is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12731

Titill: 
  • Friðhelgi einkalífs barna á meðferðarstofnunum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í ritgerðinni er fjallað um þau grundvallarmannréttindi sem felast í friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Aðalumfjöllunarefnið er réttur barna, sem vistuð eru á meðferðarstofnunum, til þessara mannréttinda og er komist að þeirri niðurstöðu að börn eiga að njóta friðhelgi einkalífs til jafns við fullorðna. Jafnframt er því slegið föstu að þessi réttindi skuli virt í hvívetna og taki þannig bæði til einkalífs á heimili og innan veggja meðferðarstofnana. Fjallað er um hugtakið „einkalíf“ sem er margþætt hugtak en kjarni þess felst í að hver maður skuli ráða yfir lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi.
    Fjallað er um 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en í ákvæðinu er kveðið á um að börn skuli ekki sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi sínu og tekið fram að þau eigi rétt á vernd laganna fyrir afskiptum og árásum. Þá er fjallað um þá meginreglu barnaréttar að gera skuli þær ráðstafanir sem barni eru fyrir bestu, forsjárskyldur foreldra og samráðsrétt barna. Komist er að þeirri niðurstöðu að fylgja beri meginreglunni til hins ýtrasta og stjórnvöldum beri að veita nægilegu fé til stofnana sem þjónusta börn. Kynntar eru sérhæfðar meðferðarstofnanir sem starfræktar eru á Íslandi í þeim tilgangi að veita börnum greiningu og meðferð. Fjallað er um barna- og unglingageðdeild Landspítalans og þær takmarkanir sem gerðar eru á hinum ýmsu réttindum barna sem leggjast inn á deildina. Komist er að þeiri niðurstöðu að lagarammi um takmarkanirnar sé alfarið ófullnægjandi enda séu takmarkanirnar ekki gerðar með lögum, eins og áskilið er í 71. gr. stjórnarskrárinnar. Því næst er fjallað um 82. gr. barnaverndarlaga, en í ákvæðinu er sérstaklega fjallað um rétt barna, sem vistuð eru á stofnunum, til friðhelgi einkalífs og skýrt í hvaða nánar tilgreindum tilvikum beita má þvingunarráðstöfunum. Þá er fjallað um reglur sem gefnar voru út af Barnaverndarstofu árið 1999 um réttindi barna og beitingu þvingunar á meðferðarheimilum, sem settar voru með stoð í þágildandi barnavernarlögum nr. 58/1992. Samkvæmt munnlegum heimildum, sem aflað var í tengslum við ritgerðina, er leitast við að sýna börnum, sem lögð eru inn á þessar meðferðarstofnanir, fagmennsku og umhyggju og veita þeim öryggi. Þá er reynt eftir fremsta megni að virða friðhelgi einkalífs barnanna, en eðli máls samkvæmt er nauðsynlegt að takmarka þessi réttindi þeirra að einhverju leyti með tilliti til markmiðs vistunar í hverju tilviki. Fram kemur að vegna fjárskorts sé á stundum ekki fært að beita þeim úrræðum, sem henta barni best, en það gengur gegn því meginlögmáli barnaréttar að gera það sem barni er fyrir bestu.
    Eftir lögfestingu 82. gr. bvl. á sl. ári er lagarammi um þvingunarráðstafanir á meðferðarstofnunum Barnaverndarstofu orðinn mun skýrari en áður. Er því mikil réttarbót af ákvæðinu og verður ekki betur séð en að réttindi barna að séu að þessu leyti tryggð. Enn eru þó í gildi fyrrgreindar reglur frá 1999 um réttindi barna og beitingu þvingunar á meðferðarheimilum undir yfirstjórn Barnaverndarstofu. Brýnt er að gefnar verði sem fyrst út nýjar reglur sem eru í fullu samræmi við 82. gr. bvl., enda er þar mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð, m.a. um þvingunarráðstafanir og málsmeðferð vegna beitingar þeirra, sbr. a. lið 4. mgr. ákvæðsins. Þá skal, samkvæmt 6. mgr., mælt fyrir um rétt barns og foreldra þess til að skjóta ákvörðunum um takmarkanir á réttindum og þvingunarráðstafanir til kærunefndar barnaverndarmála.
    Meginniðurstaðan er því sú að friðhelgi einkalífs barna á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu sé tryggð með ákvæðum stjórnarskrár, alþjóðlegum mannréttindasamningum og barnaverndarlögum og hún sé í framkvæmd virt í öllum aðalatriðum á þeim stofnunum sem til umfjöllunar voru. Hins vegar virðist barna- og unglingageðdeild vera í lagalegu tómarúmi og brýnt að löggjafinn setji lagaramma um framkvæmd innan deildarinnar ef takmarka skal mannréttindi barna.

Styrktaraðili: 
  • .
Athugasemdir: 
  • Friðhelgi einkalífs, börn, meðferðarstofnanir, meðferðarheimili, barna- og unglingageðdeild, 82. gr. bvl., barnaverndarlög
Samþykkt: 
  • 15.8.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12731


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Friðhelgi einkalífs barna á meðferðarstofnunum.pdf263.25 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
HI_kapa_tinna.pdf105.96 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna