is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlindadeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Auðlindadeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12443

Titill: 
  • Áhrif öskufalls á næringarefni jarðvegs
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Eldstöðvar hafa sett svip sinn á jarðveg Íslands í gegnum tíðina með tíðum eldgosum, enda er eldfjallajarðvegur ríkjandi jarðvegsgerð hér á landi. Öskufallið í Eyjafjallajökli hafði mikil áhrif á nærsveitir jökulsins þar sem gróður fór á kaf í ösku og er því athyglisvert að skoða öskuna í ljósi þess að hún er nú orðin hluti af jarðveginum.
    Markmið rannsóknarinnar var að kanna þær breytingar sem verða á magni nýtanlegra næringarefna í öskunni eftir að hafa veðrast í eitt ár, að bera saman efnainnihald í jarðvegi túna fyrir og eftir öskufall og að mæla öskuþykkt í túnspildum á mismunandi stöðum á öskufallssvæðinu og meta hvaða áhrif öskuþykktin hefur á magn nýtanlegra næringarefna í jarðveginum.
    Vorið 2011 voru tekin jarðvegssýni úr 20 túnspildum undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum og var öskuþykkt túnspildnanna mæld á sama tíma. Auk þessa var öskusýnum safnað á þremur stöðum. Magn nýtanlegra steinefna í ösku- og jarðvegssýnunum var mælt í AL-skoli og var sýrustig þeirra einnig mælt. Fyrir 16 túnspildur voru til staðar jarðvegsefnagreiningar frá því fyrir öskufall og voru þær bornar saman við efnagreiningar eftir öskufall. Rúmþyngd sýnanna var einnig mæld og út frá því var rúmþyngd jarðvegsins fyrir öskufall áætluð.
    Töluvert minna var af nýtanlegum næringarefnum í öskunni eftir veðrun í eitt ár en strax eftir öskufall, en þó var enn nokkuð magn. Sýrustig túnspildnanna hafði í flestum tilfellum hækkað og magn nýtanlegs fosfórs í efsta lagi jarðvegsins aukist í samhengi við öskuþykkt. Ekki fengust afgerandi niðurstöður um magn annarra steinefna vegna skorts á upplýsingum um stöðu jarðvegsins fyrir öskufall, en þó bentu niðurstöðurnar til þess að magn nýtanlegs natríums hefði aukist eftir öskufallið.

Samþykkt: 
  • 29.6.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12443


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Áhrif öskufalls á næringarefni jarðvegs_LiljaDöggBS.pdf1.12 MBOpinnPDFSkoða/Opna