is Íslenska en English

Skýrsla

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Rit starfsmanna >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/11586

Titill: 
  • Samkennsla stað- og fjarnema í grunnnámi í Kennaradeild við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2010-2011
Útgáfa: 
  • Maí 2012
Útdráttur: 
  • Í kjölfar hruns bankakerfisins á Íslandi varð mikill niðurskurður á fjárframlögum til Háskóla Íslands. Við Menntavísindasvið (MVS), þar sem lengi hafði verið venja að fjarnemum og staðnemum væri kennt í aðskildum námskeiðum í grunnnámi, var m.a. brugðist við með því að setja þá meginreglu að öll námskeið skyldu skipulögð í samkennslu þannig að fjarnemum og staðnemum væri kennt saman. Skólaárið 2010–2011 voru því flest námskeið samkennd.
    Á vormisseri árið 2011 var gerð rannsókn á þessu fyrirkomulagi í grunnámi í Kennaradeild. Markmiðið var að afla upplýsinga um reynslu kennara og nemenda, mat þeirra á gæðum samkennslu miðað við kennslu í aðskildum hópum og um viðhorf til samkennsluformsins.Í skýrslunni eru kynntar niðurstöður úr rannsókninni og á grundvelli þeirra settar fram tillögur um aðgerðir til að styðja við þróun kennslu við MVS. Gögnum var annars vegar safnað með spurningarlistum á neti meðal nema (N=69) og kennara (N=45) og hins vegar með viðtölum við 22 nema og 9 kennara í átta grunnnámskeiðum af 48 sem voru samkennd í Kennaradeild á haustmisseri 2010.
    Töluverður munur er á þeim hópum sem kjósa að stunda fjarnám að mestu, vera ýmist í stað- eða fjarnámi eða stunda staðnám að mestu. Fjarnemar eru að staðaldri eldri, búa frekar fjarri höfuðborginni (eða jafnvel erlendis) og eru að meðaltali í hæsta starfshlutfalli með námi af hópunum þremur. Samkennslulíkanið byggir á reglubundinni kennslu í hverri viku fyrir staðnema og staðlotum yfirleitt tvisvar á misseri þar sem fjarnemar eiga að mæta en misjafnt er hvort staðnemum er líka ætlað að taka þátt í þeim lotum. Meiri ánægja var með reglubundnu kennslustundirnar bæði hjá nemendum og kennurum heldur en staðloturnar. Vandamál tengd staðlotunum snertu stundatöflugerð, árekstra milli námskeiða, kostnað, slæma nýtingu á tíma og skipulagsleysi. Bent var á að nýta þyrfti tæknina betur til að gefa kost á mætingu í gegnum fjarfundabúnað eða netfundi. Staðlotur voru þó taldar mikilvægar m.a. til að byggja upp tengslanet, vegna samvinnu og verklegrar kennslu og fram kemur að meirihluti bæði nemenda og kennara vilja hafa staðlotur með svipuðu fyrirkomulagi og verið hefur. Í samkennsluforminu er almennt stuðst við námsumsjónarkerfi á netinu en einnig voru ýmsir aðrir tæknimöguleikar nýttir. Upptökur voru mjög mikið nýttar í kennslu og var mikil ánægja með talglærur og skjáupptökur svo og fyrirlestra en langminnst með upptökur úr bekkjartímum. Kennarar töldu það vera misjafnt eftir greinum og námskeiðum hversu margar staðbundnar kennslustundir þyrfti. Nemar og kennarar lýstu áhyggjum yfir fækkun kennslustunda sem komi sérstaklega niður á list- og verkgreinum. Kennurum fannst lítil virkni fjarnema mikið áhyggjuefni og fannst vera aukið álag að sinna báðum hópunum í samkennsluforminu. Sumum fannst mikilvægara að sinna staðnemum en fjarnemum.
    Í samkennslu staðnema og fjarnema er mikilvægt að átta sig á að kennaranemarnir í hverju námskeiði eru í ólíkri stöðu en MVS hefur skuldbundið sig til að veita menntun bæði þeim sem hafa valið sér fjarnámsform og þeim sem hafa valið sér staðnámsform. Skólaárið 2010–2011 varð yfir 5000 tíma samdráttur í vinnustundafjölda vegna samkennslu en bæði kennarar og nemar lýstu fleiri ókostum en kostum á samkennslunni miðað við kennslu í aðskildum hópum. Margir fjarnemar töldu að þeim væri verr sinnt í samkennsluforminu og staðnemar höfðu áhyggjur af því að tímum í staðnámi fækkaði. Þrátt fyrir allt töldu bæði kennarar og nemendur sem þátt tóku í rannsókninni að þróa beri samkennslu áfram en þá með allnokkrum breytingum.

ISBN: 
  • 9789935406125
Athugasemdir: 
  • Unnið á vegum Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM)
Samþykkt: 
  • 10.5.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/11586


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Samkennsla_Kennaradeild_MVS_2010_2011.pdf903.09 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna