is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11549

Titill: 
  • „Það var rosa mikið hrósað henni.“ Virkni nýju setningagerðarinnar í máli barna á yngsta stigi grunnskóla
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Þessi ritgerð er lögð fram til B.A.-prófs í íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.
    Aðalviðfangsefni ritgerðarinnar er setningagerð sem hefur rutt sér til rúms í íslensku talmáli á síðustu áratugum. Setningagerðin hefur ýmist verið kölluð nýja setningagerðin eða nýja þolmyndin. Hér er um að ræða setningar eins og Það var lamið stelpuna í skólanum og Í vinnuna var sagt henni að mæta fyrr. Ritgerðin inniheldur fræðilega umfjöllun um hefðbundna þolmynd og nýju setningagerðina. Þar verður fyrirbærið ný þolmynd, eða nýja setningagerðin, útskýrt og því lýst hvernig nýja þolmyndin er ólík hefðbundinni þolmynd. Einnig verður greint frá fyrri rannsóknum á nýju setningagerðinni og fjallað um rannsókn sem var lögð fyrir 6-9 ára börn á vormánuðum ársins 2012. Rannsóknin er þversniðsathugun sem miðaði að því að kanna myndun barna á nýju setningagerðinni. Auk þess að kanna virkni nýju þolmyndarinnar í máli barna var tilgangur rannsóknarinnar að athuga hvort það hefði áhrif á þolmyndarmyndun hvaða falli áhrifssögnin í setningunni stýrði. Því var athugað hvort algengara væri að börn mynduðu setningar í þolmynd eða nýrri þolmynd í setningum sem innihéldu áhrifssögn sem stýrir þolfalli, áhrifssögn sem stýrir þágufalli eða í setningum með tveggja andlaga sögn. Rannsóknaraðferðirnar voru tvær, svokölluð söguaðferð og leikaðferð. Tilgangurinn með því að nota mismunandi aðferðir var að kanna hvor þeirra hentaði betur til þess að laða fram þolmynd í máli barna. Þá var einnig skoðað hvort niðurstöðurnar væri mismunandi eftir aldri barnanna.
    Rannsóknin var lögð fyrir 40 börn og niðurstöðurnar leiddu í ljós að börnin mynduðu setningar í hefðbundinni þolmynd og af nýju setningagerðinni í nokkrum mæli. Um 25% þeirra barna sem tóku þátt í fyrri könnuninni, þar sem söguaðferðin var notuð, notaði nýju setningagerðina og 75% þeirra svöruðu í hefðbundinni þolmynd. Niðurstöður söguaðferðarinnar leiddu í ljós að nýja setningagerðin var oftast notuð með sögnum sem taka með sér þolfallsandlag. Leikaðferðin skilaði svörum með nýju setningagerðinni hjá 55% þátttakenda og svörum í hefðbundinni þolmynd hjá 20% þátttakenda. Nýja setningagerðin var jafn oft notuð með sögnum sem taka með sér þolfalls- og þágufallsandlög í leikaðferðinni. Tveggja andlaga sagnir skiluðu fæstum svörum í nýju setningagerðinni, bæði í sögu- og leikaðferðinni.
    Báðar aðferðirnar gefa til kynna að nýja setningagerðin sé algengari hjá yngri börnum og hefðbundin þolmynd var oftar notuð í eldri aldurshópunum. Í sumum setningum fengust aðeins svör í germynd en þrátt fyrir það gefur rannsóknin nokkuð góða mynd af virkni þolmyndar í máli barna á yngsta stigi grunnskóla og er skref í átt að hönnun prófs sem tekst að laða þolmyndarsetningar og setningar með nýju setningagerðinni fram hjá ungum íslenskum börnum.

Samþykkt: 
  • 9.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11549


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Iðunn Garðarsdóttir.pdf419.26 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna