is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12817

Titill: 
  • Stjórnsýsluviðurlög í atvinnuleysistryggingakerfinu á Íslandi
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ísland er talið í fremstu röð meðal þjóða heims hvað varðar félagslegt öryggi borgara sinna. Hér á landi hefur fjárhagsleg aðstoð verið til staðar, fyrir þá sem þess þurfa eða hluta þeirra, í einhverri mynd allt frá tímum Þjóðveldisaldar. Ástæður þess að einstaklingur þarfnast framfærsluaðstoðar frá hinu opinbera eru eins misjafnar og þær eru margar en í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er í 1. mgr. 76. gr. mælt fyrir um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í þeim efnahagslegu þrengingum sem Ísland hefur gengið í gegnum síðustu ár hafa atvinnuleysistryggingar gegnt viðamiklu hlutverki og eru þær ein útfærsla hinnar fjárhagslegu aðstoðar sem ríkið veitir þegnum sínum á grundvelli 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeim tilgangi að fullnægja stjórnskipulegri athafnaskyldu sinni á grundvelli 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hefur löggjafinn komið á fót sértæku atvinnuleysistryggingakerfi sem gerir þeim einstaklingum, sem þess þurfa og að uppfylltum nánari skilyrðum í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, kleift að fá fjárhagslegar bætur frá hinu opinbera vegna tímabundins atvinnuleysis. Í núgildandi lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er mælt fyrir um sérstaka stofnun, Vinnumálastofnun, sem hefur verið falin framkvæmd og nánari útfærsla réttinda einstaklinga til fjárhagsaðstoðar vegna atvinnuleysis. Hefur hún ákvörðunarvald um réttindi og skyldur þeirra einstaklinga sem sækja fjárhagsaðstoð til hennar. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar, um rétt einstaklinga til atvinnuleysistrygginga, eru í eðli sínu stjórnvaldsákvarðanir og ber því að gæta að reglum stjórnsýsluréttarins, skráðum og óskráðum, við beitingu laga um atvinnuleysistryggingar. Til að stjórnarskrárvarinn réttur einstaklings til framfærslu vegna atvinnuleysis verði virkur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar verður hann að uppfylla þær skyldur sem á hann eru lagðar og löggjafinn hefur talið nauðsynlegar svo unnt sé að veita framfærsluna. Rétti einstaklings til framfærslu vegna atvinnuleysis fylgja því ákveðnar skyldur. Ef við þeim er ekki orðið eða þeim ekki sinnt getur einstaklingur fyrirgert þessum rétti sínum og honum verið gert að sæta stjórnsýsluviðurlögum vegna brota á lögum um atvinnuleysistryggingar.
    Í ritgerð þessari verður leitast við að gera almenna grein fyrir inntaki réttar einstaklings til framfærsluaðstoðar vegna atvinnuleysis og hvernig sá réttur er skilgreindur og túlkaður í stjórnarskrá Íslands sem og þeim mannréttindasáttmálum- og samningum sem Ísland er aðili að. Sérstök áhersla verður lögð á umfjöllun um það hvaða form- og efnisreglur stjórnsýslulaga gilda um málsmeðferð Vinnumálastofnunar við beitingu stjórnsýsluviðurlaga á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og hvort og þá að hvaða leyti mannréttindasáttmáli Evrópu hafi áhrif á slíkar stjórnvaldsákvarðanir. Ákvæði X og XI kafla laga um atvinnuleysistryggignar sem veita Vinnumálastofnun ákveðnar heimildir til þess að leggja stjórnsýsluviðurlög á þá sem gerast brotlegir gegn lögum um atvinnuleysistryggingar eru matskenndar og inntak þeirra því ekki ljóst af textaskýringu einni. Í ljósi þess verður farið yfir þá úrskurði Úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem reynt hefur á viðurlagaákvarðanir Vinnumálastofnunar enda vert að sjá hvernig inntak og gildissvið ákvæðanna hefur þróast í framkvæmd.

Samþykkt: 
  • 4.9.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12817


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Stjórnsýsluviðurlög í atvinnuleysistryggingakerfinu á Íslandi.pdf887.92 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Forsíða - Meistararitgerð.pdf126.83 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna