Hafréttarsamnings hefur verið tekið á slíku og gildir fánaríkislögsaga þess skips sem það siglir fyrir, en annars gildir þegnregla.
    Oftast eru tengsl ríkis við sakborning á grundvelli þess að hann sé ríkisborgari eða búsettur í því ríki ekki álitaefni. Hins vegar ef þessi tengsl eru dregin í efa, s.s. vegna þess að sakborningur hefur fleiri en einn ríkisborgararétt, þarf að hafa til hliðsjónar hvort „raunveruleg tengsl” séu fyrir hendi. Verndarlögsaga byggir á sömu sjónarmiðum um raunveruleg tengsl ríkis við brotaþola, en helsta álitaefnið er hvort verndarlögsaga ríkis nái einnig yfir ríkisborgara eða búsetta menn bandalagsríkis þess. Réttarframkvæmd einstakra ríkja bendir til þess að svo sé, en önnur ríki hafa sett að minnsta kosti það skilyrði að það sé í sömu vopnuðum átökum. Öryggislögsögu er oftast ekki beitt yfir alþjóðaglæpi þar sem aðrar staðarlögsögureglur komi til greina, en raunhæft er að beita lögsögunni yfir hvers kyns brot gegn öryggishagsmunum ríkis, enda öryggishagsmunahugtakið túlkað rúmt. Síðasta staðarlögsagan og jafnframt sú umdeildasta er allsherjarlögsaga, en sú lögsaga er fyrst og fremst byggð á eðli glæps og jafnvel án nokkurra efnislegra tengsla við ríkið eða yfirráðasvæði þess. Hún virðist þó verða viðurkennd meðal ríkja að nokkru marki en deilt er um hversu langt megi ganga í þeim efnum, þ.e. hvort ákæra megi mann in absentia og hvenær ríkjum sé heimilt að beita slíkri lögsögu (óskilyrt), eða hvort einhver skilyrði þurfi að vera til staðar svo hægt sé að beita henni (skilyrt allsherjarlögsaga), og að lokum gegn hvaða alþjóðaglæpum beita megi allsherjarlögsögu. Í umfjöllun um staðarlögsögureglurnar voru íslenskar lagareglur hafðar í huga, auk þess sem samanburður var gerður á refsilögum annarra Norðurlandaríkja.
    Með hliðsjón af því að ríki eiga að tryggja að raunverulega sé sótt til saka fyrir alþjóðaglæpi með því að gera ráðstafanir á innlendum vettvangi og það sé skylda sérhvers ríkis að beita refsilögsögu sinni gagnvart þeim sem bera ábyrgð á þeim glæpum, sbr. 6. lið inngangsorða Rómarsamþykktarinnar, var einnig vikið að því hvernig þessu er háttað á Íslandi. Ljóst er að ekki hefur verið lögfest nein sérákvæði um alþjóðaglæpi, og er íslenska ríkið að vanrækja skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðasamningum sem það hefur fullgilt með því að lýsa verknaði ekki refsiverða í landsrétti sínum. Getur slíkt leitt til að íslenska ríkið þurfi að lúta lögsögu alþjóðadómstóla, jafnvel þó það óskaði eftir að hefja málssókn.

Samþykkt: 
  • 7.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11426


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Staðarlögsögureglur við meðferð alþjóðaglæpa fyrir dómstólum einstakra ríkja.pdf1.32 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna